Það er sérkennileg tilviljun að einmitt þegar sú umræða brýst upp á yfirborðið hvort ekki væri alveg kjörið að taka upp neyslu á hugbreytandi sveppum til að bæta geðheilsu okkar, þá skuli birtast úti í hinum stóra heimi gríðarlega vinsæl sjónvarpssería sem allir eru að horfa á, og fjallar einmitt um mjög svo hugbreytandi sveppi og áhrif þeirra á okkur – en því miður er óhætt að segja reyndar að hinir hugbreytandi sveppir í sjónvarpi bæti geð fólks ekki agnarögn.
Ég á vitaskuld við sjónvarpsseríuna The Last of Us sem bandaríska sjónvarpsfyrirtækið HBO gleður nú mannkynið með – nú, eða ógleður, því óhætt er að segja að hrollur fari um suma sem á horfa, og vissulega var einmitt til þess stofnað af HBO.
Höfundur Chernobyl á nýjum slóðum
The Last of Us er í grunninn zombí-sería, eins leiðinlega og það hljómar. Persónulega hafa mér alltaf leiðst zombíar. Það er einfaldlega of heimskulegt að horfa upp á þessi hálfdauðu hræ þeytast um allt uppfull af orku. En ýmsar hugmyndir sem boðið er upp á í þessari nýju seríu HBO færa hana skör ofar en venjulegt zombíjukk og því endist ég til að horfa á þetta.
Enda vissulega ekki aukvisar sem standa að seríunni. Höfundar hennar eru aðallega tveir: Neil Druckmann frá tölvuleikjafyrirtækinu Naughty Dog, sem skapaði tölvuleikinn sem serían er byggð á, og svo Craig Mazin sem hefur fullt af vinsælu en kjánalegu efni í bíó – Scary Movie, Hangover – en kom svo öllum í opna skjöldu um árin með hinni frábæru seríu Chernobyl þar sem Hildur Guðnadóttir og fleiri fóru á kostum.
Chernobyl virðist ansi fjarskylt The Last of Us.
Og þó. Aftur stendur maðurinn frammi fyrir hryllingi í umhverfinu. Og hver veit nema skelfingin í The Last of Us eigi sér líka orsakir í mannheimum, ekki síður en kjarnorkuslysið í Chernobyl?
Hugsa sveppir?
Þótt ég ætli síst af öllu að skemma of mikið fyrir væntanlegum sjónvarpsáhorfendum, þeim sem eiga eftir að sjá seríuna þeirra Mazins og Druckmanns, þá er alveg óhætt að fjalla um sjálfan útgangspunktinn, enda kemur hann í ljós á fyrstu mínútum fyrsta þáttar.
Hann er sá að sveppasýking tekur að breiðast út um heimsbyggðina með leifturhraða. Menn hafa náð góðum árangri við að þróa bæði lyf og bóluefni gegn bakteríu- og veirusýkingum en andspænis sveppum standa þeir ráðþrota. Eina ráðið gegn þessum meinsveppi reynist vera að drepa hann bara.
Og það er hægar sagt en gert vegna þess að sveppurinn tekur sér bólfestu inni í mönnum og tekur yfir vilja hans og alla hugarstarfsemi. Menn sem sýkjast verða nær umsvifalaust viljalaus verkfæri sveppsins. Sveppurinn „hugsar“ eftir það einungis um að vaxa svo og dafna inni í manninum að hann geti þroskað gróin sem hann fjölgar sér með. Venjulegir sveppir þeyta gróum sínum út í loftið og af hverju örsmáu grói getur sprottið fullvaxin lífvera.
Byggt á sönnum atburðum?
Þetta er nú allt fremur kunnuglegt úr hryllingsmyndageiranum. Alls konar kvikindi hafa gegnum tíðina sest að í líkama grunlauss fólks og gert af sér ýmsan óskunda.
Það skemmtilega við The Last of Us (fyrir utan ýmislegt óvænt sem kemur í ljós) er að serían er byggð á sönnum atburðum. Það eru nefnilega til sveppir sem smeygja sér inn í fórnarlömb sín, taka yfir heilastarfsemi þeirra og gera þau að viljalausum verkfærum sínum, um leið og þeir nærast á innviðum fórnarlambanna.
„Því hvernig haldið þið að sé að finna aðra lífveru vaxa innan í sér og taka yfir líkama sinn smátt og smátt?“
Ef sveppir hefðu raunverulega hugarstarfsemi gætum við komist að þeirri niðurstöðu að þessi kvikindi væru bæði grimm og miskunnarlaus og haldin hinum endanlega kvalalosta.
Því hvernig haldið þið að sé að finna aðra lífveru vaxa innan í sér og taka yfir líkama sinn smátt og smátt? Tala nú ekki um þegar sveppurinn fer að „hugbreyta“ í manni heilanum?
Sá hryllingssveppur sem veldur þessu nefnist cordyceps. Sem betur fer fyrir okkur hefur hann ekki (enn þá!) komist upp á lag með að taka yfir mannslíkama og hug, heldur ræðst á öllu smærri bráð.
Ekki síst maura.
