Hagstofan birti í dag nýja mælingu á vísitölu neysluverðs, og mælist tólf mánaða verðbólga nú 9,8 prósent, eftir að hafa mælst 10,2 prósent í febrúarmánuði. Án húsnæðisliðarins mælist verðbólga á Íslandi 8,6 prósent undanfarna tólf mánuði.
Vísitala neysluverðs hækkar um 0,59 prósent frá fyrri mánuði, og mælist nú 580,7 stig. Án húsnæðis mælist vísitala neysluverðs nú 481,9 stig og hækkar um 0,52 prósent frá síðasta mánuði.
„Verð á mat- og drykkjarvörum hækkaði um 0,7% (áhrif á vísitöluna 0,11%), verð á fötum og skóm hækkaði um 4,3% (0,14%) og kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 0,8% (0,15%). Verð á húsgögnum, heimilisbúnaði o.fl. lækkaði um 1,7% (-0,11%),“ segir í umfjöllun Hagstofunnar um mælinguna á vísitölunni.
Langt umfram nýjustu spá Seðlabankans
Seðlabankinn birti nýja verðbólguspá í upphafi ársins og ljóst er að hún hefur ekki gengið eftir, en þar var því spáð að mæld verðbólga í janúar yrði 9,5 prósent og færi svo nokkuð ört lækkandi, yrði 7,7 prósent í febrúar og 5,9 prósent í mars. Annað hefur komið á daginn og verðbólga verið þrálátari en bankinn og flestir aðrir greinendur höfðu búist við.
Til þess að bregðast við aukinni verðbólgu voru stýrivextir Seðlabankans hækkaðir um 1 prósentustig á dögunum, og eru stýrivextir bankans nú 7,5 prósent.
Athugasemdir