Veröldin varð háskalegri staður eftir innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu fyrir ári síðan. Í ágúst síðastliðnum sagði António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, að hættan á kjarnorkustríði væri síst minni nú en þegar kalda stríðið stóð sem hæst. Þau orð segja sína sögu um hversu alvarleg staðan er.
Kjarnorkuvopn eru háskalegustu gereyðingarvopn sögunnar. Alþjóðasamfélaginu hefur til þessa hvorki tekist að stöðva útbreiðslu þeirra né að fá þær þjóðir sem búa yfir kjarnorkuvopnum til að afvopnast. Þess í stað er milljörðum sóað í þróun og endurnýjun kjarnorkuvopna. Sérfræðingar benda á að okkur skortir bjargir til að takast á við afleiðingar kjarnorkustríðs.
Kjarnorkuvopn fela ekki í sér vörn gegn alþjóðlegum átökum og stríði. Þvert á móti fela þau í sér ógn við öryggi jafnt Norðurlandanna sem heimsins alls. Beiting kjarnorkuvopna myndi hafa í för með sér ógnvænlegar hamfarir fyrir bæði almenning og loftslag með afleiðingum sem ekkert ríki hefði bolmagn til að bregðast við. Ein kjarnorkusprengja getur drepið hundruð þúsunda manna og þurrkað út heilu borgirnar.
„Það sendir skýr skilaboð til kjarnorkuvopnaríkjanna um að ekki finnist kjarnorkuvopn á friðlýstum svæðum og á þau skuli ekki ráðast með kjarnorkuvopnum“
Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum tók gildi árið 2021. Sáttmálinn bannar fjármögnun, framleiðslu og vörslu kjarnorkuvopna sem og beitingu eða hótun um beitingu þeirra. Ekkert af helstu kjarnorkuveldum heims hafa til þessa fullgilt samninginn.
Því er nauðsynlegt að beita öðrum aðferðum til að draga úr þeirri ógn sem kjarnorkuvopn skapa. Ein leiðin er að friðlýsa svæði gegn kjarnorkuvopnum. Með því að skilgreina slík svæði mynda ríki, sem ekki hýsa kjarnorkuvopn á sínu yfirráðasvæði, bandalag sín á milli. Það sendir skýr skilaboð til kjarnorkuvopnaríkjanna um að ekki finnist kjarnorkuvopn á friðlýstum svæðum og á þau skuli ekki ráðast með kjarnorkuvopnum.
Samningur um bann við kjarnorkuvopnum í Rómönsku-Ameríku varð til þess að Brasilía og Argentína stöðvuðu kjarnorkuvopnaáætlanir sínar. Þetta bætti samskipti og traust milli landa álfunnar.
Það eru engin rök fyrir því að fjölga Evrópuríkjum sem búa yfir eða hýsa kjarnorkuvopn – þvert á móti. Yfirlýst kjarnorkuvopnalaus svæði í Evrópu gætu á hinn bóginn aukið öryggi og traust í álfunni. Á Norðurlöndunum er löng hefð fyrir því að vinna að afvopnun og stöðvun átaka, nokkuð sem er mikilvægara núna en nokkru sinni fyrr.
Þess vegna viljum við, þingmenn Norrænna vinstri grænna í Norðurlandaráði, að ríkisstjórnir Norðurlanda sameinist um að gera Norðurlöndin að kjarnorkuvopnalausu svæði.
Athugasemdir