Fylgi Samfylkingarinnar mælist 25,7 prósent í nýrri skoðanakönnun frá Maskínu, en fylgi Sjálfstæðisflokksins einungis 18,7 prósent. Það mælist því tæplega sjö prósentustiga munur á fylgi flokkanna tveggja og er munurinn nú tölfræðilega marktækur.
Það hafði munurinn ekki verið í þeim þremur könnunum Maskínu undanfarna þrjá mánuði sem mældu Samfylkinguna stærri en Sjálfstæðisflokk. Fylgi Samfylkingar eykst um 1,3 prósentustig á milli mánaða en fylgi Sjálfstæðisflokksins dalar um 1,5 prósentustig.
Í kjölfar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks koma Píratar, Viðreisn og Framsókn með svipað mikið mælt fylgi. Píratar mælast með 11,4 prósent sem er aukning um rúmt prósentustig frá því í mars, Viðreisn mælist með 10,6 prósent sem er aukning um nærri tvö prósentustig frá síðustu könnun Maskínu, en á sama tíma dalar fylgi Framsóknarflokksins um rúm 3 prósent frá fyrri mánuði. Flokkurinn mælist nú með 10,2 prósent fylgi, sem er ríflega sjö prósentustigum minna en flokkurinn fékk í kosningum 2021.
Stuðningur við ríkisstjórnarflokkana dalar
Vinstri græn eru eini stjórnarflokkurinn sem hressist á milli mælinga Maskína, en fylgi við flokkinn mælist 8,2 prósent, sem er 2,2 prósentustigum meira en í marsmánuði.
Það breytir því þó ekki að fylgið við ríkisstjórnarflokkana þrjá í heild mælist slétt 37 prósent, sem er rúmum tveimur prósentustigum minna en í mars og það minnsta sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa samanlagt mælst með á kjörtímabilinu.
Flokkarnir þrír sem sitja í ríkisstjórn fengu alls 54,4 prósent atkvæða er kosið var til þings í september 2021.
Fylgi Miðflokksins mælist 6 prósent, Sósíalistaflokksins 4,9 prósent og fylgi Flokks fólksins 4,4 prósent í þessari könnun Maskínu, sem framkvæmd var dagana 13. til 19. apríl. Alls tóku 852 svarendur afstöðu til flokks.
Og býður förgunar.