„Sérstök aðgerð“
Die Zeit: „Spezialopoperation“
Á forsíðu menningarblaðsins er stór mynd af dragdrottningu að taka sig til á LGBTQ-festivali í Moskvu sem tekin var í október 2022. Greinin fjallar um hinsegin málefni í Rússlandi og veltir greinarhöfundur því fyrir sér hvað Pútín gangi til í andstöðu sinni gegn LGBTQ-samfélaginu og setur það í samhengi við stríðið í Úkraínu. Blaðamaður, sem er rússneskur, gefur í skyn að innrás Rússa sé ekki einungis upphafið að herferð hans gegn hinseginleika heldur hluti af stærri hugmyndum um að frelsa Evrópu – þar sem heimsálfan sé „ekki heil á geði“ og þurfi að vera bjargað.
Inni í blaðinu eru að vanda umfjallanir af ýmsum toga um bókmenntir, ljósmyndun, tónlist, kvikmyndir og leikhús. Leikskáldið Anton Pavlovich Chekhov fær sína umfjöllun, þrátt fyrir að tæp 119 ár séu liðin frá andláti hans – og telur gagnrýnandi blaðsins hann eiga fullt erindi við nútímann og kannski sérstaklega núna.
Lífræn efni í stað lífvera?
FAZ: Organoide statt Organismen?
Fyrir utan leiklistarumfjöllun á forsíðunni þá er grein um dýratilraunir en höfundur telur að varla sé hægt að fækka þeim – eins og ætti að gera – þegar reglur um lyfjaþróun eru með þeim hætti sem þær eru. Segir í greininni að þrátt fyrir lagabreytingar í Bandaríkjunum til að sporna við tilraunum á dýrum við þróun lyfja þá muni framkvæmdin í reynd ekki breytast mikið á næstu árum og beri að skilja breytinguna sem pólitíska yfirlýsingu. Þá er bent á að vísindamenn þrói nú lífræn efni sem hægt er að prufa lyfin á, í stað dýra. Margir segja þó dýrin nauðsynleg við slíkar tilraunir og að óábyrgt væri að hverfa frá þeim. Enn sé langt í land að hætt verði slíkum tilraunum og notuð verði lífræn efni í staðinn.
Einnig er fjallað í blaðinu um svokölluð „búmerang-áhrif“ sem lýsa sér í því hvernig ofbeldi kemur alltaf í bakið á þeim sem beita því. Þá er bent á að frá stofnun Ísraelsríkis hafi baráttan verið milli hugmynda um gyðingaríki og lýðræðisríki. Nýja ríkisstjórnin þar í landi sé nú að fara þriðju leiðina – leið Ungverjalands og Rússlands.
Athugasemdir