Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Ragnar Reykás og djöfullinn sjálfur - Litið inn á kirkjuþing

Vígð­ir þjón­ar og leik­menn inn­an þjóð­kirkj­unn­ar tók­ust á um fyr­ir­komu­lag bisk­ups­kjörs á auka­kirkju­þingi á föstu­dag. Þó er að­eins ár síð­an nýj­ar regl­ur um kjör til bisk­ups voru sam­þykkt­ar í góðri sátt á kirkju­þingi. Blaða­mað­ur Heim­ild­ar­inn­ar fylgd­ist með um­ræð­un­um og við sögu koma Ragn­ar Reykás, drykkju­skap­ur og djöf­ull­inn sjálf­ur.

Ragnar Reykás og djöfullinn sjálfur - Litið inn á kirkjuþing
Hver verður næsti biskup? Séra Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur gefið út að hún ætli að hætta á næsta ári. Á aukakirkjuþingi var tekist á um hvernig skal kjósa eftirmann hennar. Mynd: Heiða Helgadóttir

Aukakirkjuþing sem sett var í gær byrjaði heldur æsilega þegar Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, lét rjúfa beina útsendingu í streymi um 20 mínútum eftir að þingið hófst. 

„Ætlið þið að hafna því að málin séu tekin á dagskrá?“
Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings.

Til að nýjar tillögur séu teknar fyrir á aukakirkjuþingi þarf sérstaklega að samþykkja það. Drífa kynnti sjö ný mál og bar undir atkvæði þingsins hvort þau yrðu tekin á dagskrá. Þegar ljóst var að hluti hópsins greiddi atkvæði á móti virtist Drífa afar undrandi og spurði: „Hvar er lýðræðið í kirkjunni? Ætlið þið að hafna því að málin séu tekin á dagskrá? Þessi sjö mál?“

Einhver orðaskipti heyrðust úr salnum og sagði Drífa síðan: „Ég ætla að gera aðeins hlé á þessum fundi og biðja um að útsending sé stoppuð.“ Í kjölfarið var útsendingin rofin. 

Engar skýringar

Hléið á fundinum var í um tíu mínútur. Að því loknu var tekin fyrir tillaga sem ekki þurfti að samþykkja sérstaklega, tillaga til þingsályktunar um ársreikning Þjóðkirkjunnar fyrir árið 2022. Engar skýringar voru gefnar í útsendingunni á því hvað hafði átt sér stað í hléinu og haldið áfram eins og ekkert hefði í skorist. 

Að lokinni umræðu um ársreikninginn var tekin fyrir tillaga um breytingu á starfsreglum um kosningu biskups og vígslubiskupa, mál 44. Tillaga sem var ein þeirra sjö sem þurfti að samþykkja til að tekin yrði fyrir.

Reglur nú kveða á um að einungis vígðir þjónar - prestar og djáknar - tilnefni allt að þrjá til embættisins sem síðan er kosið á milli. Mun fleiri hafa síðan kosningarétt, svokallaðir leikmenn innan kirkjunnar, þar með taldir allir fulltrúar sóknarnefnda, allt að sjö fulltrúar úr hverju prestakalli sem sóknarnefnd velur, og svo þeir leikmenn sem eiga sæti á kirkjuþingi. Þessir hópar geta skarast. 

Hvað er kirkjuþing?

Áður en lengra er haldið er gott að skoða hvað kirkjuþing eiginlega er. Margt er líkt með kirkjuþingi þjóðkirkjunnar og Alþingi. Kirkjuþing setur reglur fyrir kirkjuna, ályktar um hin ýmsu mál, mótar stefnu í málaflokkum sem varða kirkjuna, fer með fjárstjórnarvaldið og hefur eftirlit með starfi yfirstjórnar kirkjunnar. Með þjóðkirkjulögum sem tóku gildi árið 2021 fékk kirkjuþing æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar. 

