Almenningur ber enga sök á verðbólgunni sem nú geisar. Ekki einu sinni þau sem hafa tekið tásumyndir á Tene. En eins og áður eru heimilin gerð að sökudólgum og látin greiða dýrum dómum fyrir eitthvað sem þau bera enga ábyrgð á.
ALLAR aðgerðir Seðlabanka og stjórnvalda eru til þess eins að beina fjármunum heimilanna í einhverri mestu eignatilfærslu síðari tíma, til fjármagnseigenda; þeirra sem í raun og veru hafa valdið þeim hluta skaðans sem innlendur er t.d. með uppkaupum fasteigna á markaði þar sem eftirspurnin er mun meiri en framboðið.
-
Hefur eitthvað verið gert til að stöðva þessi uppkaup, eða setja einhver takmörk á það hversu margar eignir fjárfestar og eignarhaldsfélög mega eiga?
-
Hefur eitthvað verið gert til að koma böndum á leigumarkaðinn?
-
Hefur eitthvað verið gert til að minnka peningamagn í umferð?
-
Hafa skattar á fjármagnstekjur, sem voru 16 milljörðum hærri á síðasta ári en gert var ráð fyrir, verið hækkaðir?
-
Hefur verið tekið tillit til „skekkjunnar” sem t.d. þessir 16 milljarðar hafa á meðaltal „eiginfjárstöðu heimilanna” sem fjármálaráðherra er alltaf að hreykja sér af?
-
Hafa einhverjar hömlur verið settar á fjármálamarkaði?
-
Hefur banka eða hvalrekaskattur verið skoðaður til að bæta stöðu þeirra verst settu?
Svarið við öllu þessu er NEI.
Ömurleg fjármálastjórn og þjónkun við fjármagnsöflin
Vandi heimilanna í verðbólgu er manngerður frá A - Ö og það er ömurlega kaldhæðnislegt að sjá og heyra talað um hann sem einhverskonar óviðráðanlegan veruleika þegar hann er svo til eingöngu tilkomin vegna ömurlegrar fjármálastjórnunar og þjónkunar við fjármagnsöflin sem aldrei fá nóg.
Hækkun vaxta er í besta falli vafasöm aðgerð til að koma böndum á verðbólgu sem stafar fyrst og fremst af afleiðingum heimsfaraldurs, stríði í Evrópu og manngerðum framboðsskorti á húsnæðismarkaði.
Hækkun álaga á almenning hefur ekki áhrif á neitt af þessu.
Með því að lækka vexti, sem myndi hafa bein áhrif á leiguverð, væri hægt að leysa stærstan hluta þess vanda sem heimilin á Íslandi standa frammi fyrir.
Það er staðreynd að núna er verið að fórna heimilunum aftur því bankar, fjármálafyrirtæki, leigufélög, fjármagnseigendur, eða hvaða nafni sem við viljum kalla þessi óseðjandi skrímsli, fá aldrei nóg.
Þau eru eins og eiturlyfjaneytendur í leit að næsta skammti og Seðlabankinn og ríkisstjórnin eru í hlutverki eiturlyfjasalans.
-
15.000 heimili eftir síðasta hrun. Það var ekki nóg og nú er kominn tími á næsta skammt.
-
Yfir 1.000 milljarða hagnaður bankanna frá hruni dugar ekki til, þeir vilja meira.
-
80 milljarða hagnaður bankanna árið 2021 var ekki nægur, þeir þurftu að bæta í skammtinn og hafa hagnast um rúma 100 milljarða á árinu 2022.
-
12 milljarða hagnaður Ölmu leigufélags var ekki nóg, það þarf að ná meiru út úr varnarlausum fjölskyldum á leigumarkaði.
-
80 milljónir í laun á mánuði fyrir eigendur Ölmu leigufélags eru ekki nóg, meira er aldrei nóg svo þeir kreista síðustu dropana úr fólki með 200 sinnum minna í laun á mánuði.
Ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa tekið að sér að fullnægja þörfum þessa fámenna, freka og gráðuga hóps, og færa þeim dópið í bílförmum.
Heimilin, fólkið í landinu, eru dópið. Við lifum til að fullnægja fíkn þeirra.
