Fjármála- og efnahagsráðuneytið lítur svo á að það sé ekki að óska eftir samningi við lífeyrissjóði og aðra eigendur skulda ÍL-sjóðs um skerðingu eigna í þeim umleitunum sem farið hafa fram á forræði þess við þá aðila. Fyrirsjáanlegt sé að ÍL-sjóður geti ekki staðið undir öllum skuldbindingum sínum og sé ógjaldfær. Þess vegna séu uppi sjónarmið um að ganga verði til uppgjörs á sjóðnum. „Slíkt uppgjör gæti til að mynda falið í sér að eigendur bréfanna fái afhentan höfuðstól skuldarinnar ásamt vöxtum og verðbótum til uppgjörsdags. Ávöxtun af slíku eignasafni í höndum lífeyrissjóðanna kynni allt eins að verða jafn góð eða betri en af skuldabréfum ÍL-sjóðs.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um málið.
Þar segir enn fremur að Bjarni hafi ekki boðað eina tiltekna aðgerð eða ráðstöfun í málefnum ÍL-sjóðs, hvorki í skýrslu um málefni sjóðsins né á blaðamannafundi sem Bjarni hélt seint á síðasta ári. Þar hafi verið um að ræða kynningu á ósjálfbærri fjárhagsstöðu sjóðsins og „reifun á þremur leiðum sem helst virðast koma til greina við úrvinnslu sjóðsins. Líkt og fram hefur komið mun Alþingi svo þurfa að taka afstöðu til þeirra leiða sem farnar verða.“
Áætlað tap 200 milljarðar
ÍL-sjóður varð til á grundvelli laga sem samþykkt voru árið 2019, og skiptu Íbúðalánasjóði upp í tvennt. Hluti hans, sá sem snýr að fjármögnun á félagslegri uppbyggingu á húsnæði, færðist í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldir og eignir vegna íbúðalána á almennum markaði, sem rekja má að mestu til skuldabréfaútgáfu á árinu 2004, voru sett í ÍL-sjóð. Skuldabréfin, sem eru með gjalddaga til 2044, eru ekki uppgreiðanleg en lánin sem sjóðurinn veitti eru það hins vegar.
Vandi ÍL-sjóðs er tilkominn vegna þess að íbúðalán bankans hafa verið greidd upp á miklum hraða, og eru einungis um 20 prósent af eignum sjóðsins, á meðan að enn þarf að þjónusta skuldabréfin. Áætlað er að tap vegna þessa fyrirkomulags verði að óbreyttu 200 milljarðar króna.
Ætlaði að spara ríkissjóði 150 milljarða
Bjarni Benediktsson boðaði til blaðamannafundar í október í fyrra þar sem hann sagðist ætla að spara ríkissjóði 150 milljarða króna með því að annað hvort ná samkomulagi við eigendur skuldabréfanna um að gefa eftir eignir sínar, eða með því að knýja fram slit sjóðsins með lagasetningu fyrir árslok. Þá yrði tap ríkissjóðs aðeins 47 milljarðar króna, en ekki 200.
Þessi áætlun byggði á lögfræðiáliti sem ráðuneytið lét vinna fyrir sig sem komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri gerlegt. Sá sem skrifaði það álit er Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður. Samhliða var greint frá því að Steinþór Pálsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, hefði verið fenginn sem milligönguaðili í samtali við eigendur krafna á ÍL-sjóð. hann á að reyna að ná samkomulaginu við sjóðina.
Lífeyrissjóðir, sem eiga um 80 prósent skuldabréfa sem útgefin voru af ÍL-sjóði, hafa áætlað að sú leið sem Bjarni boðaði muni kosta þá yfir 100 milljarða króna. Tap eigenda bréfa ÍL-sjóðs stafar af því þau voru verðlögð miðað við 3,75 prósent verðtryggða vexti út líftíma bréfanna. Ef bréfin væru greidd upp miðað við stöðu þeirra í dag væri hægt að ávaxta þá fjármuni um 1,7-1,8 prósent með kaupum á verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Í þessum mun felst áætlað tap eigenda bréfanna.
