Post-dreifing hefur verið framsæknasta útgáfa landsins um nokkra hríð og gefið út alls konar leitandi listapopp síðan 2018. Fjórða Drullumalls-safnplatan inniheldur bæði „alvöru“ lög og (full mikið fyrir minn smekk af) þokulega hljóðskúlptúra sem gætu dunið á manni samhliða einhverju leiðinlegu myndbandsverki á listasýningu eða þá eitthvað sem hljómar eins og apar hafi komist í skemmtara og fingra-xílafón. Sem sagt eitthvert gauf út í loftið.
Besta drullan í mallinu fyrir minn hatt eru fimm „alvöru“ lög. Xiupill, þrír reffilegir strákar, flytja So U say: herskátt frumskógarlistarapp. Trailer Todd er gríðarlega nettur tveggja gítara, bassa, trommu-kvartett, sem lúskrar á eyrum með sargandi stærðfræðipönkinu Yeah. Alltaf má treysta á að hljómsveitin Börn komi með prýðilegt óþægindapönk og hér fær hlustandinn úr hljóðrænum hlandkoppi framan í sig, lagið Höggin dynja. Drengurinn fengurinn er frændi minn Egill Logi og get ég því ekki talað of vel um hann. Lagið Í rútunni er samt eitt af hans albestu.
Hljómsveitin Ókindarhjarta er efnileg mjög, ungir krakkar með gott lag, Dystópíski draumurinn. Flott rödd og lagið vel uppbyggt sakleysis-popp. Annað efni er síðra og hefði gjarnan mátt hafa þröskuldinn hærri. Vonandi heldur Post-dreifingin þó áfram sem lengst. Það eru akkúrat svona drífandi regnhlífarsamtök sem íslenski listapopps-örbransinn þarf á að halda til að halda sér á floti.
Athugasemdir