Hafin er umfangsmikil rýming húsa á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu og eru íbúar beðnir um að fara í fjöldahjálparstöð í Herðubreið til að skrá sig þar. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum er um varúðarráðstöfun að ræða.
„Þegar allar breytur koma saman, snjórinn, veðrið og veðurspá, er talið að það þurfi að rýma,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Almannavarna, í samtali við Heimildina. Hún segir að almannavarnir hafi góða yfirsýn yfir stöðuna á Seyðisfirði og fylgist með þróun mála í samvinnu við Veðurstofuna og viðbragðsaðila. Viðbragðsaðilar muni aðstoða fólk sem á þurfi að halda við að rýma hús sín en aðrir geti komið sér að sjálfsdáðum í fjöldahjálparstöð. „Því miður hefur fólk ákveðna reynslu á Seyðisfirði,“ segir Hjördís og vísar þar til aurskriðanna sem sem féllu á bæinn í desember árið 2020. Þó er ekki rýming í gangi á því svæði sem skriðurnar féllu á nú.
Um er að ræða svæði á reitum 4, 5, 6, 7, 14, 16, 17 og 18, sem skilgreind eru á rýmingarkorti Veðurstofunnar. Um töluverðan fjölda húsa er að ræða segir Hjördís. Eru húsin bæði norðan og sunnan fjarðarins, undir fjallinu Bjólfi og undir Strandartindi.
Hættustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Seyðisfirði og einnig í Neskaupstað, þar sem féllu tvö flóð í morgun, annað á hús. Búið er, eða verið er að, rýma tugi húsa í Neskaupstað einnig, hús sem standa undir Nesgili og Bakkagili, auk efstu húsaraðar undir varnargörðum og atvinnuhúsnæðis innst í bænum. Samkvæmt spám heldur áfram að snjóa fyrir austan fram eftir degi.
Veðurstofa Íslands birti í gær viðvaranir vegna aukinnar snjóflóðahættu á Austfjörðum og Norðurlandi einnig. Þar var tilgreint að búist væri við að snjóflóðahætta myndi aukast umtalsvert á Austurlandi vegna aukinnar snjókomu.
Athugasemdir