Fórnað á altari verðbólgunnar
Það vantar ekki að fórnin sé sett í göfugan búning. Seðlabankastjóri er allt að því tárvotur þegar hann (gas)lýsir því hvað hann sé að gera heimilunum mikinn greiða með því að sexfalda byrðar þeirra vegna verðbólgunnar með glórulausum vaxtahækkunum.
Hann og aðrir í peningastefnunefnd sem taka þessar ákvarðanir eru með í kringum 2 milljónir í laun á mánuði, skulda (væntanlega) lítið og ráða þannig vel við þessar hækkanir.
Skilningur yfirstéttarinnar á kjörum þeirra sem eru með meðaltekjur eða minna og skulda þ.a.l. hlutfallslega meira, virðist ekki vera neinn, eða þá að búið er að ákveða að þau séu ásættanlegur fórnarkostnaður.
Ekkert í málflutningi Seðlabankans gengur upp því þegar reynt er að ráða niðurlögum verðbólgu eru nokkrir þættir sem hlýtur að þurfa að líta til:
Í fyrsta lagi til hvers er barist og fyrir hverja?
Það má heyra pískrið í peningastefnunefnd um að vexti megi ekki undir nokkrum kringumstæðum lækka þegar hún ber fram nýjar og nýjar ástæður þess að hækka þurfi vexti. Af pískrinu að dæma má flestum vera ljóst að hagsmunir fjármagnseiganda vega þyngra en hagur skuldsettra heimila og fyrirtækja.
Í öðru lagi hverjar eru orsakir og afleiðingar verðbólgunnar sem verið er að reyna að koma í veg fyrir?
Verðbólga á Íslandi væri sú lægsta í Evrópu á eftir Sviss ef miðað væri við samræmda vísitölu án húsnæðis. Orsakir ástandsins á húsnæðismarkaði má rekja til tveggja megin þátta. Mikil og skörp lækkun vaxta leiddi til fyrirsjáanlegs áhlaups á fasteignamarkaðinn þar sem mótvægisaðgerðir Seðlabankans vantaði eins og t.d. þrengri lánaskilyrði sem komu allt of seint ásamt styttri lánstíma nýrra fasteignalána.
Einnig hafa stjórnvöld brugðist þar sem framboð af byggingarhæfum lóðum hefur engan veginn haldið í við þörf og eftirspurn.
Verðbólgan, fyrir utan áhrif hækkandi húsnæðisverðs, hefur að mestu verið vegna ytri þátta. Þetta er innflutt verðbólga sem stafar af hnökrum í framleiðslukeðju heimsins sem rekja má til stríðsátaka og heimsfaraldurs.
Hvernig í ósköpunum ætlar Seðlabankinn að slá á þessa þætti með hærri stýrivöxtum á Íslandi? Meiri og skarpari hækkunum en þekkist í samanburðarlöndum.
Er Seðlabankinn að gera ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á hveiti og olíu ráðist af ákvörðunum peningastefnunefndar eða að Pútín muni leggja við hlustir þegar Seðlabankastjóri heldur næstu kynningu sömu nefndar um árangur sinn í baráttunni við verðbólgu á Íslandi?
Í þriðja lagi hverjum bitna afleiðingar verðbólgunnar helst á?
Verðbólgan bitnar helst og verst á þeim sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi. Eldri borgurum, öryrkjum, lág og millitekjufólki, fólki á leigumarkaði og skuldsettum heimilum. Sömu hópum og miklar vaxtahækkanir bitna hvað harðast á.
Í fjórða lagi hverjar eru afleiðingar aðgerða gegn verðbólgunni í samanburði við verðbólguna sjálfa?
Aðgerðir gagnvart verðbólgunni hafa verið þær að keyra upp vexti. Fyrirtækin á Íslandi skulda u.þ.b. 5.500 milljarða og hækki vaxtakostnaður þeirra um 1% hækkar kostnaður þeirra vegna skulda um 55 milljarða króna á ári.
Kostnaðarauki vegna hærri vaxta er ekkert öðruvísi kostnaðarauki en hver annar hjá fyrirtækjum og ljóst af afkomutölum atvinnulífsins að honum er velt óskert út í verðlag og gott betur en það því hagnaður fyrirtækja hefur sjaldan eða aldrei verið meiri.
