Þar sem dánaraðstoð er leyfð er hún háð ströngum skilyrðum. Eitt af því sem tengist umræðunni um dánaraðstoð er hugtakið lífsgæði. Ein leið til að skilgreina lífsgæði er sú gleði, ánægja og lífsfylling sem einstaklingur upplifir í daglegu lífi. Einnig að hve miklu leyti hann getur uppfyllt grunnþarfir sínar og framfylgt markmiðum og draumum án teljandi hindrana. Lífsgæði snúast þar að auki um það að hve miklu leyti einstaklingur er fær um að taka þátt í og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Hluti af lífsgæðum er sú virkni sem einstaklingur getur haft.
Það er engin ein skilgreining á lífsgæðum sem er almennt samþykkt.
Dánaraðstoð og lífsgæði eru nátengd
Dánaraðstoð tengist lífsgæðum á margan hátt, sérstaklega fyrir einstaklinga sem þjást af banvænum sjúkdómi eða upplifa óbærilegan sársauka og þjáningu. Hér eru nokkur dæmi um tengslin á milli dánaraðstoðar og lífsgæða:
-
Fyrir marga eru lífsgæði nátengd tilfinningu um virkni, virðingu og sjálfræði. Veikindi leiða oft til minnkandi líkamlegrar virkni. Eftir því sem sjúkdómurinn þróast getur einstaklingur misst getuna til að framkvæma daglegar athafnir, sjá um sjálfan sig eða eiga skilvirk samskipti við vini og fjölskyldu. Þegar einstaklingur er orðinn háður umönnunaraðilum getur persónulegt sjálfræði og friðhelgi einkalífsins tapast.
„Það er engin ein skilgreining á lífsgæðum sem er almennt samþykkt.“
-
Hjá sumum einstaklingum getur sársauki og þjáning sem tengist veikindum þeirra orðið óbærileg og leitt til alvarlegrar skerðingar á lífsgæðum. Í þessum tilvikum getur dánaraðstoð veitt þeim létti frá óbærilegum þjáningum og gert þeim kleift að enda líf sitt á friðsamlegan hátt og á eigin forsendum.
-
Sjálfsákvörðunarrétturinn skiptir miklu máli fyrir fólk sem stendur frammi fyrir verulegum heilsuáskorunum. Lífsgæði þess eru oft undir áhrifum af tilfinningu fyrir stjórn á aðstæðunum. Með því að hafa þennan mannúðlega valkost sem dánaraðstoð er getur dauðvona einstaklingur fundið fyrir meiri stjórn á lífslokum sínum. Að hafa þetta val getur haft jákvæð áhrif á lífsgæði hans og tilfinningalega vellíðan þann tíma sem eftir er, jafnvel þótt hann kjósi á endanum ekki aðstoð við að deyja.
Lífsgæði eru háð persónulegu mati hvers og eins og geta verið mismunandi eftir gildum, viðhorfum og forgangsröðun einstaklings. Þegar öllu er á botninn hvolft eru lífsgæði fólks síðasta spölinn persónuleg og einstaklingsbundin. Mikilvægt er að komið sé fram við fólk af samkennd, virðingu og reisn þannig að það fái að deyja á eigin forsendum.
Höfundurinn er formaður Lífsvirðingar, félags sem berst fyrir lögleiðingu á réttinum til dánaraðstoðar á Íslandi.
Athugasemdir