Á vef þjóðkirkjunnar segir um skipulag kirkjuþings: „Á kirkjuþingi sitja 29 þingfulltrúar kosnir til fjögurra ára. Leikmenn á kirkjuþingi eru 17 talsins og vígðir þjónar 12. Einnig eiga seturétt á kirkjuþingi með málfrelsi og tillögurétt biskup Íslands, vígslubiskupar Hóla- og Skálholtsumdæma og fulltrúi guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands. Forseti kirkjuþings er kosinn til fjögurra ára úr röðum leikmanna á fyrsta kirkjuþingsfundi eftir kjör og tveir varaforsetar einnig, en til árs í senn. Forseti stýrir störfum kirkjuþings og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess.“

„Þetta á eftir að vera ótrúlega leiðinlegt“
Nafnlaus heimildarmaður

Fastar þingnefndir kirkjuþings eru allsherjarnefnd, fjárhagsnefnd, löggjafarnefnd og kjörbréfanefnd, og eiga allir fulltrúar, nema forseti þingsins, sæti í einhverri þeirra.

Ég tók nokkur símtöl á klukkutímunum fyrir kirkjuþing vegna ákveðinna sögusagna sem voru í gangi en ég reyndar fékk ekki staðfestar. Ég ákvað engu að síður að fylgjast með þar sem boðið var upp á streymi af þinginu. Einn af þeim vígðu þjónum sem ég ræddi við fyrir þingið varaði mig þó kurteisislega við: „Þetta á eftir að vera ótrúlega leiðinlegt.“

Biskup sem „prestur prestanna“

En aftur að máli 44, einni af tillögunum sjö. Átta manns eru að baki henni en Stefán Magnússon, leikmaður úr Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, mælti fyrir henni. Hann lagði sérstaka áherslu á að tillagan væri vísir í átt að auknu lýðræði, í stað þess að einungis prestar og djáknar forvelji þá sem kosið er um. Þá væri einnig meira frelsi í því fólgið að áhugasamir um biskupsembætti bjóði sig bara einfaldlega fram í stað þess að bíða eftir tilnefningu. 

„Það er einnig ljóst að hægt er að misnota þetta fyrirkomulag þannig að einstaklingar sem ekki njóta hylli í prestastétt eru útilokaðir frá kosningu þrátt fyrir hugsanlegt fylgi frá þeim sem kosningarétt hafa.“
Úr greinargerð með máli 44

Í greinargerð með tillögunni er að finna eftirfarandi klausu: „Það tilnefningarferli sem nú gildir verður að teljast fremur ólýðræðislegt og ekki í takti við þau skref sem kirkjan vill stíga í lýðræðisátt. Það er einnig ljóst að hægt er að misnota þetta fyrirkomulag þannig að einstaklingar sem ekki njóta hylli í prestastétt eru útilokaðir frá kosningu þrátt fyrir hugsanlegt fylgi frá þeim sem kosningarétt hafa.“

Séra Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur var ein þeirra sem síðan kvaddi sér hljóðs og vakti athygli á efni klausunnar. Hún benti á að hér áður fyrr hafi verið talað um að biskup væri „prestur prestanna“ sem hann sannarlega væri en jafnframt væri hann leiðtogi kirkjunnar og talsmaður hennar út á við. Því sé eðlilegt að fleiri en vígðir þjónar komi að fyrsta vali þegar velja á biskup. Þá talaði hún um að innan þjóðkirkjunnar væri fulltrúalýðræði þar sem lítill hópur í lýðræðislegu tilliti tekur stórar ákvarðanir en til að mynda ekki öll sóknarbörn, organistar eða kórfólk. 

„Hvaða mögulegu annarlegu ástæður gætu verið fyrir því?“
Séra Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur

Elínborg var hins vegar ekki jafn sammála næstu setningu, um möguleikann á misnotkun núverandi fyrirkomulags. „Ég veit ekki með ykkur en ég sé ekki fyrir mér að biskup gæti gegnt embætti sínu svo vel sé ef hann nýtur ekki trausts kollega sinna í prestastétt. Hvernig gæti staðið á því að hann nyti ekki trausts presta en vinsælda meðal leikmanna? Hvaða mögulegu annarlegu ástæður gætu verið fyrir því?“ spurði hún. 

Þrír aðrir þeirra sem standa að tillögunni tóku síðan til máls, þar á meðal Séra Jóhanna Gísladóttir, prestur í Akureyrar- og Laugalandsprestakalli. Hún hvatti til þess að leikmenn fengju að taka þátt frá upphafi í því ferli að velja nýjan biskup. Jóhanna benti á að í hennar sóknarnefnd væri fólk sem þar hefði starfað í sjálfboðastarfi frá því áður en hún fæddist og henni fyndist ekki annað eðlilegt að fólk sem þetta fengi meira vægi í valinu. Hún vildi ekki endilega ganga svo langt að allir sem tilheyra þjóðkirkjunni séu með frá upphafi en að sóknarnefndafólk ætti þarna sannarlega heima.