Fyrirtækin skulda tvöfalt það sem heimilin skulda og því ljóst að með miklum stýrivaxtahækkunum er refsivendinum beitt með óforskömmuðum hætti gagnvart þegnum þessa lands. Verðlag hækkar því mun meira en þurfa þykir, sem enn eykur á verðbólgu og fjármagnskostnaður eykst sem aftur hækkar byggingarkostnað og leiguverð sem þrýstir svo upp verðbólgu.
Gjaldskrárhækkanir hjá hinu opinbera hækka svo í takt við spíralinn sem Seðlabankinn fóðrar. Fyrirtækin græða á verðbólgu, fjármagnseigendur græða í verðbólgu en fólkið í landinu tapar.
Er ekki kostulegt að hlusta á ráðamenn þjóðarinnar tala niður sanngjarnar kröfur verkalýðshreyfingarinnar um hærri laun til að mæta miklum kostnaðarauka við að lifa? Þar er launahækkunum á almennum vinnumarkaði iðulega stillt upp sem helstu ógninni við stöðugleika í hagkerfinu. Þó svo að ekki hafi fundist mælanleg áhrif víxlverkunar launa og verðlags síðastliðin 20 ár er þessu statt og stöðugt haldið fram.
Það hljóta allir að sjá hverslags bull þetta er.
Í fimmta lagi á hverjum bitna aðgerðir gegn verðbólgunni helst?
Aðgerðirnar gegn verðbólgunni bitna verst á tekjulágum heimilum, þeim sem minnst eiga og skulda mest.
Í sjötta lagi hver er fórnarkostnaðurinn, annars vegar vegna verðbólgunnar og hins vegar aðgerðanna gegn henni?
Afleiðingar verðbólgunnar fyrir heimili og fyrirtæki er hækkandi verð á vörum og þjónustu. Það kostar heimili og fyrirtæki alveg nóg á mánuði og í þessari grein höfum við miðað við 30.000 þó sú upphæð hljóti að vera breytileg eftir aðstæðum. Það eru hins vegar aðgerðirnar gegn verðbólgunni sem eru að valda heimilunum beinum skaða, enda sitja skuldug heimili upp með hækkun vaxtagreiðslna upp á 100 - 150.000 í hverjum mánuði, ofan á kostnaðinn við verðbólguna sjálfa.
Hér er því verið að fórna hagsmunum og velferð heimilanna, en það virðist vera fórnarkostnaður sem bæði Seðlabankinn og ríkisstjórnin telja „ásættanlegan” enda ekki heimili þeirra sem verið er að fórna. Þau eru bara til í að fórna „hinum”.
Veruleikafirringin er algjör
Grundvallarspurningin er til hvers er barist og fyrir hverja, því svarið við henni ræður í raun öllu því sem á eftir kemur.
Seðlabankastjóri hefur sagt að hann sé að „sinna skyldum sínum við heimilin“ með fordæmalausum vaxtahækkunum síðustu mánaða.
Til að „hjálpa heimilunum” til að takast á við verðbólguna, hefur Seðlabankinn aukið á húsnæðiskostnað heimilanna um 100 – 150.000 á hverjum mánuði.
Ef þetta er ekki veruleikafirring, þá vitum við ekki hvað það er.
Flest heimili myndu ráða við 30.000 króna hækkun en þúsundir munu ekki ráða við byrðina sem Seðlabankinn hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að skella á þau.
Það er því ótrúlega ósvífið að þegar Seðlabankinn og aðrir ráðamenn tala um vaxtahækkanirnar, kenna þeir verðbólgunni um, eins og þessar hækkanir hafi bara dottið af himnum ofan og voga sér að tala þær sem „áhrif verðbólgunnar“.
Áhrif verðbólgunnar eru u.þ.b. 30.000 krónur, ALLT HITT er á ábyrgð Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar sem hefur ekki gert neitt, EKKI NEITT, til að verja heimilin fyrir afleiðingum aðgerða Seðlabankans.
Veruleikafirringin er slík að það er verið reyna að koma í veg fyrir og hlífa heimilum landsins við 30.000 króna áhrifum verðbólgunnar með því að bæta á þau 130.000 króna greiðslubyrði í viðbót í hverjum einasta mánuði!
