„Við erum í ríkisstjórn og getum því haft jákvæð áhrif. Eitt af því sem við gerðum var að í upphafi kjörtímabilsins færðum við þjónustu við útlendinga til félagsmálaráðuneytisins,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og forsætisráðherra, á landsfundi hreyfingarinnar sem var settur í dag.
Hún sagði hreyfinguna hafa kafað djúpt í málefni útlendinga og hælisleitenda og tekið stór skref til að uppfæra kerfi sem hafi reynst algjörlega vanbúið til að takast á við þann mikla fjölda sem hingað kom í fyrra og muni áfram gera í ár.
„Þá sjáum við auðvitað að mikilla aðgerða er þörf“
„Við sjáum að það kerfi sem við höfum var sett upp fyrir talsvert löngu og þá var talsvert færra flóttafólk. Þegar þessi kerfi eru í smíðum þá eru mögulega að koma hingað um hundrað manns á ári en þegar fjöldinn er farinn að nema mörgum þúsundum, og svo var í fyrra og svo verður áfram í ár, þá sjáum við auðvitað að mikilla aðgerða er þörf,“ sagði Katrín.
Hún benti á að þau hefðu sett af stað vinnu við að bæta allar greiningar og upplýsingagjöf milli stofnana með það að markmiði að hraða og bæta málsmeðferð sem taki nú „óbærilega“ langan tíma. Þá hafi á dögunum verið auglýst starf samhæfingarstjóra í málefnum flóttafólks enda sé þetta verkefni sem kalli á ríkt samstarf ólíkra ráðueyta.
Byggt á stefnu Vinstri grænna
„Þingmenn okkar sem unnu að þessu máli gerðu það af heilindum og voru að byggja á okkar stefnu“
„En á sama tíma og við erum að gera jákvæðar breytingar þá erum við að takast á um mál eins og útlendingafrumvarpið sem hafa valdið því að ýmsir félagar okkar hafa yfirgefið okkur. Ég vil samt segja að okkar þingmenn sem komu að því máli og unnu að því máli gerðu það af miklum heilindum með það að markmiði að hafa áhrif á málið í samræmi við okkar stefnu. Þess vegna er málið sem var lagt fram á þingi nú ekki sama mál og var lagt fram fyrir fimm árum og vakti þá miklar deilur. Það voru gerðar á því stórar breytingar að kröfu okkar Vinstri grænna sem meðal annars vörðuðu sérstök tengsl við landið og þannig var unnið áfram að málinu allan tímann, og alveg fram að lokaumræðunni þar sem samþykktar voru breytingar sem aftur komu frá okkur í VG. Þannig að ég vil segja að þó ég skilji að hart sé tekist á um þessi mál þá er það samt þannig að þingmenn okkar sem unnu að þessu máli gerðu það af heilindum og voru að byggja á okkar stefnu, og mér finnst bara mikilvægt að segja það hér,“ sagði Katrín og uppskar lófaklapp frá fundargestum.
„Er þetta þess virði?“
Landsþing Vinstri grænna var sett í Hofi á Akureyri í dag, tveimur dögum eftir að Alþingi samþykkti umdeilt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, eftir að deilt hafði verið um frumvarpið árum saman. Sex þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði með frumvarpinu en tveir voru fjarstaddir, þær Katrín og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
„Kæru vinir. Þátttaka í ríkisstjórn kostar ávallt sitt, ég þarf ekki að útskýra það hér í þennan hóp, ekki síst þegar við erum ósammála og einhver vill yfirgefa okkur, þá fæ ég þessa spurningu: Er þetta þess virði?“ sagði Katrín.
Hún sagðist vel skilja að svona sé spurt þegar hreyfingin hafi verið eins lengi í ríkisstjórn og raun ber vitni. „En ég vil líka segja það að miklu oftar, miklu miklu oftar, fæ ég hvatningu og stuðning frá félögum okkar, bréf, símtöl, samtöl á förnum vegi sem öll eiga það sameiginlegt að við í Vinstri-grænum viljum rísa undir ábyrgð.“
Úrsagnir vegna frumvarpsins
Í drögum að ályktunum sem búið var að gefa út að yrðu lagðar fyrir landsfundinn voru meðal annars drög að ályktun sem fól í sér að landsfundurinn legðist „eindregið gegn frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga sem lagt hefur verið ítrekað fram á Alþingi.“
Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna var meðal þeirra sem skrifuðu undir ályktunardrögin og eftir að útlendingalögin voru samþykkt birtu þau yfirlýsingu þar sem þau hörmuðu að frumvarpið væri orðið að lögum og að „þingmenn sem greiddu atkvæði með frumvarpinu mega bera skömm fyrir.“ Þá hefur verið greint frá um þrjátíu úrsögnum úr hreyfingunni eftir að að frumvarpið varð að lögum, en meðal þeirra sem sögðu sig úr flokknum er fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, varaþingmaður og sonur fyrrverandi formanns.
