Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson verður ekki ákærður fyrir kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi og er laus allra mála. Fotbolti.net greinir frá þessu eftir að hafa fengið yfirlýsingu frá lögreglunni í Manchester sem staðfestir þetta.
„Maðurinn, sem er 33 ára, sem var handtekinn í tengslum við rannsókn sem hófst í júní 2021 er laus allra mála. Rannsóknarteymið og ríkissaksóknari hafa unnið saman og komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögnin sem liggja fyrir á þessum tíma ná ekki þeim þröskuldi sem settur er fram í reglum saksóknara," segir í yfirlýsingunni.
Gylfi Þór er einn besti knattspyrnumaður Íslandssögunnar og hafði átt afar farsælan feril í atvinnumennsku þegar hann var handtekinn fyrir 21 mánuði síðan. Á unglingsaldri lék hann með FH og Breiðablik áður en hann gekk til liðs við Reading á Englandi aðeins 16 ára að aldri. Árið 2010 var samningur hans seldur til 1899 Hoffenheim á Þýskalandi þar sem hann lék í tvö ár. Eftir tíma á láni hjá Swansea í Wales gekk hann til liðs við Tottenham Hotspur. Fór hann aftur til Swansea áður en hann var seldur til Everton árið 2017 fyrir metupphæð.
Hann var samningsbundinn Everton þegar hann var handtekinn en samningur hans við félagið rann út á síðasta ári og var ekki endurnýjaður.
Gylfi lék 78 landsleiki fyrir Ísland á árunum 2010-2020 og skoraði í þeim 25 mörk. Hann var lykilmaður í landsliðshópnum þegar Ísland lék á sínu fyrsta stórmóti, Evrópukeppninni 2016, og komst í 8 liða úrslit eftir frækinn sigur á Englandi. Þá var hann einnig í hópnum í Heimsmeistaramótinu 2018.
Athugasemdir