Afleiðingar þessara aðgerða gegn verðbólgunni bitna að sjálfsögðu verst á þeim sem minnst eiga og skulda hlutfallslega mest, en eru þeim mun léttari eftir því sem fólk færist ofar í tekjutíundunum og skuldar minna.
Fórnarkostnaður þessara aðgerða á eftir að koma í ljós. Heimilin reyna enn að halda sjó og eru að ganga á séreignarsparnað sinn og taka yfirdráttarlán.
Þegar þau úrræði verða þurrausin mun fólk fara að missa heimili sín. Þegar þar að kemur munu þau að auki vera með yfirdrátt í botni ásamt því að vera búin að afhenda bönkunum annars óaðfararhæfan séreignasparnað sem þannig mun einnig glatast og ekki nýtast þeim í ellinni.
Hver hagnast svo á þessum aðgerðum? Engir nema bankar, fyrirtækin og fjármagnseigendur. Hinar heilögu kýr. Verði þeirra vilji, Amen!
Það er verið að beina fjármunum heimilanna til þeirra í bílförmum. Engar varnir hafa verið settar upp fyrir heimilin af því „staða þeirra hefur aldrei verið betri“ eins og veruleikafirrtur fjármálaráðherra þreytist ekki á að segja, enda hefur hann eða hans fólk aldrei þurft að hafa áhyggjur af afborgunum húsnæðislána, hvað þá húsaleigu og fengið skuldir afskrifaðar þegar þeim hefur tekist að klúðra málum.
Það er því kannski ekki skrítið að hann trúi á náð og miskunn bankanna þegar hann hefur notið hennar jafn ríkulega og raun ber vitni.
Vel undirbúin eignatilfærsla frá almenningi til fjármagnseiganda?
Var þessi hrikalega staða sem nú er uppi sköpuð með upplýstum og meðvituðum hætti til að undirbúa enn eina risavaxna eignatilfærslu frá almenningi til fjármagnseigenda?
Fyrir öllum þeim hámenntuðu sérfræðingum sem starfa hjá Seðlabankanum og hinu opinbera hljóta afleiðingarnar að blasa við.
Rétt eins og þegar 90% lánin voru veitt á sínum tíma og rétt eins og efnahagshrunið og stökkbreyting á greiðslubyrði lána sem endaði með mestu eignatilfærslu Íslandssögunnar.
Staðan á húsnæðismarkaði hefur legið fyrir árum saman. Allir vissu um lóðaskort og mikla þörf á auknu framboði. En allt kom fyrir ekki. Málunum hefur ítrekað verið komið fyrir í starfshópum og nefndum skreyttum loforðum sem svikin eru jafn harðan.
Verkalýðshreyfingin samdi í lífskjarasamningnum um að húsnæðisliðurinn yrði tekinn út úr vísitölunni og bann lagt við 40 ára verðtryggðum jafngreiðslulánum, sem hefði síðar haft mikil áhrif á verðbólguna sem mótvægisaðgerð lækkandi vaxta og vísitöluna sem notuð er til að keyra upp gjaldskrár, vöruverð, leigu og lán, hefðu umsamin loforð gengið eftir, sem þau gerðu ekki.
Stjórnvöld eru trú sínu raunverulega baklandi og sjá til þess að borgarhlið skjaldborgarinnar séu kirfilega lokuð fyrir heimilum landsins svo aukinn stuðningur eins og húsaleigubætur, vaxta- og barnabætur renni óskipt í vasa bankanna og leigusala og meira til.
Það á enginn að þurfa að missa heimili sitt
Við sem þetta skrifum höfum barist frá hruni, með einum eða öðrum hætti, fyrir hönd heimila landsins og það er þyngra en tárum taki að okkur hafi ekki tekist að koma í veg fyrir þá skelfingu sem er að verða að veruleika núna.
Við erum virkilega hrædd við það sem framundan er hjá fjölda heimila.
Við þekkjum nefnilega allt of vel örvæntinguna sem þúsundir einstaklinga og foreldra finna fyrir núna, þegar þau sjá fram á að standa ekki undir húsnæðiskostnaði sem hefur hækkað um meira en 100.000 krónur á mánuði á skömmum tíma.
Hvert eiga þau að fara og hvað verður um þau?
Ekki einu sinni sú einfalda krafa sem Hagsmunasamtök heimilanna settu fram strax í upphafi faraldursins, snemma í mars 2020 og svo aftur síðar í sama mánuði, að ríkisstjórnin myndi gefa þá yfirlýsingu út að enginn myndi missa heimili sitt vegna afleiðinga Covid 19 og var t.d. ítrekuð í maí 2021, hefur verið svarað.
Þessi „bæn“ var margendurtekin og í júní 2021 fengum við fund með forsætisráðherra og fjármálaráðherra þar sem við fórum fram á varnir fyrir heimilin, en allt kom fyrir ekki.
Þetta var löngu áður en stríð hófst í Evrópu en samt var svo algjörlega fyrirsjáanlegt í hvað stefndi.
Jómfrúarræða ÁLÞ við stefnuræðu forsætisráðherra 1. desember 2021, snerist um að það yrði að verja heimilin fyrir afleiðingum heimsfaraldurs og verðbólgunni sem fyrirsjáanleg væri.
Á þeim tíma var allt að því hlegið að okkur, og bæði fjármálaráðherra og Seðlabankastjóri sögðu að það væri engin verðbólga í spilunum.
En hún var svo sannarlega í okkar spilum og hafði verið frá upphafi faraldursins. Hún blasti bara við og hefði ekki átt að þurfa sérfræðinga til að sjá það.
Eða kannski þarf einmitt „ekki sérfræðinga“ til að sjá það sem blasir við því veruleikafirring svokallaðra sérfræðinga og hagfræðinga, er á stigi einhvers fáránleika sem við hvorki getum né viljum skilja.
„Völvuspá en ekki vísindi“
Íslenska þjóðin hefur margoft, m.a. núna nýverið, horft á hvernig misvitrir embættismenn klúðra málum af „listfengi“. Í því samhengi má minna á að ef eitthvað er á hagfræði meira skylt við völvuspá en vísindi.
Hagfræðingar vita almennt lítið hvað þeir eru að gera. Þeir hafa fullt af kenningum en í grunninn er þetta greinin sem „dregur lærdóm eftir á“ og sér þá hvað þeir hefðu kannski átt að gera, en endurtaka samt alltaf sömu mistökin aftur og aftur.
Vaxtahækkanir eru þeirra ær og kýr og þeirra hlutverk er fyrst og fremst að verja markaði og fjármálakerfið. Nákvæmlega það kristallast í öllum aðgerðum Seðlabankans núna, sem ætlar sér að ráða niðurlögum verðbólgu hvað sem það kostar, og hann er til í að drepa „sjúklinginn“ til að lækna sjúkdóminn.
Verðbólgan mun hjaðna hvort sem Seðlabankinn hækkar stýrivexti eða ekki, eins og Seðlabankastjóri Evrópu hefur meðal annars ítrekað bent á.
„Aðgerðin tókst vel en sjúklingurinn dó”
Seðlabankinn hagar sér eins og læknir á miðöldum sem dró úr sjúklingum blóð til að lækna flensu. Læknum á miðöldum var reyndar vorkunn og urðu náttúrulega að láta líta út fyrir að þeir væru að lækna eitthvað, þannig að þeir drógu blóð í gríð og erg. Sjúklingurinn tapaði þannig öllum viðnámsþrótti sínum því „lækningin” var yfirleitt mun verri en sjúkdómurinn sjálfur.
Seðlabankinn þarf ekki að hækka vexti. Það er beinlínis rangt hjá Seðlabankastjóra að hann sé að sinna lögbundinni skyldu sinni með því að hækka vexti í gríð og erg, án tillits til þess hvaða áhrif það hafi á heimili landsins. Hann er í raun að brjóta gegn lögbundinni skyldu sinni.
En á meðan blóðsugurnar standa í kringum hann og þurfa sitt blóð, er kannski ekki nema von að hann láti undan þrýstingi enda hafa heimili landsins alltaf verið þeirra til að mergsjúga eftir þörfum.
Það er ekki flókin hagfræði, og ætti að vera á færi leikskólabarns að skilja, að heimili sem er með 500.000 krónur eða minna til ráðstöfunar á mánuði, ræður ekki til lengdar við hækkaða greiðslubyrði af húsnæði upp á 100 – 150.000 krónur á mánuði.
