Miðlunartillaga ríkissáttasemjara er hræðileg mistök og fljótfærni. Ef marka má orð formanns Eflingar og framkvæmdastjóra SA virðist sem ekkert samráð hafi verið við samningsaðila en skv. lögum um sáttastörf í vinnudeilum ber sáttasemjara að ráðgast við deiluaðila áður en miðlunartillaga er borin fram.
Ekkert slíkt samráð virðist hafa verið. Miðlunartillagan virðist lögð fram gegn vilja beggja samningsaðila. Og það er í raun villandi að kalla þetta miðlunartillögu því skv. fréttum leggur sáttasemjari hér fram síðasta tilboð SA nánast óbreytt. Þetta er því ekki miðlunartillaga heldur hefur sáttasemjari gengið grímulaust í lið með Samtökum Atvinnulífsins og hefur sjónarmið samninganefndar Eflinga að engu.
Það er erfitt að ráða í hvað veldur þessum flumbrugangi sáttasemjara. Núverandi sáttasemjari hefur verið farsæll þennan tíma sem hann hefur starfað og hafði áunnið sér nokkra velvild og traust.
Embætti ríkissáttasemjara er lykilembætti í siðuðum samfélögum sem reyna að halda stöðugleika og frið í efnahagslífi en um leið virða jafneðlileg mannréttindi og samningsfrelsi verkalýðsfélaga. Sáttasemjari verður að njóta trausts aðila vinnumarkaðarins og geta komið fram sem óvilhallur milligöngumaður – geta borið klæði á vopnin og talað fyrir lausnum og sátt.
Samningaviðræður eru taugastríð og mikilvægt að samningsaðilar haldi ró sinni og bogni ekki undan álagi. Talsmenn beggja deiluaðila virðast þola álagið vel – en mögulega hafa taugar sáttasemjara brostið og það er áhyggjuefni því það er auðvitað sáttasemjari sem á að vera yfirvegaður og með heildaryfirsýn og vera sá sem reynir að halda frið í allar áttir. Hann er nú beinlínis orðinn einn af deiluaðilum.
Á Íslandi er vond hefð fyrir inngripi stjórnvalda í frjálsan samningsrétt launafólks og Ísland á sennilega Evrópumet í inngripi stjórnvalda í vinnudeilur með lögum á verkföll og setningu gerðardóms. Oftast hefur afsökun stjórnvalda verið sú að um almannaheill sé að ræða (verkfall hjúkrunarfræðinga) eða þjóðarhag (verkföll sjómanna).
Það er því spurning hvaða almannahagsmunir eða þjóðarhagur hafi ráðið ferð sáttasemjara nú. Efling gat varla valið „kurteisara verkfall“ en félagið gerði. Engum almannahagsmunum er stefnt í voða með þessari verkfallsboðun og þjóðarhagur hlýtur að lifa af takmörkun á rekstri sjö hótela í einhverjar vikur.
Það hefur verið talsvert um harðar vinnudeilur í öðrum Evrópuríkjum í haust og það án þess að stjórnvöld hafi gripið til aðgerða – enda er það gæðastimpill á siðuðu samfélagi að aðilar vinnumarkaðarins fái að ráða fram úr málum sínum án afskipta.
Þetta er því alvarlegra sem að lög um atkvæðagreiðslur um miðlunartillögur setja verkalýðsfélögum mjög þröngan ramma. Til að Eflingarfélagar geti fellt miðlunartillögu í atkvæðagreiðslu þurfa að lágmarki 35% félagsmanna að greiða atkvæði til að einfaldur meirihluti ráði ferð. Í atkvæðagreiðslu SGS félaganna í desember var meðal kjörsókn um 17% – og ef kjörsókn Eflingar verður svipuð þurfa 68% þeirra sem greiða atkvæði að fella samninginn. Annars stendur „sátta“boð sáttasemjara sem nýr kjarasamningur.
Það skiptir engu máli hvaða skoðanir maður hefur á kröfugerð Eflingar – á framgöngu samninganefndar eða formanns. Málið snýst um samningsfrelsi verkalýðsfélaga og sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Það er félagsmanna Eflingar að kjósa sér stjórn og að skipa sér samninganefnd. Samninganefnd Eflingar hefur það hlutverk að fara fyrir félaginu í vinnudeilum – en sáttasemjari hefur aftengt eðlilegt samningaferli innan félagsins og treystir á áhugaleysi og þátttökuleysi hins almenna félagsmanns.
Höfundur er framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags.
Athugasemdir