Það er alltaf sama rigningin sem skellur á okkur. Hún hefur ekki breyst neitt. Að finna himnana bresta í grát hefur alltaf vakið ugg, gert okkur döpur, leið, óttaslegin en líka skapandi. Þannig skall regnið á forfeður okkar í lendaskýlunum. Þannig skall regnið á þingmennina í Róm. Þannig skall regnið á súffragetturnar, Rauðu Kmerana og þannig skellur það á fólkið á bílastæðinu hjá IKEA.
Þegar við horfum upp í gráan tárvotan himininn erum við minnt á að innan í höfuðkúpu okkar er að finna rúmlega þúsund grömm af grárri drullu, heila, sem er einn ábyrgur fyrir því að ná einhverri meiningu úr tilverunni og spyrja spurningarinnar: Hvers vegna rignir á mig og hvaða syndir er verið að skola hér burt?
„Að skruna yfir Instagram er stundum eins og að horfa á sjónvarpsþátt með engu handriti, gerðan fyrir lítið fjármagn og að auki prýddan leikurum sem eru ekki að fá neitt borgað.“
Leikarar sem fá ekki greitt
Það skiptir nefnilega engu máli hvort Veðurstofan gaf út gula, appelsínugula, rauða eða bláa viðvörun. Þegar regnið skellur niður er himinninn alltaf grár. Það er staðreynd sem verður aldrei breytt. Það skiptir engu máli hvernig þú upplifir rigninguna. Grámanum verður ekki varpað yfir á neinn annan, hann er ómiðlanlegur og það er ekki hægt að taka hann úr samhengi – sem er heillandi – því allt annað í tilverunni virðist vera háð samhengi, sjónarhorni, afstöðu og upplifun.
Þó að það hljómi eins og klisja, þá erum við stödd í miðri þjóðfélagsbyltingu. Snjallsímar og samfélagsmiðlar hafa breytt öllu. Börn okkar alast upp í annarri veröld en við. Þekking miðlast öðruvísi, völd dreifast öðruvísi og fólk sækir sjálfsmynd sína í aðra og huglægari þætti en áður. Þetta snýst ekki um hefðbundnar tækniframfarir: að nú sé hægt að panta pitsu með appi eða hitta fólk í öðrum heimsálfum á skjáfundum. Þetta snýst ekki heldur um undur eins og að nú streymi öll tónlist veraldar beint inn í eyru sérhvers mannsbarns eða að gervigreind geti samið bókmenntaverk sem plati snobbaða listaelítu. Það eru allt ótrúlegar breytingar.
En stærstu breytinguna er að finna í sjálfu vöðvaminni mannskepnunnar. Við tölum öðruvísi, hreyfum okkur öðruvísi. Í þeirri byltingu sem er oft kennd við upphafningu einstaklingsins, samfélagsmiðlabyltingunni, er einstaklingurinn samt að hverfa. Það eru allir að verða eins, elta sömu trendin og spila sama leikinn.
Hafið þið prófað að hætta á Instagram, þó ekki nema í nokkrar vikur, og opna það svo að nýju? Tilfinningin er eins og að allt fari fram neðansjávar. Fólk hreyfir sig hægar, það koma bubblur út um munninn. Það er vegna þess að í veröld þar sem öll tjáning getur farið inn í öll hugsanleg samhengi, talar fólk og hreyfir sig öðruvísi. Og þetta er átakanlegt því við erum ekki enn alveg búin að læra þetta. Að skruna yfir Instagram er stundum eins og að horfa á sjónvarpsþátt með engu handriti, gerðan fyrir lítið fjármagn og að auki prýddan leikurum sem eru ekki að fá neitt borgað. Ég er ekki að segja að það sé eitthvað verra eða betra en hvað annað. Það er bara það sem er það er. Sem er niðurstaða sem er töluvert dýpri en hún virðist í fyrstu.
Veröldin breytt á 15 árum
Samfélagsmiðlar – sem við ættum í raun bara að kalla félagsmiðla því orðið er notað svo mikið að það sparar puttahreyfingar og prentkostnað að stytta það lítillega – eru núna búnir að vera til í rúm fimmtán ár. Það má segja að þetta hafi farið af stað þarna um 2008 undir 3G diskókúlunum á stærsta skemmtistað í heimi. Og fimmtán ár er alveg ágætis tími. Það er fimm sinnum lengri tími en Jesú fékk til að predika allan sinn boðskap og þar fer kaleikur sem við erum enn að súpa af. Félagsmiðlar, þessi grundvallarbreyting á dreifingu þekkingar og valds, eru kannski af slíkri stærðargráðu að við þurfum samanburð við trúarbrögð sem breyttu veröldinni, til að skilja áhrifin. Kannski er það of dramatísk samlíking en kannski er það hreinlega ekki nógu dramatísk samlíking.