Það þarf ekki sérfræðing til að sjá það, eða kannski þarf nákvæmlega „ekki sérfræðing“ til að sjá það.
Það er kominn tími á neyðarlög á húsnæðismarkaði
Þann 8. desember sl. fórum við fram á að sett yrðu neyðarlög vegna ástandsins á húsnæðismarkaði, bæði vegna skuldara og leigjenda.
Staðan á leigumarkaði er skelfileg eins og öllum ætti að vera ljóst núna.
Við skulum ekki ímynda okkur að dæmið sem kom upp skömmu fyrir jól, sé einangrað tilvik. Einnig má minna á að leigufélagið Alma, sem hagnaðist um 12,4 milljarða á síðasta ári, fékk íbúðir sem fólk missti í hruninu á gjafaverði, m.a. frá Íbúðalánasjóði (ríkinu) og hefur hagnast gríðarlega síðan.
Það bítur s.s. allt í skottið á sjálfu sér og nú erum við að leggja í annan hring þar sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn „sinna skyldum sínum við heimilin“ með því að mála þau aftur út í horn, þannig að þau komist í hendur banka/fjárfesta/leigufélaga fyrir slikk. Eignir sem fólkið fær svo að leigja fyrir náð og miskunn, þ.e.a.s. ef einhverjar íbúðir verða eftir þegar þörfum ferðamanna verður fullnægt.
Það gilda lög og reglur um leigumarkaði í löndunum í kringum okkur og í því ástandi sem nú er hafa þær jafnvel verið hertar, eins og t.d. á Spáni, í Danmörku, í Skotlandi og í Svíþjóð.
En ekki hér. Hér skal frumskógarlögmálið gilda í nafni markaðar og frelsis.
Við höfum farið fram á neyðarlög verði sett vegna ástandsins á húsnæðismarkaði, RÞI hefur átt fundi og samtöl við forsætisráðherra um það og ÁLÞ lagði eftirfarandi spurningar fyrir fjármálaráðherra og krafðist neyðarlaga í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi þann 8. desember sl.
-
Ef fólk á leigumarkaði missir heimili sitt, hvert á það fara?
-
Eftir hverju er ráðherra að bíða áður en gripið er til aðgerða til að verja heimilin?
-
Er ráðherra tilbúinn til að verja heimilin með því að tryggja með lögum að enginn, hvorki leigjendur né lánþegar, missi heimili sín í því ástandi sem nú er?
-
Er ekki kominn tími til að koma einhvers konar böndum á leigumarkaðinn eins og hefur t.d. verið gert í Skotlandi, á Spáni og í Danmörku? Eða eru völd banka og leigufélaga yfir heimilum landsins í nafni græðgi algjör?
-
Eru þessir aðilar óstöðvandi, ná engin lög yfir þessa hegðun?
-
Hefur einhver reiknað út samfélagslegan kostnað við heimilismissi?
Engin svör hafa fengist, því samkvæmt fjármálaráðherra er það tómur misskilningur hjá fólki að það sé að berjast við að ná endum saman.
Við skulum ekki gleyma að þegar banki hirðir heimilið og græðir á því er hans þætti lokið. Hann ber enga samfélagslega ábyrgð. Hún lendir á ríki og sveitarfélögum sem beinn kostnaður.
Og þá erum við ekki einu sinni farin að nefna hinn óbeina kostnað; brotin heimili, brotið fólk, upplausn, börn að skipta um skóla, óöryggi, kulnun og jafnvel örorka í kjölfarið, vonleysið, örvæntingin, myrkrið.
Verðbólga er slæm, um það er ekki deilt, en er hægt að krefjast svona mikilla fórna af þeim sem minnst hafa, til að ná tökum á verðbólgu ef aðgerðirnar á annað borð virka?
Er réttlætanlegt að beina fjármunum heimilanna til bankanna í þeim mæli sem nú er, þannig að margir muni aldrei ná sér á strik aftur, hvorki fjárhagslega né andlega?
Við verðum að velta fyrir okkur kostnaðinum og hvort það væri kannski réttlætanlegt að vextir séu neikvæðir í einhvern tíma, frekar en að leggja þetta á tugþúsundir?