„Fyrir þennan stuðning vil ég þakka, hann veitir mér og okkur öllum kraft og þrek til að halda áfram vinnunni“
Katrín lét hins vegar engan bilbug á sér finna, og hélt áfram: „Við viljum hafa mótandi áhrif, við eflumst við mótlæti og við viljum leiða samfélagið okkar í átt að réttlátu þjóðfélagi þar sem allir eiga tækifæri á að lifa með sæmd og reisn.
Fyrir þennan stuðning vil ég þakka, hann veitir mér og okkur öllum kraft og þrek til að halda áfram vinnunni, takast á við þau mjög svo krefjandi verkefni sem eru framundan og halda áfram að hrinda stefnunni okkar í framkvæmd og bæta þannig líf fólksins í landinu jafnt og þétt. Áfram veginn kæru félagar!“ sagði hún í lok stefnuræðu sinnar og stóðu fundargestir á fætur og klöppuðu fyrir henni.
Hróp gerð að Katrínu af boðflennu
Þetta var þó ekki sú stemning sem hafði ríkt alla ræðuna.
Þegar Katrín var að telja upp ýmis atriði sem sýndu hvernig hreyfingin hefði haft áhrif til góðs stóð skyndilega upp karlmaður í gulum vinnugalla og hrópaði: „Þú gleymdir Lindarhvoli!“ Katrín benti honum þá á að hún hefði alls ekki lokið máli sínu, en hann hrópaði á móti: „Ég nenni ekki að hlusta á þessa helvítis lygi.“ Hann gerði síðan ferð Katrínar og utanríkisráðherra til Úkraínu í vikunni að umtalsefni og sagði hana „í stríði við þjóðina.“
Katrín bauð honum að yfirgefa fundinn, sem hann gerði og Katrín hélt máli sínu áfram, en byrjaði á að segja að hún væri alfarið ósammála þessum manni. Blaðamaður Heimildarinnar sem er á staðnum fékk þær upplýsingar að maðurinn er hvorki skráður á landsfundinn né félagi í hreyfingunni.
Óvænt úrslit kosninga
Katrín sagði að úrslit kosninganna 2021 hafi komið mörgum á óvart. „Þrátt fyrir barning í skoðanakönnunum allt kjörtímabilið og þó að hart væri að okkur sótt héldum við Vinstri græn stöðu okkar sem stærsti flokkurinn á vinstrivængnum þegar talið hafði verið upp úr kössunum – en misstum samt fylgi eftir átakamikið kjörtímabil og brotthvarf tveggja þingmanna,“ sagði hún og vísaði þar til brotthvarfs þeirra Andrésar Inga Jónssonar sem síðar gekk til liðs við Pírata og Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur sem gekk til liðs við Samfylkinguna.
„Nú hittumst við á miðju kjörtímabili og staðan er um margt snúin. Heimsfaraldur reyndi á alla innviði samfélagsins. Ég er þess fullviss að sýn okkar Vinstri-grænna skipti verulegu máli í því að koma samfélaginu farsællega í gegnum hann. Við byggðum á staðreyndum, áttum heiðarlegt samtal við þjóðina og treystum þjóðinni.“
„Verkefni númer 1, 2 og 3 núna er að ná verðbólgunni niður“
Katrín fjallaði sérstaklega um verðbólguna sem væri stærsta viðfangsefni dagsins í dag sem og þær vaxtahækkanir sem af henni leiða. „Almenningur finnur fyrir verðbólgunni, bæði í daglegri neyslu og í greiðslubyrði íbúðalána. Og við sem höldum utan um ríkissjóð finnum fyrir auknum þunga vaxtagjalda í öllum okkar rekstri. Verkefni númer 1, 2 og 3 núna er að ná verðbólgunni niður. Það verður einungis gert með samstilltum aðgerðum allra,“ sagði Katrín.
Hún ítrekaði hrós sitt til þeirra fyrirtækja sem hafa svarað kalli um þjóðarsátt og auglýsa nú verðlækkanir til að ná árangri í þessu sameiginlega verkefni, og hvatti hún önnur til að fylgja þeirra fordæmi.