Nýjar starfsreglur samþykktar í fyrra

Séra Bryndís Malla Elídóttir, prestur í Seljakirkju, kom síðan með upplýsingar sem voru nýjar fyrir þeim sem lítið sem ekkert veit um innra starf þjóðkirkjunnar; nefnilega að nýjar starfsreglur um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa voru samþykktar á kirkjuþingi í fyrra. Það er ekki lengra síðan. Þar hafi komið fram breytingatillaga um að fara ætti fram hæfnismat þeirra sem hlytu tilnefningu til embættis biskups, en lagt er til hæfnismat í nýju tillögunni, og henni hafi verið hafnað.

Bryndís Malla var sjálf ein af þeim sem vann þessar nýju starfsreglur, sagði þær hafa verið afar vel kynntar og sú gagnrýni á þær sem væri að koma fram nú hefði ekki komið fram þá. Hún spurði hvað væri ólýðræðislegt við „að prestar tilnefni hirði hirðanna.“ Þá væri það í anda hinnar þjónandi stéttar að hljóta tilnefningu frekar en að bjóða sig fram til embættis biskups. Bryndís Malla hvatti síðan flutningsmenn tillögunnar til að draga hana til baka. Margrét Eggertsdóttir, leikmaður úr Kjalarnesprófastdæmi sem einnig kom að gerð nýju starfsreglanna, tók undir með henni um að þær reglur hafi verið vel kynntar með góðum fyrirvara. 

Á þinginu var síðan bent á að mál 44 sé svo nýtt að margir hreinlega viti ekki af því eða hafi ekki náð að kynna sér það nægjanlega fyrir aukakirkjuþingið, og undruðust sumir af hverju þetta væri keyrt svona hratt áfram, og lagt fram með afbrigðum á aukakirkjuþingi, sumsé með styttri fyrirvara en gert er ráð fyrir.

Endurtekið á síðustu stundu

Séra Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, sagði að sannarlega væri hægt að fara ýmsar leiðir þegar kemur að biskupskjöri. Hann sló síðan á létta strengi. „Ég spurði einu sinni: Af hverju kjósum við ekki bara biskup þar sem allir í þjóðkirkjunni horfa á sjónvarpsþáttinn So You Think You Can Preach, sem er eins og So You Think You Can Dance, og svo fækkar bara um einn í hverri viku. Þjóðin fer að horfa saman og þetta verður gaman. Ég er samt ekki viss um að ég ætli að leggja þetta fram sem breytingartillögu með þessu.“

„Af hverju kjósum við ekki bara biskup þar sem allir í þjóðkirkjunni horfa á sjónvarpsþáttinn So You Think You Can Preach“
Séra Guðni Már Haraldsson, prestur í Lindakirkju

Hann varð síðan alvarlegri og sagði að eins mikið og hann elskaði lýðræðið þá sæi hann ekki ástæðu til að hleypa öllum að borðinu að svo komnu máli. „Mér finnst fallegt að prestar velji hirði hirðanna, og djáknar - hin vígða stétt,“ sagði hann og benti á að þetta væru aðilar sem mikið traust væri borið til innan kirkjunnar og hafi sannarlega faglegt innsæi í hver getur orðið góður biskup. 

Guðni Már játaði síðan að hann hefði verið einn af þeim sem vildi í upphafi þings ekki samþykkja með afbrigðum mál 44 þar sem tillagan kæmi seint fram, lítil umræða hafi átt sér stað um hana og nýbúið væri að samþykkja reglur sem mikil ánægja væri með. Þá sagðist hann hreinlega vera „reiður og pirraður“ þegar endurtekið væri verið að henda inn á kirkjuþing málum með afbrigðum aftur. „Þetta er ekki eina málið,“ sagði hann.

