Árið 2020 voru umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi 654 talsins. Alls fengu 528 vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á því ári. Samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var það ár töldu 32,8 prósent landsmanna að Ísland væri að taka á móti of fáu flóttafólki, 35,5 prósent að fjöldinn væri hæfilegur og 31,7 prósent að fjöldinn væri of mikill.
Á árinu 2022 bárust 4.518 umsóknir um alþjóðlega vernd. Alls fengu 3.455 vernd á Íslandi á síðasta ári og hafa aldrei verið fleiri.
Í könnun sem Maskína gerði í fyrra kom í ljós að 30,6 prósent landsmanna töldu að Ísland taki við of fáu flóttafólki, 42,7 prósent að fjöldinn væri hæfilegur og einungis 26,6 prósent töldu fjölda flóttafólks sem fær vernd á Íslandi vera of mikinn. Skoðun landsmanna hefur samkvæmt þessu lítið breyst á síðustu tveimur árum þrátt fyrir að fjöldi þeirra sem sóttist eftir vernd hafi næstum sjöfaldast. Helsta breytingin er sú að fleiri telja fjöldann nú vera hæfilegan og marktækt færri telja Ísland taka við of fáum.
Af þessu má ráða að Íslendingar séu, enn sem komið er, ekki sérstaklega ginnkeyptir fyrir áróðri óvandaðra stjórnmálamanna um að einn okkar helsti samfélagslegi vandi sé aukinn fjöldi fólks sem vill koma til Íslands í leit að betra lífi.
Staðan er þó bersýnilega viðkvæm. Það þarf lítið til svo mennskan víki fyrir óttanum.
Helsta öryggisógnin er ekki flóttafólkið
Það liggur fyrir að flestir þeirra 103 milljón manna sem voru á flótta um mitt síðasta ár koma frá fimm löndum: Sýrlandi, Venesúela, Úkraínu, Afganistan og Suður- Súdan. Það liggur fyrir, samkvæmt tölum frá flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, að 74 prósent þeirra eru í ríkjum sem teljast til lág- eða meðaltekjuríkja. Eðlilega, í heimi þar sem lífsgæðum er afar misskipt, þá munu sífellt fleiri sækjast eftir því að komast í skjól hjá ríkum þjóðum þar sem líkurnar á betri lífsgæðum eru meiri. Ísland er rík þjóð.
Jón Ormur Halldórsson fjallaði um þessa stöðu í grein sem birtist í síðustu útgáfu Heimildarinnar. Þar benti hann á að líta mætti á fjölgun flóttafólks frá öðrum heimssvæðum sem alvarlegasta öryggisvanda Evrópu. „Ekki vegna þess að flóttafólk sé hættulegt heldur vegna þeirra áhrifa sem stóraukinn straumur flóttamanna getur haft á stjórnmál Evrópuríkja.“ Óttinn við stríðan straum flóttafólks sé einn sterkasti drifkraftur evrópskra stjórnmála og pólitískar afleiðingar slíks ótta gætu valdið miklum skemmdum á evrópskum samfélögum.
Jón Ormur vísaði í nýlega könnun Gallup í Nígeríu sem benti til þess að 53 prósent íbúa landsins vilji flytja úr landi, „Þetta er ekki vegna stríðsátaka, þau eru staðbundin, heldur vegna atvinnuleysis, glæpa og vonleysis. Nígeríumenn eru 220 milljónir og verða fleiri en Bandaríkjamenn eftir rúm tuttugu ár. Nígería er aðeins eitt af tugum landa í svipuðum sporum. Pakistan er annað risaríki í miklum vanda sem milljónir reyna nú að flýja. Evrópa er algengasti draumurinn.“
Logið, dylgjað og hrætt
Sú orðræða sem heyrist í íslenskum stjórnmálum, sérstaklega frá þeim sem vilja taka við færra flóttafólki, virðist ekki taka neitt mið af þessum veruleika. Þar er látið eins og Ísland standi frammi fyrir vanda sem nánast engin önnur þjóð geri. Alið er á hræðslu við hið óþekkta með hundaflauti um að flóttafólk muni hafa af þeim sem fyrir eru þjónustu, fjármuni, réttindi og öryggi. Bornar eru á torg hreinar lygar um fjölda falsaðra vegabréfa, sem enginn fótur er fyrir. Blygðunarlaust hefur verið sagt að Schengen-samstarfið sé í hættu ef meiri hörku er ekki beitt gagnvart fólki á flótta, sem er að öllu leyti rangt. Dylgjað hefur verið um tengsl skipulagðrar glæpastarfsemi og komu flóttafólks og þær dylgjur notaðar sem einhverskonar rökstuðningur fyrir því að draga úr þjónustu við fólkið.