Heilagar kýr og þjónar þeirra
Það verður að setja neyðarlög til að verja heimilin fyrir þessum gegndarlausu hækkunum, hvort sem er á leigu eða lánum og að það sé ekki þegar búið er ríkisstjórninni til háborinnar skammar.
Á Íslandi er fjármagnið hin heilaga kýr og það á marga ofvaxna kálfa sem gegna svipuðu hlutverki. Að mergsjúga spena heimilanna.
Í ákveðnum trúarbrögðum eru kýr heilagar og undir þær er hlaðið og við þeim ekki hróflað þó fólk búi við hungurmörk og svelti heilu hungri og á Íslandi gildir það sama.
Okkar heilögu kýr gegna ýmsum nöfnum, eins og t.d. Markaðurinn, Alma, Íslandsbanki, Arion, Landsbanki, Kauphöll, Fjármagnseigendur, Útgerðin, Fagfjárfestar, Aflandsfélög, Skúffufyrirtæki, Vaxtahækkanir, Verðtrygging, svo nokkrar þeirra séu nefndar.
Alveg sama hversu daunillur skítur þeirra er, þá þjóna ríkisstjórnin og Seðlabankinn öllum þessum beljum af stakri trúmennsku og friðþægja þeim reglulega með því að kasta til þeirra heimilum landsins til að friðþægja óseðjandi græðgi.
Okkar íslensku „dekurkálfar“ eru reyndar skyldari úlfum sem kasta sér yfir bráð sína en beljum, en það er kannski ekki allur munur á því hvort heimilin eru gleypt í heilu lagi, eða hvort jórtrað er á þeim, þannig að fórnarathöfnin taki aðeins lengri tíma, því niðurstaðan er sú sama; þeim blæðir út og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum.
Núna stendur yfir fórnarhátíð. Þessi er öðruvísi en sú sem hófst í október 2008, því þar voru úlfarnir ekki komnir með sauðagæruna og gleypugangurinn þannig að hann duldist engum.
Síðan hafa almannatenglar og auglýsingastofur átt fullt í fangi við að bæta ímyndina sem nú er lagt kapp á að viðhalda. Þannig er áherslan núna lögð á jórtur því nú ætla hinar háheilögu kýr að taka sér tíma til að „njóta“ matarins í stað þess að gleypa hann með jafn áberandi hætti og áður.
Hægeldað en nefnilega betra en snöggsteikt og bráðin meðfærilegri og mýkri undir tönn ef hægt er að bjóða henni „lausnir“ eins og að nota séreignasparnaðinn, taka yfirdráttarlán og skuldbreyta yfir í verðtryggt eða frysta, og halda henni þannig rólegri á meðan sogið er úr henni blóðið og lífskrafturinn.
Þetta er að gerast núna og neyðarlög væru bara bráðabirgðalausn til að bregðast við þeim manngerða og tilbúna vanda, sem við stöndum frammi fyrir núna.
En síðan þarf að takast á við hinn raunverulega vanda, sem er miklu stærri og djúpstæðari; völd fjármagnsins yfir fólkinu í landinu og því að við skulum virkilega þurfa, árið 2023 að berjast fyrir því að fólk hafi ofan í sig og á.
Maður hefði haldið að baráttunni fyrir nauðþurftum hefði lokið snemma á síðustu öld, enda um grundvallarmannréttindi að ræða. En sú er því miður ekki raunin á Íslandi.
Þessu þarf að breyta. Heimilin eiga að vera ósnertanleg. Þau eiga aldrei að vera fóður fyrir banka eða leigufélög.
Seðlabankinn á að vinna fyrir fólkið en ekki fjármagnið og ríkisstjórninni ber að verja heimilin í stað þess að berja þau.
„En öllu er á rönguna snúið
öllu virðist vera á botninn hvolft
og allt sem var til bara búið
og gufað upp í loft.
Vill einhver skýra út hvað er að gerast?
Hvað er að eiga sér stað?
Segja mér við hvern er að sakast,
svo ég viti hvað er að?“
(Nýdönsk: Sökudólgur óskast)
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er þingmaður Flokks fólksins og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.
Athugasemdir