Stuttur fyrirvari

Jónína Rós Guðmundsdóttir, leikmaður úr Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, var á báðum áttum og fannst ýmislegt til í báðum þeim sjónarmiðum sem fram hefðu komið.  „Ef ég væri eftirherma þá myndi ég taka Ragnar Reykás á þetta.“ Hún sagði að sér fyndist ekki óeðlilegt að þegar verið væri að velja biskup, einn af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, að þá væri hægt að bjóða sig fram líkt og fólk býður sig fram til forseta landsins. Á hinn bóginn sé stutt síðan starfshópur um nýjar reglur við biskupskjör skilaði af sér vandaðri vinnu. 

„Ef ég væri eftirherma þá myndi ég taka Ragnar Reykás á þetta“
Jónína Rós Guðmundsdóttir, leikmaður úr Reykjavíkurprófastsdæmi vestra

Þá sagðist hún verða „að taka undir með eldklerkinum sem var að tala hér“ og vísaði þar til Guðna Más, um að hún hefði viljað fá betri tíma til að kynna sér tillöguna og það sé óþægilegt þegar mál séu tekin inn með afbrigðum.  Annað væri þegar fólk væri í fullri vinnu við þingmálagerð eins og á Alþingi, hún væri hins vegar fyrir í mjög annasömu starfi. „Mér finnst ég standa hér pínulítið eins og kjáni, eins og Ragnar Reykás, því það eru svo margar hliðar á málinu,“ sagði hún og vonaðist til að umræðurnar yrðu áfram góðar þannig að botn fáist í málið.

Séra Gísli Gunnarsson, vígslubiskup á Hólum, tók undir með síðustu ræðumönnum um að málið bæri nokkuð brátt að og spurði af hverju lægi svona á að taka aftur upp umræður um starfsreglur við biskupskjör. Gísli ítrekaði síðan hvað hann væri hlynntur því fyrirkomulagi að biskupskandídatar séu tilnefndir frekar en að þeir bjóði sig fram. Máli sínu til stuðnings sagði hann að sá íslenski biskup sem hafi notið mestrar hylli, Guðmundur góði Arason, hafi hreinlega verið „neyddur til að verða biskup.“ Það er raunar smá tími síðan téður Guðmundur gegndi biskupsembætti en hann tók við því árið 1185.

Nokkrir þeirra sem tóku til máls hrósuðu sérstaklega Bryndísi Möllu og félögum sem stóðu að gerð þeirra starfsreglna um biskupskjör sem samþykktar voru í fyrra. 

Ekkert „surprise“ að vera tilnefndur

Stefán Magnússon, flutningsmaður máls 44, kvað sér aftur hljóðs og sagði að tilnefningarferlinu hefði í umræðunum endurtekið verið stillt upp sem einhvers konar „rómantísku ferli“. Hann vildi vekja athygli á því að það væri sannarlega enn hægt að skora á kollega að bjóða sig fram þó tillagan verði samþykkt. „Það yrði bara utan kerfis og í góðu lagi. Það væri jafnvel hægt að hafa einhverja leikmenn með sér í því, ef menn þora,“ sagði hann og virtist þar með reyna að ögra vígðum þjónum.

„Ha? Menn vinna hér eins og ég veit ekki hvað í því að láta tilnefna sig, hringja í mann og annan”
Stefán Magnússon, flutningsmaður máls 44

„Reyniði nú ekki að halda því fram að frambjóðendur í biskupskjöri, að þetta sé ægilegt surprise: ‘Ég var tilnefndur í biskupskjöri“. Ha? Menn vinna hér eins og ég veit ekki hvað í því að láta tilnefna sig, hringja í mann og annan, og svo framvegis. Það er ekkert surprise í því. Þetta er allt fólk sem er að vinna að eigin framboði. Það þarf bara að fara þennan stíg að ná kollegum til að styðja sig til að geta yfir höfuð átt sjens á að komast í biskupskjör,” sagði Stefán og virtist bersýnilega nokkuð ósáttur við málflutning ýmissa félaga sinna á kirkjuþinginu.

Hann gaf síðan lítið fyrir að fólk vildi ekki samþykkja mál á kirkjuþingi því mál hafi ekki hlotið nógu mikla kynningu, og ítrekaði að ferlið við biskupskjör væri allt of þröngt eins og það er nú. „Það er engin rómantík í því. Menn þurfa að komast í gegn um nálarauga kollega til að eiga sjens,“ sagði hann.