Tekur yfir hvern vöðva af öðrum
Það merkilega er samt að sveppurinn tekur í rauninni ekki beinlínis yfir heila maursins sem hann nær að smita. Hann virðist setjast að í taugakerfi maursins og taka yfir hreyfingar dýrsins þannig, vöðva fyrir vöðva, kannski með „hugbreytandi“ efnum, fremur en að sveppurinn ráðist í raun á sjálfan heilann.
Þetta er ansi hrollvekjandi tilhugsun. Ef við reiknum með að maurinn hafi vitund, þá má hann sem sagt fylgjast með fullri meðvitund með því hvernig líkami hans er tekinn yfir.
Hann fer að hreyfa sig í samræmi við annan vilja en sinn eigin. Og hann getur ekkert við því gert.
Eftir að sveppurinn hefur í raun tekið stjórn á maurnum, þá gerist fyrst ekki neitt. Maurinn „leikur“ að ekkert sé að og gengur til vinnu sinnar með öðrum maurum eins og ekkert hafi í skorist. Og hinir maurarnir láta sér það lynda. Þetta er merkilegt vegna þess að maurar eru yfirleitt mjög næmir á veikindi félaga sinna og eru fljótir að hrekja brott og út í dauðann vinnumaura sem veikjast af bakteríu- eða veirusýkingum. Tilgangurinn er vitaskuld að koma í veg fyrir að þeir smiti út frá sér.
En maurarnir virðast ekki skynja eða ráða við „sveppamaurinn“ sem nú lifir meðal þeirra undir fölsku flaggi.
Gæti sveppur náð í krakkana í skólann?
Rétt eins og við gætum ímyndað okkur að sérlega lúmskur sveppazombí af mannkyni gæti farið í vinnuna á hverjum morgni og sótt krakkana í skólann meðan sveppurinn sem hefur tekið hann yfir heldur áfram að vaxa og þroskast innra með honum, uns sveppurinn er tilbúinn til að springa út.
Það er einmitt það sem sveppamaurinn gerir. Athyglisvert er að þegar hann er tilbúinn, þá ræðst hann ekki til atlögu inni í maurabúinu, þar sem hann gæti þó smitað þúsundir maura á einu bretti. Sveppurinn virðist gera sér grein fyrir að með því gæti hann vissulega drepið allt maurabúið á einu bretti en síðan væri hann þar innilokaður og myndi veslast upp og deyja.
Hann fer allt öðruvísi og miklu lymskulegar að. Sveppurinn marserar loks út úr maurabúinu inni í skrokk maursins, sem nú er alveg viljalaust verkfæri hans, og finnur sér tré eða trjágrein og kemur sér fyrir í um það bil þriggja metra hæð. Þar skorðar sveppurinn maurinn og tekur síðan til við að þróa gró sín.
Étin að innan
Með því að skorða veslings maurinn í þriggja metra hæð tryggir sveppurinn að gróin dreifist nægilega út með vindinum þegar hann sleppir þeim.
Allt að 30.000 á sekúndu.
Aðrar sveppategundir leggjast á ýmsar flugnategundir og taka þær yfir. Sumar taka völdin beinlínis með því að dæla hugbreytandi efnum inn í litla fluguheilann. Og allt í einu sannfærist flugan um að það sé góð hugmynd að líma sig á kjaftinum við laufblað í vissri hæð frá jörðu og liggja þar meðan sveppurinn „étur“ innyfli hennar og breytir þeim í gró.
Lengst af meðan á þessu gengur eru maurarnir og flugurnar lifandi.
Þau heppnu deyja fyrst.
Hin þurfa að þola þetta lengi.
Nú er það svo að vísindamenn fullvissa okkur um að við núverandi aðstæður sé engin hætta á að söguþráður The Last of Us hvað varðar sveppasýkingarnar verði að veruleika. Sveppir dreifi sér ekki með þeim hætti sem sería Mazins og Druckmanns gefur til kynna og enginn meinsveppur gæti þróast á skömmum tíma til að taka yfir menn.
Það myndi útheimta þróun sem tæki milljónir ára.
Breyta DNA fórnarlambanna?
Það skulum við hugga okkur við þegar við fylgjumst með baráttu Joels og Elliear við grimmdarsveppina í The Last of Us. En gæti náttúran hugsanlega komið okkur á óvart? Hér má til dæmis líta á að sumir vísindamenn telja að nokkrar sveppategundanna sem taka yfir skordýrin sleppi ekki bara hinum víðkunnu hugbreytandi efnum inn í taugakerfi dýranna til að taka þau yfir.
Heldur geti sveppirnir beinlínis breytt DNA hinna aumu fórnarlamba og gert þau sér undirgefin þannig. Gert úr þeim eitthvað nýtt og skelfilegt.
Sería Mazins og Druckmanns er ekki búin svo það er ekki ljóst enn hvernig þetta endar. En miðað við það sem komið er, þá hlýtur spurningin að vera þessi – og ég er bara að grínast í aðra röndina: Er virkilega eitthvað sniðugt að við skulum sjálfviljug ætla að hleypa sveppum inn í innstu helgidóma hugans?
Og það í „lækningaskyni“!
Eins og segir í klikkbeitunum: Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað gerist næst!
Athugasemdir