Fyrir tæpum 110 árum, eða í desember 1914, fréttist að bæjarstjórn Reykjavík ætlaði sér að ráða nýjan lögregluþjón til starfa í bænum. Lögreglumenn í höfuðstaðnum höfðu þá verið þrír frá því 1905 þegar þeim var fjölgað úr tveim. En nú birtist á baksíðu blaðsins Ísafoldar grein sem aðeins er merkt „A+“ og fjallar um þá eiginleika sem hinn nýi lögreglumaður og lögreglumenn yfirleitt þyrftu að búa yfir.
Það er ómaksins vert að heyra af skoðunum manna á þessu þá. Fer það saman við skoðanir okkar núna?
A+ skrifar í upphafi:
„Þar sem nú er í ráði, að höfuðstaðurinn bæti við sig einum Iögregluþjóni, vil eg leyfa mér að biðja um rúm fyrir örfáar athugasemdir. Mörgum mun nú kanske virðast þetta lítilfjörlegt efni til þess að gera það að blaðamáli; en svo er þó ekki.
Öllum Reykvíkingum þykir vænt um höfuðstaðinn, sem þeir búa í, og vilja vera sem hreyknastir af öllu, sem þar er, hverju nafni sem nefnist. Þetta kemur glögt í ljós, í þessu efni, þegar lögreglumenn sýna röggsemi í starfa sínum, og einkanlega í framkomu þeirra gagnvart útlendingum, hvort sem það eru uppivöðsluseggir eða þeir, sem leiðbeiningar þurfa.
Þar sem það nú er bæjarstjórnin sem á að veita þessa stöðu, eða svo hefir það verið hingað til, leyfi eg mér að drepa á hið helzta, sem mér virðist þurfa að athuga við þessa ráðningu.
Er þá fyrst að líta á mennina sjálfa, sem lögreglustarfann eiga að hafa á hendi.
Hið fyrsta er það, að í þessa stöðu þarf að ráða unga, hrausta og reglusama menn, sem útlit er fyrir að verði ekki bænum til byrði eftir stuttan tíma vegna heilsubilunar.
Einnig verða þeir að vera vel vaxnir og framkoman öll sköruleg, en kurteis. Í öllum löndum er kostað kapps um að lögreglumenn séu stórir og föngulegir, enda fátt í fari lögreglumanna, sem hefir meiri áhrif á erlenda óróaseggi en hinn stælti og þróttmikli líkami þeirra.
Og til þess að halda hreysti sinni og orku iðka erlendir lögreglumenn líkamsæfingar og temja sér fagurt göngulag og tígulega framkomu sem hermenn væru.
Þá er framkoman gagnvart almenningi mjög mikilsvert atriði. Lögreglumenn eiga að vera leiðbeinandi og mjög úrræðagóðir. Þeir eiga að semja frið, en ekki spi11a friði. Þeir verða að hafa skarpa dómgreind og næman skilning á stöðu sinni, því oft verða þeir að setja rétt á götum úti. Og þeir mega ekki gera sér mannamun.“
Og ennfremur segir um lögreglumennina:
„Þeir eiga að vera vinir barnanna, en ekki grýla á þau. Þeir eiga að vera traust foreldranna, sem börnin eiga, og ekki geta elt [börnin] um götur og stræti; þá verða borgararnir öruggir, ef þeir vita [lögregumennina] vini, en ekki óvini barnanna sinna. — Fyrir þetta eru enskir lögreglumenn sórstaklega rómaðir.“
Og enn segir A+:
„Gætnir verða þeir að vera gagnvart geðæstum mönnum, bæði druknum og ódruknum. Þeir mega aldrei láta vitgranna unglinga eða aðra ögra sér til að gera glópsku. Þeir verða að vera snöggir til afskifta af óróa eða óreglu á götunum; ekki bíða eftir því, að af því hljótist meiðingar eða munaspell.
Þeir eiga ekki að fara um menn fantahöndum , en halda þeim í skefjum með orku sinni og réttsýni. Alla starfsemi sína og athafnir eiga þeir að kunna öllum öðrum betur, til þess að geta verið leiðbeinandi. Á þetta verður bæjarstjórnin að líta, þegar hún ræður sér lögreglumenn.“
Skemmst er frá því að segja að árið 1919 voru lögregluþjónar í Reykjavík orðnir níu talsins svo þeim hefur fjölgað hressilega frá 1914.
Athugasemdir