Löngu áður en Kristur og Múhammeð komu til sögunnar og hugsanlega Búdda líka var köttur á vappi í Egyptalandi. Við vitum ekki hvernig hann var á litinn, en sitjandi á rassinum í klassískri setustöðu katta var hann nákvæmlega 42 cm á hæð mældur frá klóm framloppa upp að efstu toppum spenntra eyrna. Þetta vitum við því það var tekin vaxafsteypa af þessum ketti, sem síðar var breytt í koparstyttu sem hefur varðveist allt fram á þennan dag og situr í glerkassa í herbergi fjögur á jarðhæð Bloomsbury-street álmunnar í British Museum í London. Þið getið gúglað þennan kött, hann er í dag kenndur við Gayer-Anderson, manninn sem ánafnaði safninu gripinn. Ólíkt Jesú og Múhammeð þá predikaði þessi köttur ekki neitt. Eftir hann liggja engin spádómsorð og í raun fylgir honum engin sérstök saga. En hvers vegna hefur hann þá starað á okkur í þúsundir ára? Við vitum aðeins að Egyptar til forna dýrkuðu ketti. Hugsanlega vegna grimmdar þeirra því kettir eru eitt fárra dýra sem virðist njóta þess að pína sér minni máttar án nokkurs tilgangs. En svo eru kettir kannski bara meira spennandi en önnur dýr í formi sínu. Þeir hreyfa sig mjúklega og virðast vart snerta jörðina. Þeir þóttu bara flottir. Það er ekkert dýpra en það. En nógu djúpt er það nú samt. Maður deilir allavega ekki mikið við Gayer-Anderson köttinn þar sem hann situr í glerkassa sínum í British Museum og starir í gegnum okkur öll.
Hinn fyrirsjáanlegi blái punktur
Við erum alltaf að upplýsa. Þekking og skoðanir smjúga í gegnum allt. Sérhver fréttapunktur kallar á viðbrögð sem kalla á önnur viðbrögð sem kalla á enn önnur viðbrögð. Einn fótboltaleikur gefur af sér tíu tölfræðiskýrslur sem ræddar eru í hundrað hlaðvarpsþáttum og áður en yfir lýkur eru þúsund milljón greinanlegar gagnaögður til út af einhverju sem líklega skipti aldrei neinu máli.
En það sem upplýsingar nútímans veita okkur ekki er einmitt nákvæmlega þetta síðasta: dómur um hvað skipti máli. Sú ábyrgð liggur alltaf á okkur sjálfum og ég verð að viðurkenna að stundum, þegar ég geng út undir gráan himin, og finn rigninguna skella á andlitinu, þá getur verið ósköp niðurdrepandi að hugsa til þess að við séum ekki komin lengra en þetta. Að innra með okkur sér þrátt fyrir allt enn einhver þörf til að væta grátt deigið í höfðinu til að komast að því til hvers við séum að þessu öllu. Og ég stari upp í gráan himininn og minnist þess að þetta er sami grái himininn og allar skyni gæddar verur hafa starað á í milljónir ára og mér finnst ég renna saman við grámann og það er notalegt.
En svo rifjast upp fyrir mér að ég er ekki bara föl mannvera að stara á gráan himin. Ég er líka blár punktur. Blár punktur á Google korti. Blár punktur á Apple korti. Blár lítill plebbalegur punktur sem fór í göngutúr frá heimili sínu, labbi-labbi-labb, í appelsínugulri viðvörun, til að upplifa eitthvað epískt. Ég er lítill, útreiknanlegur blár punktur undir gráum himni og það er ósköp fyrirsjáanlegt að rigningin geri mig dapran og á snjallsíma mínum bíða mín örugglega nú þegar auglýsingar og skilaboð sem er ætlað að kæta mig.
En þarna er köttur á vappi. Léttfættur appelsínugulur bósi, hálfur á bak við kvarz steinaðan vegg. Það rignir sama regni á okkur tvo. Kötturinn starir með sinni þúsund ára störu þétt inn í umhverfi sitt. Og í því augnabliki sem augu okkar mætast verður til bjarmi. Hugtök eins og réttlæti og sanngirni hætta að skipta máli. Ég veit nefnilega að það er ekki hægt að beisla orku þessa bjarma og það skiptir engu máli hversu þróuð gervigreindin verður, hún mun aldrei skilja nákvæmlega þetta augnablik. Hvers vegna rignir á mig og hvaða syndir er verið að skola hér burt? Ég fékk að vita það í eitt augnablik, svo hvarf vitneskjan. Eitt augnablik og það var nóg.
Athugasemdir