Þetta er að hluta til gert til að reyna að breiða yfir áralanga kerfisbundna sveltistefnu sitjandi stjórnvalda gagnvart velferðarkerfum landsins sem leitt hefur af sér vangetu til að þjónusta bæði þá landsmenn sem búa við knöpp kjör og þá sem flýja hingað. Að hluta til er tilgangurinn sá að afvegaleiða umræðuna frá heimatilbúnum húsnæðisvanda sem er að uppistöðu afrakstur röð vondra ákvarðana ráðamanna. Að hluta til er þetta að undirlagi stjórnmálamanna sem hafa ekki nægjanlega getu eða þokka til að bjóða upp á uppbyggilegar stjórnmálalegar lausnir á þeim áskorunum sem samfélagið stendur frammi fyrir, og reyna þess í stað að hræða fólk til að kjósa sig.
Leikjafræði óheiðarleikans
Óheiðarleikinn náði nýjum hæðum þegar einhverjir þingmenn flokka sem sækja stuðning til fólks sem er andsnúið aukinni komu flóttafólks, fundu myndbönd á samfélagsmiðlum og klæddu þau í þann búning að þar væru á ferðinni ferðaskrifstofur í Venesúela að auglýsa fjöldaferðir til Íslands fyrir fólk sem vildi leggjast á velferðarkerfið. Þeir sem hafa haldið þessu fram hafa ekki vísað í neinar tölur né gögn máli sínu til stuðnings.
Í umræðum um nýsamþykkt útlendingalög mátti greina margt úr sömu leikjafræði. Þar var látið eins og að samþykkt þeirra myndi með einhverjum hætti taka á þeirri miklu fjölgun fólks á flótta sem hingað leitar. Það er rangt.
Af þeim sem sóttu um vernd á Íslandi á árinu 2022 komu 2.345 frá Úkraínu og 1.199 frá Venesúela. Alls 78,4 prósent allra þeirra sem sóttu um vernd á Íslandi í fyrra komu frá öðru hvoru þessara landa. Aðrir umsækjendur um vernd voru 974, þar af 232 frá Palestínu, 100 frá Sómalíu, 84 frá Sýrlandi og 73 frá Írak. Vart verður um það deilt að fólk sé í rétti með að flýja þessi fjögur síðastnefndu lönd af gildum ástæðum.
Af þeim sem fengu vernd á Íslandi á síðasta ári komu 88 prósent þeirra frá Úkraínu eða Venesúela. Ástæða þess að fjölgað hefur í umsóknum frá þessum tveimur löndum eru stjórnvaldsákvarðarnir sem teknar voru í tíð sitjandi ríkisstjórnar.
Búinn til strámaður til að fela eigin ábyrgð
Annars vegar er um að ræða ákvörðun frá árinu 2018 um að veita fólki frá Venesúela viðbótarvernd með vísan til almennra aðstæðna í heimaríkinu óháð einstaklingsbundnum aðstæðum hvers umsækjanda.
Reynt hefur verið að láta sem að kærunefnd útlendingamála, sjálfstæð úrskurðarnefnd sem ber að vinna samkvæmt gildandi lögum á Íslandi, beri ábyrgðina á auknum fjölda frá Venesúela vegna úrskurðar sem hún felldi í fyrra. Birgir Þórarinsson, sem lét kjósa sig á þing fyrir Miðflokkinn en flutti sig svo nær samstundis yfir í Sjálfstæðisflokkinn, sagði til að mynda á opnum nefndarfundi í síðustu viku að sú ákvörðun hefði kostað skattgreiðendur milljarða króna. Hann sagði einnig að mörg lönd væru með verra drykkjarvatn en Venesúela.