„Og ítreka enn það sem ég hef áður sagt: Forstjórar sem skammta sér launahækkanir langt umfram launavísitölu og eigendur sem greiða sér út himinháan arð hella olíu á verðbólguelda. Enginn ætti að láta sér það koma á óvart að það verður ekki þannig að þeir sem lægst hafa launin eigi að bera mesta ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika,“ sagði hún.
Meiri áhrif í ríkisstjórn
Katrín benti á að Vinstri græn hafi nú leitt ríkisstjórn í fimm og hálft ár, og raunar hafi flokkurinn verið í ríkisstjórn í næstum tíu ár á undanförnum tuttugu árum og haft jákvæð áhrif á samfélagið með ýmsum hætti.
„Ég gæti staðið hér frameftir kvöldi og þulið upp hluti eins og þrepaskipt skattkerfi, eflingu barnabótakerfisins, eflingu almenna íbúðakerfisins, friðlýst svæði um land allt, fullfjármagnaða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, ný jafnréttislög, lögin um kynrænt sjálfræði, minni skerðingar í almannatryggingakerfinu, bætta réttarstöðu brotaþola, ný lagaákvæði um umsáturseinelti og kynferðislega friðhelgi, minni greiðsluþátttöku sjúklinga og stóreflingu heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, lög um farsæld barna sem nálgast þau málefni með algjörlega nýjum hætti í þágu barna, ný þungunarrofslöggjöf, lenging fæðingarorlofs og stytting vinnuvikunnar. Ég gæti haldið lengi áfram en á því leikur enginn vafi að við höfum haft ómæld áhrif á samfélagið með þátttöku okkar í ríkisstjórn, langt umfram stærð okkar. Mál sem jafnvel hafa þótt jaðarmál þykja nú sjálfsögð.“
Hún sagði hreyfinguna vilja hafa áhrif, og þau í Vinstri grænum viti ágætlega að það sé líka hægt að hafa áhrif í stjórnarandstöðu. Áhrifin séu hins vegar meiri með sæti í ríkisstjórn.
„Þegar á móti blæs og við sitjum undir árásum þá er ágætt að hafa það hugfast að andstæðingar okkar vilja allt til vinna að komast í ríkisstjórn“
„Þegar á móti blæs og við sitjum undir árásum þá er ágætt að hafa það hugfast að andstæðingar okkar vilja allt til vinna að komast í ríkisstjórn, til að gera sín eigin stefnumál að veruleika. Um þetta snúast stjórnmál, þau snúast um stefnu og áherslu og möguleikann á því að móta samfélag okkar,“ sagði hún.
Láta mótvind ekki buga sig
Katrín vakti athygli á því að alltaf sé hætta á þreytu þegar flokkar hafi verið lengi við stjórnvölinn. „Við liggjum lágt í skoðanakönnunum og finnum að mótvindurinn um þessar mundir er allnokkur. Ég hef hins vegar verið félagi í þessari hreyfingu ansi lengi, eða 21 ár, og ef ég þekki okkur rétt látum við mótvindinn ekki buga okkur. En í mótvindi getur verið gott að staldra við og leggja nýtt mat á stöðuna, finna bestu leiðina fram á við og halda svo ótrauð áfram,“ sagði hún.
Katrín vakti svo máls á fjölda atriða, til dæmis þeim fregnum að íslensk tunga verði gjaldgeng í hugbúnaði stórra fyrirtækja þegar kemur að gervigreind sem séu jákvæðar fregnir fyrir viðhald tungumálsins.
