Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Gaf 2.000 milljarða króna til góðgerðamála eftir skilnað við ríkasta mann í heimi – og er rétt að byrja

MacKenzie Scott var gift Jeff Bezos, stofn­anda Amazon, í 25 ár. Við skiln­að þeirra ár­ið 2019 hét hún því að gefa að minnsta kosti helm­ing auðæfa sinna til góð­gerða­mála. Hún er á góðri leið með að tak­ast ætl­un­ar­verk­ið og hef­ur nú opn­að vef­síðu þar sem fylgj­ast má með hvert fjár­mun­irn­ir renna.

Gaf 2.000 milljarða króna til góðgerðamála eftir skilnað við ríkasta mann í heimi – og er rétt að byrja
Mannvinurinn MacKenzie Scott fékk fjögur prósent hlut í Amazon við skilnað hennar við Jeff Bezos, þá ríkasta mann heims, sem og 38 milljarða Bandaríkjadala og hefur hún heitið því að gefa að minnsta kosti helminginn til góðgerðamála. Mynd: AFP

Mannvinurinn og rithöfundurinn MacKenzie Scott hefur gefið yfir 14 milljarða Bandaríkjadala til meira en 1.600 góðgerðasamtaka og félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Það eru rúmlega tvö þúsund milljarðar króna. 2.005.920.000.000 krónur nánar tiltekið. 

Scott var gift Jeff Bezos, stofnanda og fyrrum forstjóra Amazon í aldarfjórðung. Þau skildu árið 2019 eftir að upp komst um framhjáhald hans og fjölmiðlakonunnar Lauren Sánches, sem var gift vini Bezos. 

Scott kom að stofnun Amazon árið 1994. Þegar þau skildu var Bezos ríkasti maður í heimi og átti yfir 16 prósent hlut í Amazon. Scott fékk fjögur prósent hlut í Amazon við skilnaðinn sem og 38 milljarða Bandaríkjadala og hefur hún heitið því að gefa að minnsta kosti helminginn til góðgerðamála. Samkvæmt úttekt Forbes hefur enginn milljarðamæringur losað sig jafn hratt við auðæfi sín og Scott. 

Hún er nú á góðri leið að ná því. Auðæfi Scott eru í dag metin á 30,5 milljarða Bandaríkjadala og var hún í 30. sæti yfir ríkustu einstaklinga heims á síðasta ári. Í desember opnaði Scott heimasíðu, Yield Giving, þar sem finna má yfirlit yfir samtök og félög sem hún veitir fjármagn. Áður hafði hún nýtt sér The Giving Pledge, herferð Warren Buffett og Bill Gates sem hafa vermt efstu sæti listans yfir ríkustu menn heims árum saman.

Á heimasíðu The Giving Pledge geta milljarðamæringar ráðstafað fjármunum sínum til ýmissa góðgerðamála. Fjölmargir milljarðamæringar tóku herferðinni fagnandi og skráðu sig til þátttöku. Jeff Bezos var ekki á meðal þeirra en hann sagði í samtali við fréttamann CNN í nóvember að hann ætli að gefa meirihluta auðæfa sinna til að kljást við afleiðingar loftslagsbreytinga, auk þess sem hann vill styðja við þau sem geta „sameinað mannkyn á tímum mikillar félagslegrar og pólitískrar sundrungar“.

AuðjöfrarJeff Bezos og MacKenzie Scott voru gift í aldarfjórðung. Þau eru bæði á lista yfir ríkasta fólk í heimi. Þau hafa bæði heitið því að gefa meirihlut auðæfa sinna til góðgerðamála.

Árið 2018 varð Bezos ríkasti maður sögunnar þegar hann varð sá fyrsti á lista Forbes með eignir upp á meira en 100 milljarða Bandaríkjadala. Bezos er næstríkasti maður heims sem stendur, á eftir Elon Musk, stofnanda og eiganda Tesla, og eru eignir hans metnar á 171 milljarð Bandaríkjadala. 

Hægt að auka virði með því að láta af stjórn

Með stofnun eigin samtaka og heimasíðu vill Scott veita meiri innsýn inn í ferlið og gera það gagnsætt. Nú getur því hver sem er nálgast upplýsingar um hvernig hún hyggst ráðstafa auðæfum sínum til góðgerðamála. Nafn samtakanna, Yield Giving, þýðir einfaldlega „að gefa af sér“. 

Samtökunum er lýst með eftirfarandi hætti á heimasíðunni: „Stofnað af MacKenzie Scott til að útdeila fjárhagslegum auði sem er afrakstur vinnu fjölda fólks.“ Þar segir einnig að nafnið sé til komið þar sem Scott er þeirrar trúar að með því að láta af stjórn sé hægt að auka virði einhvers. 

Engir skilmálar fylgja fjármagninu sem Scott gefur og hefur henni verið hrósað fyrir þá nálgun. Meðal þeirra sem hafa fengið styrk frá Scott eru samtök sem einblína á menntun, alþjóðleg samtök sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða, samtök sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks, geðheilbrigðissamtök og samtök sem aðstoða flóttafólk. Framlög til hverra samtaka eru frá nokkur hundruð þúsund Bandaríkjadölum til tugmilljóna. 

Miðstöð um áhrifaríka manngæsku (e. Center for Effective Philanthropy) eru samtök sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða sem sérhæfa sig í að framlög til góðgerðamála skili sér með sem áhrifaríkustum hætti. Miðstöðin rannsakaði aðferðafræði Scott við veitingu styrkjanna. Þó Scott hafi verið lofsömuð að mestu fyrir framlag sitt hefur hún verið gagnrýnd fyrir að veita mis háar upphæðir. Helsta niðurstaða rannsóknarinnar var hins vegar að áhrif styrkja sem Scott veitti á 12 mánaða tímabili, sumarið 2020 til sumarsins 2021, „hafa verið gífurlega og ákaflega jákvæð“. 

Kjósa
12
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Sigurborg Matthíasdóttir skrifaði
    Þyrftir að leiðrétta fyrirsögnina sem gefur í skyn að hann hafi átt peningana en ekki þau saman. Þau voru ríkasta fólk í heimi. Í fyrirsögninni felst því miður kvenfyrirlitning.
    1
    • TM
      Tómas Maríuson skrifaði
      Ef þau hafa gert eignaskiptasamning við brúðkaupið hafa þau ekki átt eignirnar saman.
      0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
4
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár