Þessi þema þraut snýst um Noreg. Og fyrri aukaspurningin er þessi:
Hvað heitir norska konan sem sjá má á myndinni hér að ofan?
***
Aðalspurningar:
1. Hver vann Eurovision-keppnina með yfirburðum fyrir Norðmenn árið 2009?
2. Í íshafinu nokkurn veginn milli Norður-Noregs og Svalbarða er svolítil eyja sem Norðmenn hafa ráðið yfir frá 1920. Byggð er þar engin þótt vísindamenn hafist þar stundum við stund og stund. Eyjan er kennd við ákveðið dýr. Hvað heitir hún?
3. Á árunum 1965-1985 var ein frægasta kvikmyndaleikkona heims norsk. Hún lék í allskonar myndum og sjónvarpsþáttum — þar á meðal um hina sænsku Vesturfara — en var þekktust fyrir hlutverk sín í myndum hins svipmikla sænska leikstjóra Ingmars Bergmans. Þau áttu reyndar í sambandi lengi vel og eignuðust dóttur saman Leikkonan hefur á seinni árum leikstýrt myndum með góðum árangri. Hvað heitir hún?
4. Hver er óhætt að segja að sé frægasti málari Norðmanna fyrr og síðar?
5. En frægasta tónskáld þeirra?
6. Þrír Norðmenn hafa fengið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Einn var skáldsagnahöfundur sem skrifaði um Gróður jarðar, annar var karl sem skrifaði aðallega leikrit, hinn þriðji kona sem skrifaði mikinn bálk miðaldasagna um Kristínu Lavrantsdóttur. Hvað hétu þessir Nóbelshöfundar þrír? Þið fáið stig fyrir tvö rétt nöfn, en Holmenkollen-stig fyrir öll þrjú.
7. Sennilega var allra vinsælasti rithöfundur Norðmanna á 20. öld önnur sem líka skrifaði bálk sagna frá miðöldum. Sú kona var aldrei nefnd í tengslum við Nóbelsverðlaun en aðdáendur hennar létu sér það í léttu rúmi liggja. Hvað nefndist sagnabálkurinn hennar?
8. Í byrjun desember á hverju einasta ári beinist nokkur athygli ævinlega að Noregi, eða öllu heldur Osló, þegar þar fer fram ákveðin athöfn. Gestir koma þá jafnan til borgarinnar og haldin er veisla, en fáeinir gestanna eru reyndar stundum nokkuð umdeildir í augum sumra. Hver er að gerast?
9. Hversu margir eru Norðmenn nokkurn veginn? Eru þeir 1,5 milljón — 3,5 milljónir — 5,5 milljónir — 7,5 milljónir — eða 9,5 milljónir?
10. Hvað heitir forsætisráðherra Noregs?
***
Seinni aukaspurning:
Hvað er þetta?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Alexander Rybak.
2. Bjarnarey.
3. Liv Ullmann.
4. Munch.
5. Grieg.
6. Knut Hamsun, Björnsterne Björnsson og Sigrid Undset.
7. Ísfólkið.
8. Afhending friðarverðlauna Nóbels.
9. Norðmenn eru um 5,5 milljónir.
10. Jonas Gahr Støre. Þið ráðið hversu nákvæmt þið teljið nafnið þurfa að vera!
***
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er Mette-Marit krónprinsessa Norðmanna.
Á neðri myndinni er sjálfur Sognfjörður.
Athugasemdir