Ég veit ekki hversu oft ég hef séð fólk á veraldarvefnum setja fram þá „skoðun“ að ég sé í raun og veru karlmaður, því það sé bara „líffræðileg og vísindaleg staðreynd“. Slíkar athugasemdir flykkjast inn undir nánast öllum fréttum sem fjalla að einhverju leyti um trans fólk, svona álíka eins og læmingjar sem streyma allt í einu fram af fjallsbrún. Bara þeirra „skoðun“, þið vitið? Er ekki málfrelsi?
Slíkar athugasemdir hundsa auðvitað þær augljósu staðreyndir að öll helstu vísinda- og heilbrigðissamtök viðurkenna tilvist trans fólks, og hefur tilvist þeirra lengi verið viðurkennd innan margra samfélaga og menningarheima úti um allan heim.
Staðreyndin er sú að trans fólk hefur alltaf verið til – og mun halda áfram að vera til, burtséð frá skoðunum annarra. Skoðun einhvers á veraldarvefnum um kyn mitt mun ekki koma til með að breyta neinu um hver ég er. Ég nýt stuðnings allra þeirra sem mér þykir vænt um og á ástvini sem elska mig eins og ég er. Öll „rök“ sem fólk kann að hafa gegn mínu kyni skiptir mig því engu máli.
Það skiptir heldur engu máli hversu miklir fordómar fá að grassera, hversu margir gelta á hinsegin fólk, hversu margar lagasetningar eru settar til að skerða réttindi okkar eða jafnvel hversu mikið af trans fólki er beitt ofbeldi og jafnvel myrt – við munum aldrei hætta að vera til. Tilvist trans fólks og hinsegin fólks almennt verður aldrei rökrædd í burtu, við verðum aldrei hrædd í felur, eða útrýmt með lagasetningum. Kynslóðirnar á undan okkur börðust fyrir tilvist sinni, eins og núverandi kynslóðir gera, og eins og framtíðarkynslóðir munu líka gera.
Þannig að hvernig væri bara að leyfa fólki að vera það sjálft og hætta þessu veseni? Við erum ekki að fara neitt, þannig að kannski er kominn tími til að sætta sig bara við það.
Höfundur er alvöru manneskja eins og þú.
Athugasemdir (2)