Töldu lagasetningu brot á stjórnarskrá
Þann 11. nóvember 2022 tilkynntu flestir lífeyrissjóðir landsins að þeir hefði ákveðið að mynda sameiginlega vettvang til að greina stöðu sjóðanna vegna ÍL-sjóðs. Hver og einn sjóður mun þó á endanum taka sjálfstæða ákvörðun um hvað hann vill gera í málinu.
Í lögfræðiáliti sem LOGOS vann fyrir fjóra af stærstu lífeyrissjóðum landsins kom fram að fyrirhuguð lagasetning Bjarna færi í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Í áliti LOGOS sagði einnig að slíkt inngrip fæli í sér eignarnám eða annars konar skerðingu eignarréttinda sem myndi skapa íslenska ríkinu bótaskyldu gagnvart þeim sem eiga skuldabréf útgefin af sjóðnum.
Í lögfræðiálitinu kom fram að fjármála- og efnahagsráðherra beri beina ábyrgð á skuldbindingum ÍL-sjóðs eftir þær breytingar sem urðu á Íbúðalánasjóði við lagabreytingu árið 2019, en þá var sjóðnum skipt upp. Verkefni stofnunarinnar og lánveitingar til íbúðarhúsnæðis sem skilgreind voru eingöngu á félagslegum forsendum voru flutt í nýja stofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Skuldabréfaflokkarnir og vandamálin voru skilin eftir í sjóði sem fékk nafnið ÍL-sjóður. Eigið fé hans við stofnun var neikvætt um 180 milljarða króna.
Með því taldi LOGOS að fjármála- og efnahagsráðherra hafi verið falin yfirumsjón með ÍL-sjóði. Í tilkynningu frá lífeyrissjóðunum fjórum seint í nóvember í fyrra sagði að ÍL-sjóður teljist því ekki sérstök undirstofnun, heldur hluti ráðuneytisins. „Þannig sé íslenska ríkið skuldari frekar en ábyrgðarmaður. Það sé jafnframt í samræmi við þau sjónarmið að færa sjóðinn undir A-hluta ríkisreiknings frá áramótum. Samkvæmt þessu ber fjármálaráðherra beina ábyrgð á sjóðnum og skuldbindingum hans að áliti LOGOS.“
Ennfremur kom fram í álitinu að ákveði fjármálaráðherra að slíta sjóðnum með þeim afleiðingum að kröfur á hendur þrotabúinu falli í gjalddaga muni íslenska ríkið ótvírætt bera ábyrgð á núverandi og framtíðarskuldbindingum samkvæmt skilmálum skuldabréfanna ásamt dráttarvöxtum.
Það frumvarp sem fjármála- og efnahagsráðherra boðaði að lagt yrði fram fyrir síðustu áramót ef ekki tækist að semja um ÍL-sjóð hefur enn sem er ekki litið dagsins ljós.
Bara það að varpa fram þessari hugmynd hefur valdið umtalsverðu tjóni. Ýmsir sjóðir td á vegum líknarfélaga þurftu að sæta mikilli lækkun. Ef það verður raunin að ríkið stendur ekki við skuldbindingar sínar hlýtur það að leiða til verri lánskjara fyrir ríkið.
Að sjálfsögðu er Bjarni að reyna að velta tapi ÍS yfir á lífeyrissjóðina. Verðbréf sem hugsanlega gæfu hærri ávöxtun eru mjög áhættusöm. Auk þess held ég að lífeyrissjóðir hafi reglur um hvernig skipta á fjárfestingum milli flokka og séu því nauðbeygð til að kaupa skuldabréf með ríkisábyrgð í staðinn.
Bjarni hefur lagt allt kapp á að lækka ríkisskuldir og hefur svelt alla innviði til að ná sem bestum árangri í þeim efnum. Hann á því erfitt með að horfast í augu við að skuldir ÍS umfram greiðslugetu sjóðsins eru í raun skuldir ríkisins. Vantar ekki einnig lífeyrisskuldbindingar í skuldir ríkisins?