Lesið upp úr Biblíunni

Biblíutilvitnanir voru næstar á dagskrá. Séra Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur að Reynivöllum, bætti sér í hóp þeirra sem gagnrýndi þann flýti sem einkenndi framlagningu þessarar tillögu. Hún rifjaði upp fyrstu setningu greinargerðar með tillögunni þar sem segir „Nú er í sjónmáli kjör samkvæmt starfsreglum um biskupskjör og flutningsmenn telja því rétt að endurskoða fyrirkomulag við framboð til embætta biskupa.“ Hún benti á að þetta kjör væri ekki endilega í sjónmáli heldur væri ár í þessa kosningu.

Hún velti síðan upp spurningum um ferlið, hvort ætti að fá meðmælendur eða láta tilnefna. Síðan sagði hún að það væri hreinlega hægt að fara þá leið að auglýsa laust starf biskups Íslands, og vísaði síðan í Biblíuna, nánar tiltekið til Fyrra bréfs Páls til Tímóteusar þar sem fjallað er um leiðtoga kirkjunnar. Hún benti á að þjóðkirkjan gæti haft til viðmiðunar þá faglegu sýn á hlutverk biskups sem þar birtist, en það var ekki fyrr en hún hóf lesturinn sem óbreyttur leikmaður utan þjóðkirkjunnar áttaði sig á því að hún var augljóslega að grínast. 

„Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.“
Úr Fyrra bréfi Páls til Tímóteusar

Hún lauk upplestrinum með hvatningu til áheyrenda um að lesa þennan „skemmtilega“ kafla. „Það er talað um djöfulinn og ég veit ekki hvað og hvað,“ sagði hún.

Ég fletti kaflanum upp og sá að þar var haldið áfram með orðunum: „Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan til þess að hann verði ekki fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.“ Það er ekkert annað.

Arna sagði að það væri hreinlega bara hægt að birta starfsauglýsingu og áhugasamt fólk gæti sótt um. „Það væri nýsköpun. Ég sé enga nýsköpun í þessari tillögu,“ sagði hún og vék talinu að því hvað reglurnar um fyrirkomulag við biskupskjör sem samþykktar voru í fyrra hefðu verið faglega unnar. 

Hún sagðist hrifin af þeirri köllunarguðfræði sem birtist í því að tilnefna kandídatat til biskupsembættis. Hún benti á að samfélag vígðra þjóna vissi vel hverjir myndu sóma sér vel sem biskup, vilja stíga inn í það embætti og hvert orðspor kollega sinna sé. „Við vitum hvort þau eru drykkfelld,“ sagði hún og tók fram að þetta væri sagt bæði í grínu og alvöru, en þó með augljósri vísan í bréf Páls til Tímóteusar. 

Stjórnmálavæðing innan kirkjunnar

Séra Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, steig ákveðinn í pontu og sagði ekkert undarlegt að þetta mál kæmi fram nú. „Ég eiginlega bara beið eftir því,“ sagði hann og sagðist líta svo á að með nýlega samþykktum breytingum á fyrirkomulagi biskupskjörs hafi orðin ákveðin stjórnmálavæðing í kerfinu. „Þetta kemur mér ekkert á óvart. Ég er ekki óundirbúinn. Þið ættuð heldur ekki að vera það ef þið áttið ykkur á því sem er að gerast í kirkjunni,“ sagði hann en Kristján er einn þeirra sem hefur verið orðaður við komandi baráttu um biskupsembættið. 

Hann þakkaði Örnu síðan fyrir upplesturinn en sagði hana þó ekki hafa tekið fram eitt mikilvægt skilyrði í þá daga fyrir því að verða biskup, nefnilega það að vera karlmaður. 

Þegar Óskar Magnússon, leikmaður úr Suðurprófastsdæmi, tók til máls fór ég fljótt að velta fyrir mér hvort hann meinti það sem hann væri að segja eða hvort hann væri að vera kaldhæðinn. Ég fékk fljótt svar við spurningu minni. Hann sagði að umræðan um tillöguna hefði verið „yndisleg“ og „skemmtileg“ en það væri mesta furða hvað þau gætu rætt þetta mál, „fólk sem veit ekkert í sinn haus,“ og var þar augljóslega að að vísa til hans upplifunar af viðhorfi vígðra þjóna á leikmönnum. 