Hér er verið að búa til strámann til að ráðast á og fela eigin ábyrgð. Kærunefndin felldi úrskurð í fyrra sem var rökstuddur með vísun í að heildrænt hefði ástandið í Venesúela ekkert lagast frá því að upphaflega ákvörðunin var tekin, og raunar farið versnandi. Því gæti bætt ástand í Venesúlea ekki verið rökstuðningur fyrir því að synja umsækjendum þaðan um viðbótarvernd.
Hefur áhrif á lítinn hóp innan hóps
Hins vegar er um að ræða ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra frá 4. mars í fyrra um að virkja ákvæði útlendingalaga sem fól í sér að móttaka flóttamanna frá Úkraínu hérlendis myndi ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem Evrópusambandið hafði ákvarðað. „Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða.“
Fyrir utan þá sem komu frá þessum tveimur löndum sóttu 974 um vernd hérlendis í fyrra. Til samanburðar var heildarfjöldi umsókna árið 2017 1.096 og árið 2016 sóttu 977 um vernd.
Breytingarnar hafa engin áhrif á fólk sem kemur hingað til lands frá Venesúela og Úkraínu. Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, benti á það í atkvæðagreiðslu um lagabreytingarnar að þær setji um tíu prósent flóttafólks í enn verri stöðu en það var fyrir. Nýju útlendingalögin bitna því fyrst og síðast á hópum innan þessa tæplega þúsund manna hóps. Þau svipta þá réttindum og setja þá á götuna.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði við sama tilefni að breytingarnar á útlendingalögunum innsigli þá afstöðu hennar að sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé fjandsamleg flóttafólki. „Hér á að senda skilaboð um að fólk skuli koma sér úr landi ellegar bíði þess að vera sent á götuna án aðstoðar og án aðgangs að lágmarksþjónustu. Þetta á að hafa fælingarmátt. Þetta á að losa okkur við segla, eins og við séum bara með þá á ísskápnum hjá okkur, sem togi til sín einhverja vonda útlendinga sem vilja leggjast á velferðarkerfið okkar eins og einhverjar vampírur. Þessi orðræða, þetta frumvarp er strax farið að hafa áhrif til aukinnar útlendingaandúðar á Íslandi.“
Pastel-rasistar sem selja ímyndaða ógn
Þetta er rétt mat hjá Þórhildi Sunnu. Allur málflutningurinn byggir á því að hræra í rasískum pottum, hræða landsmenn gagnvart ímyndaðri ógn, stilla jaðarhópum upp gagnvart hvorum öðrum og marka sér með því pólitíska stöðu sem gefist hefur mörgum vel í nágrannalöndunum.
Umræða þessara stjórnmálamanna sem þetta stunda um fjölgun flóttamanna er ógeðfellt villuljós. Það er ekki þannig að hingað sæki fleiri flóttamenn en annað, nema þeir sem sérstaklega er boðið hingað bakdyramegin af sömu stjórnmálamönnum og reyna nú að notfæra sér þá til að útiloka komu fólks frá Miðausturlöndum til Íslands. Fólk sem að stærstum hluta til er íslamstrúar. Það er auðvitað það sem býr að baki. Og það er rasismi.
Fjölmargir íslenskir stjórnmálamenn hafa mátað sig í hlutverki óttamangarans sem boðar það að fátæka fólkið í leit að betra lífi sé hingað komið til að taka af okkur lífsgæði. Sumum hefur tekist vel upp tímabundið, en þeir eiga það allir sameiginlegt að skorta þokka og greind til að halda það ástand út.
Við skulum þó ekki halda að mjúkmælti og vatnsgreiddi pastel-rasistinn sem nái að klæða þessi ómannúðlegu og ömurlegu stjórnmál í aðgengilegri umbúðir muni ekki koma fram á Íslandi. Hann hefur þegar gert það í flestum löndunum í kringum okkur og það er sennilegt að hann geri það hér líka.
Það er helsta öryggisógnin sem steðjar að okkar samfélagsgerð, ekki fólk í leit að öryggi og mannsæmandi lífi.
Munum það.
Við þurfum að læra af mistökunum en ekki að endurtaka þau.