„... Það er að myndast ójöfnuður milli kynslóðanna en vissulega er þetta framboð og eftirspurn.“ Á þessum orðum lýkur frétt í sjónvarpinu og ég mjúta fréttatímann og hlusta þess í stað á vaskinn sem lekur úr inni á baði. Dripp dripp, ný hljóðmynd við fréttirnar. Dripp dripp, ógreinilegt myndskeið úr öryggismyndavél. Dripp dripp, lögregluborðar og skýrslur, sjúkrarúm, olíutankar, hálftómur alþingissalur, heitavatnsborholur og fólk sem grætur með gylltar styttur.
Ég velti fyrir mér hvenær íbúðir hættu að vera heimili og urðu fyrirtæki. Dripp dripp.
Vissulega geng ég eftir þetta rakleiðis út í næsta Bónus, nú opið til klukkan 20 alla daga mér til mikillar ánægju. Framboð og eftirspurn. Vissulega kaupi ég mér Stracciatella-engjaþykkni, sný við á sjálfsafgreiðslukassanum og kaupi lítra af ís, kippu af pilsner og stjörnupopp, spyr eftir vini mínum, nóa kroppi og loka augunum þegar verðið birtist á skjánum. Ég ætlaði bara að kaupa engjaþykkni, ljúfan eftirrétt frá MS, en ekki höggva skarð í heimilisbókhaldið, svona rétt fyrir lokun í grísnum bleika.
„Ég ætlaði bara að kaupa engjaþykkni, ljúfan eftirrétt frá MS, en ekki höggva skarð í heimilisbókhaldið, svona rétt fyrir lokun í grísnum bleika“
Ég brýt heilann yfir verðmætum og hvers vegna verðmætustu störfin eru þau sem borga minnst. Dripp dripp. Vissulega. Ég hugsa til foreldra vina minna sem opnuðu veitingahús í miðju kóvid. Innréttuðu staðinn og réðu fólk í vinnu. Elda mat eftir kúnstarinnar aðferðum og ráða tónlistarfólk fyrir fólk sem sleikir útum. Það eru verðmæti. Þau greiða svo leigusalanum á aðra milljón króna í lok mánaðar. Dripp dripp. Eða, það var fyrir ári, ætli leigan sé ekki vísitölutengd. Dripp dripp.
Hvað er hluthafi eiginlega? Er það bara einstaklingur sem hefur hlut?
Maður með úfið hár ætlaði að verða milljónamæringur þegar hann yrði stór, þiggur nú fjóra og hálfa milljón á mánuði og passar að lægstu laun nái örugglega ekki upp í framfærslu. Dripp dripp fyrir hverja keypta lúxusíbúð. Dripp dripp fyrir hvern gjaldfallinn reikning. Dripp dripp fyrir hann sem þénar. Dripp dripp fyrir hinn sem þjónar.
Athugasemdir