Prestar úti um allt

Hann sagði ljóst að þessir vígðu þjónar vildu ekki gefa eftir það sem þeir hefðu, sumsé vald til að tilnefna biskupsefni. „Þeir koma hér upp hver á fætur öðrum og lýsa því að þeir séu manna best færir til að ákveða hver sé biskup, af því að þeir séu prestar,“ sagði hann.

„Þeir eru líka hæfastir til að gera ýmislegt annað, eins og við þekkjum. Hér eru formenn eiginlega allra nefnda prestar. Það er fínt. Við erum í góðum höndum. Allra fastanefnda nema í fjárhagsnefnd þar sem Guðni er varaformaður. Meira að segja í framkvæmdanefnd er prestur. Ég veit ekki af hverju við ættum að hafa einhverjar áhyggjur af starfinu hér. Auðvitað vita prestar þetta allt saman best, bæði um fjárhagsmál, löggjafanefndarmál, allsherjarmál, öll mál, og að sjálfsögðu öll framkvæmdamál. Ekki vitum við neitt um þau, ekki neitt um rekstur, lögfræðingarnir, menn sem hafa unnið við það í tuttugu, þrjátíu ár. Það eru bara prestar sem vita það,“ sagði Óskar en hann er einmitt lögfræðingur og hefur staðið í ýmsum rekstri í gegn um árin. 

„Ég held að það mætti kannski skoða að biskup væri alls ekki prestur“
Óskar Magnússon, leikmaður úr Suðurprófastsdæmi

Þá sagði hann það „algjör öfugmæli“ að segja að prestur sem sé vinsæll meðal almennings en ekki meðal presta geti ekki verið góður biskup. „Það má ekki horfa á alla hluti frá sjónarhóli presta. Þið verðið að sætta ykkur við það.“ Hann sagðist síðan standa reglulega upp á kirkjuþingi „til að afla mér vinsælda í hópi lærðra og geri það líka núna.“

Og hann hélt áfram: „Ég vil gjarnan njóta alltumlykjandi hlýju og kærleika ykkar sem hér eruð og læra af ykkur um allt sem mér hefur ekki tekist að læra um ævina og er þess vegna dálítið þakklátur fyrir að hafa setið hér í um tvo tíma og notið þessarar leiðsagnar áfram.“ Óskar lauk síðan máli sínu á að leggja fram tillögu: „Ég held að það mætti kannski skoða að biskup væri alls ekki prestur. Mér hefur helst dottið í hug að hann væri lögfræðingur.“

Biskup sem fólk vill fá heim í kaffi

Síðan tók við ljúf rödd Kristrúnar Heimisdóttur, varaforseta kirkjuþings og leikmanns úr Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, sem sagðist hafa einfaldar hugmyndir um þessi mál. Hún sagðist nefna þetta bæði í gamni og alvöru að það væri kannski gott viðmið „að biskup Íslands sé einstaklingur, manneskja, sem helst hver einasti Íslendingur gæti hugsað sér að hafa heima í kaffi hjá sér.“

Stefán Magnússon, framsögumaður tillögunnar, tók aftur til máls í lok umræðunnar og sagði ljóst að ákveðinn hluti presta vilji halda fyrirkomulaginu óbreyttu. „Eðlilega. Það bjóst enginn við öðru,“ sagði hann. Hann ítrekaði að honum fyndist lýðræðislegra að hægt væri að kjósa um fleiri en þrjá einstaklinga, og að leikmenn fái að velja úr hópi frambjóðenda en ekki bara þeim þremur sem að þeim er rétt. 

Kirkjuþingið samþykkti síðan beiðni Stefáns um að fara með málið í aðra umræðu, og samþykkti að málið færi til löggjafarnefndar. Boðað var hlé á þingfundi áður en haldið yrði áfram með dagskrá.

Þingfararkaup á kirkjuþingi er 50 þúsund krónur fyrir hvern þingdag. Þingfundur í gær stóð yfir í alls 5 klukkutíma og 15 mínútur. Umræðunni um mál 44 lauk þegar 2 klukkutímar og 36 mínútur voru liðnar af fundinum. Kostnaðurinn við þingfararkaup fullmannaðs kirkjuþings með 29 fulltrúum frá þingsetningunni til loka þessarrar umræðu nemur því um 718 þúsund krónum.