Hún fjallaði um loftslagssvána sem vofir yfir. „Við höfum sett aukið fjármagn í rannsóknir og nýsköpun sem tengjast loftslagsmálum. Við höfum fjölgað rafbílum á götunum og byggt upp nauðsynlega innviði fyrir orkuskipti í samgöngum. Við erum að fjárfesta í Borgarlínu, alvöru almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem og umfangsmiklu stígakerfi til að geta boðið fólki upp á fjölbreyttari ferðamáta og dregið úr losun.“
„Hatursorðræða er ofbeldi“
Katrín sagði Vinstri græna vera með vel mannað lið í ráðherrastólum, á Alþingi, í sveitarstjórnum, í stjórn hreyfingarinnar og svæðisfélögum um land allt, og að ráðherrarnir séu með mörg stór verkefni í höndunum. Sem dæmi þá hafi endurskoðun örorkulífeyriskerfisins staðið yfir allt kjörtímabilið og nú komi brátt að því að félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandson, geti kynnt tillögur sínar „að réttlátara, gagnsærra og einfaldara afkomutrygginga- og þjónustukerfi. Þar eru markmiðin nokkur en þau stærstu eru þau tryggja afkomu fólks með skerta starfsgetu á sama tíma og gefa fleira fólki tækifæri til virkni og atvinnuþátttöku, ekki síst ungu fólki sem hvorki er í námi né starfi. Ég hef væntingar um að frumvarp verði kynnt í vor og verði svo tekið fyrir á næsta þingvetri. Þetta verður eitt stærsta mál okkar Vinstri grænna á þessu kjörtímabili.“
Um þessar mundir er tillaga Katrínar um aðgerðir gegn hatursorðræðu til umræðu í þinginu. „Aðgerðunum er fyrst og fremst ætlað að efla fræðslu og umræðu í samfélaginu og tryggja þannig að við sem samfélag tökumst á við hatursorðræðu. Hatursorðræða er ofbeldi og við líðum hana ekki. Þetta er mikilvægt mál sem á sér margar hliðar, opin umræða þar sem allir geta óhræddir tekið þátt er til að mynda ein grundvallarforsenda lýðræðis og opins samfélags. Raddir þeirra sem eru jaðarsettir og raddir þeirra sem tilheyra minnihlutahópum eru nákvæmlega jafn mikilvægar og stundum mikilvægari en raddir annarra.“
„Hatursorðræða vekur ótta og skemmir hratt út frá sér“
Hún sagði það því mikinn misskilning og hlutunum illilega snúið á hvolf þegar því sé haldið fram að aðgerðir gegn hatursumræðu dragi úr tjáningarfrelsi. „Sú umræða er svona svipuð því að halda því fram að lög gegn ofsaakstri dragi úr ferðafrelsi manna. En auðvitað hlustum við á öll sjónarmið í þessu máli og við vöndum okkur þannig að sem best sé tryggt að tjáningarfrelsi allra sé varið,“ sagði hún.
Átakanlegar afleiðingar stríðsins
Þá beindi hún sjónum sínum til Úkraínu og sagði Vinstri græn hafa frá því stríðið skall á talað fyrir skýrum stuðningi við Úkraínumenn en líka haldið á lofti að það megi aldrei útiloka friðsamlegar lausnir. Katrín sagði 2700 Úkraínumenn hafa fengið vernd á Íslandi frá upphafi stríðsins sem sé bara hluti af þeim milljónum sem eru á flótta undan átökunum.
„Ekkert er jafn átakanlegt, jafn sorglegt, jafn ömurlegt, og að sjá afleiðingar stríðs af manna völdum. Að heimsækja samfélag í stríði þar sem áfram þarf að reka skóla og sjúkrahús, áfram þarf að sinna alls konar störfum, áfram þarf að vera til en markmiðin eru í raun aðeins þau að lifa af. Allt það fallega í lífinu verður einhvern veginn dýrmætara, sjaldgæfara, einstakara,“ sagði Katrín.
Þrátt fyrir stríð í Evrópu muni þau í Vinstri grænum ekki falla frá sannfæringu sinni um frið og mikilvægi þess að tala fyrir honum.
„Við Íslendingar eigum alltaf að vera talsmenn friðar, talsmenn þess að alþjóðalög séu virt og réttur þjóða til að ráða sínum málum sjálfar sé virtur. Rödd okkar öðlast ekki styrk í krafti vopna, mannfjölda eða ríkidæmis. En við höfum áhrif meðal annars vegna þess að við höfum byggt upp gott og friðsælt samfélag. Við höfum byggt upp samfélag velsældar og jöfnuðar, samfélag þar sem við öll eigum tækifæri til að láta draumana rætast og þroska hæfileika okkar. Samfélag þar sem við treystum hvert öðru og skipum okkur ekki í ólík lið heldur einmitt vitum að þegar á móti blæs tökum við höndum saman og róum öll í sömu átt. Samfélag sem ég veit að er dýrmætt í heiminum í dag, samfélag sem við sjálf höfum allt vald um hvernig við þróum og byggjum áfram upp,“ sagði Katrín.
Landsfundurinn heldur áfram í kvöld þar sem á dagskrá eru almennar stjórnmálaumræður. Fundinum er áfram haldið á morgun með hópastarfi fastanefnda hreyfingarinnar sem síðan kynna stefnur sínar. Einnig verður kosið í stjórn á morgun. Landsfundargleði er þá um kvöldið. Þriðji og síðasti dagur landsfundar er á sunnudag. Þá verður fjallað um ályktanir og fundi er slitið klukkan tvö.
Athugasemdir