Seint verður þakkað það starf sem unnið er af þeim leikhópum sem hafa eignast samastað í Tjarnarbíói. Þar er tilraunaleikhúsi – ef svo má kalla – veitt húsaskjól og þarna hafa margar af athyglisverðari sýningum leikársins birst áhorfendum. Vissulega eru verkefnin jafnmisjöfn og þau eru mörg, en á heildina litið verður að telja verkefnaval og listræna úrvinnslu í betri kantinum.
Hér verður gerð grein fyrir þremur sýningum, sem að undanförnu hafa komið á fjalir Tjarnarbíós; tvær þeirra eru enn í sýningu, en sú þriðja var aðeins sýnd tvisvar, en hefur verið það mörg ár í vinnslu og sýningu að mér þykir rétt að gera nokkra grein fyrir henni og leikhópnum.
Hér verður farið nokkrum orðum um þrjár sýningar í Tjarnarbíói sem saman sýna þá grósku sem hefur átt sér stað í íslensku leikhúslífi allt frá því að Vesturport birtist á fjölunum með ný stílbrögð og nýja listræna sýn; það er alþjóðlegi leikhópurinn Reykjavik Ensemble, Finnsk-íslenski leikhópurinn Spindrift og svo leikhópurinn Alltaf í boltanum, sem leitar á ný áhorfendamið.
Glöggt er gests augað
Fjórar stjörnur
Fyrst skal tekin fyrir sú sýning sem síðast var frumsýnd, Djöfulsins snillingur, í flutningi Reykjavik Ensemble, sem mun vera fyrsti alþjóðaleikhópurinn hér á landi sem sett hefur reglulega sýningar á svið og auk þess hlotið þann virðingarsess að vera Listhópur Reykjavíkur sem vonandi auðveldar hópnum að starfa og tryggir honum nokkurt fé. Leikhópurinn er skipaður fjölþjóðlegum og fjöltyngdum listamönnum sem eiga það sameiginlegt að búa hér á landi og eru þar með kraftur sem auðgar leiklistarmenningu okkar, auk þess sem hann í verkum sínum tekur fyrir þær þjóðfélagsbreytingar sem íslenskt samfélag gengur í gegnum um þessar mundir. Það er því óhætt að segja að Reykjavik Ensemble fylli í það menningarlega skarð sem myndast þegar mannfjöldi landsins tekur breytingum og nauðsynlegt reynist að efla menningarlífið til að allir sem á Íslandi búa finnist þeir vera hluti af samfélaginu.
Djöfulsins snillingur er skrifað af listrænum leiðtogum hópsins, skáldinu Evu Marcinek og leikstjóranum Pálínu Jónsdóttur. Þær segja söguna af Urielu, leikkonu af erlendum uppruna sem kemur til Íslands í atvinnuleit. Hún er listamaður og leggur í baráttu við Kerfið og Valdið til að geta fengið að vinna við list sína – í Þjóðarsirkusi Íslands. Hið gervigreindarstýrða Kerfi leggur á hana margvíslegar áskoranir og hún reynir að fá áheyrn hjá Valdinu. Ekki skal ljóstrað upp um endalok sögu Urielu, en saga hennar er grípandi enda sagan vel sögð bæði hvað handrit varðar og úrvinnslu þess á sviðinu.
Í upphafi leggja höfundar og leikstjóri áherslu á hinar kómísku hliðar og auðheyrt að þau atvik í lífi Urielu sem varpað er ljósi á féllu algerlega að smekk áhorfenda, sem augljóslega könnuðust við þetta ástand, að vera fugl í framandi hreiðri, þekkjandi hvorki regluverk Valdsins, Kerfisins né þær óskrifuðu reglur sem móta samfélagið einnig. Í seinni hluta verksins er hert á snörunni og sagan verður samfélagsgagnrýnin og ádeilan hvassari – allt í rökréttu og eðlilegu samhengi.
Leikhópurinn er býsna jafngóður, en þó mæðir mest á Jördisi Richter sem fer með hlutverk Urielu; hún er á sviðinu nánast hverja mínútu leiksins og ber uppi sýninguna að verulegu leyti. Hún nýtur vissulega góðs stuðnings allra annarra, og það má einnig nefna að leikstjórn, leikmynd, búningar, lýsing, já, allt sem heyrir til umhverfis og umgjörðar vinnur að sama marki.
Það er vert að taka fram að þótt leikhópur og listrænir starfskraftar séu flestir af erlendu bergi brotnir þá er full ástæða fyrir alla sem hér búa, starfa og lifa að sjá sýningu Reykjavik Ensemble. Hún segir ekki aðeins frá því sem Uriela verður fyrir og upplifir, hún segir líka sögu okkar samfélags. Það er skylda okkar allra að bregðast við umbreytingum samfélagsins og skoða þær gagnrýnum og þekkingarþyrstum augum, að öðrum kosti verðum við öll útlendingar, án jarðvegs og næringar.