Umræður héldu áfram eftir hlé, og er enn áfram haldið í dag þar sem á dagskrá eru mál eins og tillaga að starfsreglum um breytingar á ýmsum starfsreglum starfsreglum kirkjuþings, og tillaga til þingsályktunar um innri endurskoðun stjórnarheilda þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt dagskrá lýkur þessu aukakirkjuþingi klukkan 18 í dag.

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • K Hulda Guðmundsdóttir skrifaði
    Ég vil þakka fyrir þessa innsýn á kirkjuþing Þjóðkirkjunnar, sem vekur óneitanlega upp þá spurningu hvers vegna þetta aukaþing var yfirleitt kallað saman ? Þingsköp virðast ekki hafa verið virt þar sem þingforeti sjálfur stöðvar atkvæðagreiðsu um hvort taka eigi málin fyrir! Kostulegt.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
1
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.
Baráttan fyrir því „dýrmætasta og fallegasta“
3
Viðtal

Bar­átt­an fyr­ir því „dýr­mæt­asta og fal­leg­asta“

Bar­átta fyr­ir vernd­un út­sýn­is­ins úr Laug­ar­nesi yf­ir í Við­ey hef­ur leitt sam­an þær Þuríði Sig­urð­ar­dótt­ur og Stein­unni Jó­hann­es­dótt­ur sem telja okk­ur sem nú lif­um ekki hafa leyfi til þess að eyði­leggja þá fögru sjónása sem Reyk­vík­ing­ar hafa getað not­ið um ald­ir. „Þetta er lít­ill blett­ur sem við þurf­um að slást um al­gjör­lega upp á líf og dauða,“ seg­ir Stein­unn.
Ekki hægt að friðlýsa útsýnið
4
Úttekt

Ekki hægt að frið­lýsa út­sýn­ið

All­víða á höf­uð­borg­ar­svæð­inu stend­ur venju­legt fólk í slag um út­sýni til hafs, fjalla og eyja. Einn slík­ur slag­ur varð­ar Laug­ar­nes­ið, sem Minja­stofn­un hef­ur vilj­að frið­lýsa, reynd­ar í óþökk Reykja­vík­ur­borg­ar. Jarð­efni sem fært var úr grunni nýs Land­spít­ala mynd­ar nú land­fyll­ingu sem senn verð­ur enn stærri. Út­sýni til Við­eyj­ar gæti tap­ast, óháð öll­um frið­lýs­ingaráform­um.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
1
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
2
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.
Læknamistök og handleggsbrot hafa markað ævi Ingu
6
Nærmynd

Læknamis­tök og hand­leggs­brot hafa mark­að ævi Ingu

Ingu Sæ­land fé­lags- og hús­næð­is­mála­ráð­herra var ekki hug­að líf vegna skæðr­ar heila­himnu­bólgu þeg­ar hún var smá­barn. Hún lifði en sjón henn­ar tap­að­ist að miklu leyti. Inga þekk­ir bæði fá­tækt og sár­an missi, gift­ist sama mann­in­um tvisvar með 44 ára milli­bili og komst í úr­slit í X-Factor í milli­tíð­inni. Hand­leggs­brot eig­in­manns­ins og ít­rek­uð læknamis­tök á tí­unda ára­tugn­um steyptu fjöl­skyld­unni í vand­ræði.

Mest lesið í mánuðinum

Ráðuneyti keypti danska hönnunarsófa fyrir 5,9 milljónir
1
Viðskipti

Ráðu­neyti keypti danska hönn­un­ar­sófa fyr­ir 5,9 millj­ón­ir

Há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og iðn­að­ar­ráðu­neyt­ið hef­ur und­an­farna mán­uði keypt hús­gögn úr hönn­un­ar­versl­un, sem þar til ný­lega hét Norr11, að and­virði rúm­lega tíu millj­óna króna. Um er að ræða sam­sett­an sófa, kaffi­borð, borð­stofu­borð og fleiri hús­gögn að and­virði 10,2 millj­óna króna. Þar af er 1,3 millj­óna króna sófi inni á skrif­stofu ráð­herra.
Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
3
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
4
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
6
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár