„Stytting biðlista eftir afplánun í fangelsi er eitt af forgangsatriðum dómsmálaráðherra. Það er óviðunandi að fjöldi dómþola skuli hefja afplánun refsingar nokkrum árum eftir að dómur fellur og slíkt leiðir jafnframt til þess að varnaðaráhrif refsingarinnar verða minni en annars.“
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, um biðtíma eftir afplánun í fangelsum landsins.
Skortir pláss fyrir gæsluvarðhaldsfanga
Þorbjörg spurði um meðalbiðtíma þeirra 279 karla og 38 kvenna sem biðu eftir afplánun í lok september 2022. Í svari Jóns kemur fram að þeir dómþolar sem voru á boðunarlista eftir afplánun í lok nóvembermánaðar hefðu verið á listanum í að meðaltali 2,2 ár.
2,2 ár
Í einhverjum tilvikum höfðu dómþolar sjálfir óskað eftir lengri fresti og í einhverjum tilvikum hafi reynst erfitt að hafa uppi á þeim, til dæmis vegna þess að þeir væru erlendis. Síðan sé töluverður fjöldi sem aldrei fari á boðunarlista þar sem þeir sæta gæsluvarðhaldi fram að dómsuppkvaðningu og hefja síðan strax afplánun.
Þorbjörg spurði einnig hvort Fangelsismálastofnun hafi gripið til þess að hætta að boða fanga til afplánunar vegna bágrar fjárhagsstöðu fangelsa landsins. Jón segir að ekki hafi komið til þess. „Þegar slíkt hefur verið gert hefur reynst erfitt að vinda ofan af því. Í stað þess að hætta að boða dómþola til afplánunar hefur verið lengt í boðunarferlinu. Þá má einnig nefna að dæmi eru um að ekki hafi verið hægt að taka við gæsluvarðhaldsföngum frá lögreglu sem hefur þá þurft að vista þá á lögreglustöð í einhvern tíma í stað fangelsis,“ segir í svari hans.
Fjárhagsleg niðurskurðarkrafa frá 2008
Í fyrirspurninni var einnig óskað eftir upplýsingum um þróun fjárveitinga til Fangelsismálastofnunar frá árinu 2008 til dagsins í dag.
„Þróunin hefur verið neikvæð nánast öll árin á grunnfjárheimildum Fangelsismálastofnunar. Frá árinu 2008 og til ársins í ár hefur verið niðurskurður öll árin og hagræðingarkrafa,“ segir dómsmálaráðherra. Þó sé rétt að benda á að nýjum verkefnum hafi oft fylgt fjármagn, til dæmis var byggt nýtt fangelsi á Hólmsheiði á þessum tíma. Á fjáraukalögum 2022 var samþykkt 150 milljóna króna framlag til styrkingar starfseminni og 250 milljóna króna varanlegt framlag á fjárlögum 2023.
„Þróunin hefur verið neikvæð nánast öll árin á grunnfjárheimildum Fangelsismálastofnunar“
„Með auknum fjárveitingum verður m.a. lögð áhersla á að nýta betur þau fangarými sem eru til staðar með það að markmiði að refsingar fyrnist ekki og að biðtími eftir afplánun verði styttri,“ segir í svari Jóns.
Aðgerðir til að stytta boðunartíma
Þá kemur fram að á árunum 2020 og 2021 hafi verið farið í sérstakar aðgerðir til að stytta boðunartíma í fangelsi. Í því skyni var lögum um fullnustu refsinga breytt tímabundið, til dæmis með það að markmiði að fleiri dómþolar ættu möguleika á að fullnusta dóm sinn með samfélagsþjónustu í stað fangelsis.
Þessi tímabundnu ákvæði gilda til ársins 2024 en innan dómsmálaráðuneytisins er nú unnið að því að leggja mat á hvort æskilegt væri að gera þau ákvæði varanleg og jafnframt hvort fara þurfi í frekari aðgerðir til styttingar á boðunarlista í fangelsi. Jón segir mikilvægt að skoða slíkar aðgerðir vandlega, meðal annars út frá þeim varnaðaráhrifum sem refsingum er ætlað að hafa.
177
Heildarfjöldi rýma í fangelsum landsins er 177 og nú fer fram greiningarvinna á því með hvaða hætti sé best að fjölga fangelsisrýmum. Miðað við upplýsingar um fjárveitingar sem liggja til grundvallar er áætlað að hægt verði að nýta um 160 til 168 pláss á hverjum tíma að meðaltali, eða um 90 til 95% rýma.
Athugasemdir