Það kom mér á óvart í desember þegar Icelandair tilkynnti að flugfélagið ætli að hefja beint áætlunarflug frá Keflavík til Tel Aviv. Það hentar eflaust vel fyrir þá fáu Íslendinga sem búsettir eru í Ísrael og einnig þá sem vilja heimsækja landið. Einnig hentar það ágætlega Íslendingum sem vilja heimsækja Palestínu. En þessu fylgja djúp og alvarleg vandamál sem Icelandair vill ekki ræða.
Í frétt á vef Vísis 14. desember síðastliðinn er vitnað í framkvæmdastjóra leiðarkerfis Icelandair, Tómas Ingason. Hann er spenntur fyrir Tel Aviv sem nýjum áfangastað og segir: „Ég held að þetta sé mjög spennandi áfangastaður sem hefur upp á margt að bjóða.“ Og nefnir baðstrendur Miðjarðarhafsins en einnig listir og söfn og hina miklu sögu og menningu svæðisins. Þar eru Jerúsalem, Betlehem og Nasaret. Einnig Dauðahafið og áin Jórdan og stutt er til Jórdaníu.
Tómas minnist á að stutt sé til Jórdaníu en passar sig sérstaklega að minnast hvergi á Palestínu – en eins og flestum er kunnugt þá er stór hluti Dauðahafsins (ólöglega hernumið) í Palestínu, Betlehem er palestínsk borg og svo er Austur-Jerúsalem, sem hefur verið ólöglega innlimuð inn í Ísrael, palestínsk. Icelandair auglýsti svo á heimasíðu sinni Jaffa sem elsta hluta Tel Aviv, en þar kemur hvorki fram að borgin sé palestínsk né er minnst á þær hörmungar sem áttu þar stað árið 1948 þegar Palestínufólkið var annaðhvort myrt eða hrakið á flótta í þjóðernishreinsunum sem enn eiga sér stað í dag.
Tómas Ingason, Bogi Nils Bogason og fleiri stjórnendur Icelandair eru fullkomlega meðvituð um þau mannréttindabrot, hernám og þjóðernishreinsanir sem stundaðar eru í Ísrael en kjósa viljandi að hunsa þau. Þau kjósa að taka ekki afstöðu gegn ólöglegu hernámi Ísraels í Jerúsalem og Palestínu og með því samþykkja þau að aðgerðir Ísraela séu réttlætanlegar. Tómas tekur sérstaklega fram í fréttinni að hann sé „spenntur fyrir að fara þangað“ vitandi af þeim hörmulegu aðstæðum sem Palestínumenn þurfa að glíma við daglega, undir stöðugu hernámi, arðráni og þjóðernishreinsunum.
Með því að hefja flug til Tel Aviv má líta svo á að Icelandair telji hernámið lögmætt og jafnvel eðlilegt. Icelandair samþykkir stefnu Ísraels gagnvart Palestínu, en sú stefna felur í sér fjölmörg brot á alþjóðalögum og mannréttindasáttmálum. Ísrael stundar þjóðernishreinsanir, arð- og landrán, takmarkar ferðir fjölda Palestínubúa, heldur Gaza í herkví og heftir tækifæri Palestínumanna að heimsækja fjölskyldur, fara í skóla, sækja sér heilbrigðisþjónustu og stunda verslun og svo miklu fleira.
Icelandair samþykkir ekki aðeins ólöglegt hernám Ísraels á landi Palestínu heldur má með flugáætlun félagsins til Tel Aviv líta svo á að það styðji óbeint stefnu ísraelskra stjórnvalda um landræningjabyggðir og innlimun á Vesturbakkanum, eitthvað sem alþjóðasamfélagið hefur fordæmt ítrekað.
Það sem Icelandair kýs að hunsa er m.a. að:
Árið 2022 voru:
-
191 Palestínubúar drepnir (16 Ísraelar)
-
Þar af 44 börn (Eitt ísraelskt barn)
-
10.345 slasaðir (252 Ísraelar)
-
954 byggingar eyðilagðar
-
Sem olli því að 1.031 Palestínbúi lagðist á flótta
Árið 2023 (1. janúar til 23. mars) voru:
-
89 Palestínubúar drepnir (14 Ísraelar, þar af 11 landræningjar)
-
Þar af 17 palestínsk börn (3 ísraelsk börn)
-
2.472 slasaðir (42 Ísraelar)
Hvert einasta mannslíf sem tapast er harmleikur, bæði fyrir Ísraela og Palestínubúa. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að þegar staðreyndir og tölur er skoðaðar þá er það augljóst að það er aðeins eitt ríki sem er árásaraðilli, eitt ríki sem hernemur og eitt ríki sem viðheldur aðskilnaðarstefnu. Ríkið er Ísrael. Allar hugmyndir um rétt Ísrael til að verja sig verða að vera skoðaðar með gagnrýnum augum og tölurnar segja allt sem segja þarf. Ísrael er ekki að verja sig, Ísrael er í stórsókn gegn Palestínu.
„Ef þú ert hlutlaus gagnvart óréttlæti, hefur þú kosið að standa með kúgaranum.“
Í skýrslu Amnesty International frá 2022 kemur fram að draga verði ísraelsk yfirvöld til ábyrgðar á aðskilnaðarstefnu þeirra gegn palestínsku fólki. Skýrslan lýsir einnig kerfisbundinni kúgun og yfirráðum Ísraelsríkis yfir palestínsku fólki og hvernig þessi stjórnun hefur áhrif á réttindi þess, hvort sem það er palestínskt fólk sem býr í Ísrael, á hernumdu svæðum Palestínu eða palestínskt flóttafólk í öðrum löndum.
Í stað þess að viðurkenna grimmdarverk Ísraels hefur Icelandair ákveðið að standa með þeim. Í stað þess að standa með mannréttindum þá er Icelandair á móti þeim og með því að fljúga til Ísrael þá hefur Icelandair tekið þá afstöðu að líf Palestínubúa eru einskis virði.
Eða eins og Desmond Tutu sagði:
„Ef þú ert hlutlaus gagnvart óréttlæti, hefur þú kosið að standa með kúgaranum.“
Athugasemdir (2)