Knattspyrna og kviðmágar
Þrjár stjörnur
Tveir bræður, Doddi og Óli Gunnar, hittast reglulega til að horfa á alla leiki Manchester United. Þetta er fastur punktur í tilveru þeirra og um leið athvarf þeirra frá umheiminum, þeir fá tilfinningalega útrás yfir leiknum og auk þess gefur fótboltinn þeim tækifæri til að fá sér ærlega neðan í því.
En hér er laugardagurinn þar sem óvæntir hlutir gerast. Kærasti barnsmóður Dodda birtist ásamt söngvaranum Valdimar og veldur því að allt breytist hjá þeim bræðrum. Það er fremur fyndið stílbragð að söngvarinn Valdimar leikur sjálfan sig – og gerir það bara býsna vel! – meðan aðrir leikarar eru í hlutverkum skáldaðra persóna.
Það var auðséð og auðheyrt á frumsýningu að áhorfendur voru vel heima í því menningarumhverfi sem hér var tekið fyrir. Fótboltamenningin er sér á parti og væri verðugt rannsóknarefni fyrir þjóð- og mannfræðinga. Þá væri ekki síður merkilegt fyrir fræðimenn og -konur að skoða viðhorf karla til núverandi kærasta sinna fyrrverandi og kæmi áreiðanlega margt skondið út úr slíkri rannsókn. Hér hafa handritshöfundar einkum valið að beina sjónum að hinum fyndnari birtingarmyndum þessa undarlega kviðmágasambands og reyndar einkennir húmorinn sýninguna frá upphafi til enda og unnendur hins óbærilega léttleika knattspyrnunnar munu eflaust hafa gaman af – og væri ekki síður gaman ef tækist að laða nýja áhorfendahópa í leikhúsið.
Það má svo benda á, að það eru ýmis atriði sem betur mætti fara í saumana á. Það gildir ekki síst um handritið, sem er á köflum losaralegt og laust í reipum og hefði kannski notið góðs af styttingu hér og þar. En ótvírætt gildi þessarar sýningar er að mér sýnist hún meðvitað stefna að því að tala til áhorfendahópa sem leikhúsið að öðru jöfnu vanrækir. Það er vel og óskandi að leikhópnum takist það ætlunarverk sitt.
Karlmennskan sem kerfisvandi
Leikendur (og listrænir stjórnendur Spindrift): Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, Tinna Þorvalds Önnudóttir, Marjo Lahti, Anna Korolainen Crevier Spindrift Theatre er finnsk-íslenskur leikhópur, stofnaður árið 2013 og samanstendur af sjö sviðslistakonum. Hópurinn starfar í báðum löndum og hefur sýnt sýningar sínar á Íslandi, í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Bretlandi. Hópurinn hefur sérhæft sig í því sem á enskri tungu nefnist physical theatre, sem þýðir að líkamstjáning og -hreyfing skiptir máli fyrir þá sögu sem segja skal og felur oftar en ekki í sér eins konar „verfremdung“-áhrif, þ.e. að hreyfingar einstakra leikara og leikhópsins virka eins og athugasemd sem varpar nýju ljósi á það sem verið er að segja frá.
Þetta er þakklátt frásagnarbragð í sýningu hópsins á „them“. Sýningin fjallar um þá tilfinningu – í raun sársaukann – sem fylgir því að passa ekki inn, að heyra hvergi til, að vera konur sem sprikla í feðraveldisnetinu en komast hvorki lönd né strönd. Hvernig eiga þær að hasla sér völl, uppgötva mátt sinn og megin, komast undan þeirri karlmennsku sem á einn eða annan hátt er eitruð?
„them“ er í hæsta máta feminísk sýning, þar sem karlmennskan er sýnd sem samfélagsafl, kerfisvandi, ef svo má að orði komast, og hvergi er körlum hallmælt eða lítið úr þeim gert – en það er greinilegt að vandinn er að verulegu leyti sá að þeir taka ekki ábyrgð á sjálfum sér í samræmi við þróun samfélagsins, breytta stöðu konunnar og breytt hlutverk þeirra sjálfra. Karlarnir, sem hér eru sýndir, þar sem leikhópurinn bregður sér í ýmis hlutverk berjast við að opna fyrir tilfinningar sínar, leyfa sér að vera viðkvæmir og uppgötva hvers vegna það er þeim nauðsynlegt.
„them“ fjallar líka um konur sem verða að takast á við karla ef þær eiga að vera til á sömu forsendum og þeir, það er ójafnvægi í samfélagi kynjanna (og spannar örugglega fleiri kyn en bara hin hefðbundnu tvö!) og það er ekki aðeins skylda okkar að takast á við þann veruleika – í meðförum Spindrift Theatre verður sú skylda bæði ljúf og skemmtileg upplifun.
Athugasemdir