Sendiráð Úkraínu gagnvart Íslandi hefur þungar áhyggjur vegna aðsendrar greinar sem birt var í Morgunblaðinu 22. febrúar síðastliðinn. Þetta kemur fram í opnu bréfi Olgu Dibrova sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi til Morgunblaðsins sem dagsett er 28. febrúar og birtist á Facebook-síðu sendiráðsins.
Greinin sem um ræðir er eftir Mikhail Noskov sendiherra Rússlands á Íslandi en í henni segir hann meðal annars að frá því í febrúar á síðasta ári hafi Rússland staðið að sérstökum hernaðaraðgerðum til að „afhervæða og afnasistavæða Úkraínu“. Noskov segir jafnframt að ásakanir svokallaðs „vestræns samfélags” um „tilefnislausa árás” hafi ómað alla síðustu tólf mánuði. „Hræsnisleg fullyrðing um að Rússland hafi „án ástæðu” ráðist á „meinlausa“ Úkraínu er meðal þeirra sem málsvarar núverandi Kænugarðsstjórnar hafa haldið sem mest á lofti.“
Talar hann um að innanlandsátök í Úkraínu hafi fyrst og fremst verið afleiðing þjóðfjandsamlegrar stefnu öfgahægriafla sem hafi tekið við stjórn í Kænugarði eftir að blóðugt valdarán hafi verið framið með virkri aðstoð Bandaríkjanna og leiðandi Evrópulanda árið 2014.
Noskov lýkur aðsendri grein sinni í Morgunblaðinu á þeim orðum að ljóst liggi fyrir að tilraunir Vesturveldanna til að „einangra“ eða „slaufa“ Rússlandi bíði afhroð. „Í millitíðinni hafa rússneskir hermenn náð góðum árangri í að eyða vopnabúnaði frá NATO á því svæði þar sem séraðgerðirnar fara fram. Enginn vafi leikur á því að Rússland tryggir öryggi sitt og skapar jákvæðar aðstæður fyrir áframhaldandi, stigvaxandi þróun. Sagan mun um síðir leiða hið rétta í ljós,“ skrifar hann.
Fjölmiðlar geta orðið tæki Rússa til að dreifa áróðri
Sendiherra Úkraínu gagnrýnir ákvörðun Morgunblaðsins að birta greinina. Dibrova segir að hún samanstandi af augljósum áróðri Rússlands frá opinberum fulltrúa hryðjuverkaríkisins Rússlands á Íslandi. Birting greinarinnar sé gott dæmi um það hvernig vestrænir fjölmiðlar geti orðið tæki til að dreifa fölsuðum upplýsingum og sjónarhorni Rússa til stuðnings fjöldamorða sem Rússar frömdu í hjarta Evrópu og grafa undan öllum alþjóðlegum viðmiðum, mannlegri reisn og grundvallarreglum um sambúð meðal þjóða.
„Íslenska þjóðin er einnig höfð að athlægi sem staðið hefur hugrökk með Úkraínumönnum frá fyrstu dögum innrásar Rússa í Úkraínu er nú berjast og deyja fyrir tilverurétt sinn sem frjáls og sjálfstæð þjóð.“
Samkvæmt sendiherra Úkraínu hefur greinin milljónir samlanda hennar að háði og spotti. Greinin hæðist að fólki sem misst hefur heimili sín og þá sem búa við daglegar flugskeyta- og drónaárásir frá Rússum – og þeim þúsundum úkraínskra fjölskyldna sem misst hafa ástvini sína í þessu grimma árásarstríði gegn Úkraínu.
„Íslenska þjóðin er einnig höfð að athlægi sem staðið hefur hugrökk með Úkraínumönnum frá fyrstu dögum innrásar Rússa í Úkraínu er nú berjast og deyja fyrir tilverurétt sinn sem frjáls og sjálfstæð þjóð og rétt til að stjórna eigin örlögum sem hluti af siðmenntuðum og lýðræðislegum heimi,“ skrifar hún.
Vonast eftir stuðningi
Dibrova segir að Morgunblaðið hafi gefið manninum orðið sem er opinberlega tengdur ríki sem brjóti kerfisbundið í bága við viðmið alþjóðlegra mannúðar- og mannréttindalaga í Úkraínu.
Sendiráðið skorar á Morgunblaðið að forðast það að verða óviljandi í vitorði með Rússum vegna árásar þeirra gegn Úkraínu og fjölda stríðsglæpa sem kostuðu þúsundir manna lífið. „Ég vonast til að fá skilning og stuðning,“ skrifar hún að lokum.
Áleitin spurning er hvort íslenska Utanríkisráðuneytið óski ekki eftir því við stjórnvöld í Kreml að þessi umdeildi sendiherra verði kallaður heim og annar sem kann venjulega mannasiði verði sendur í hans stað?
Hér í denn þegar maður var ungur og varla farinn að mynda sér pólutískar skoðannir.
Þá las maður samt ekki áróðurs sorprit styrmis, nema til að sjá hvað var í bíó.