Í nýjum reglum dómsmálaráðherra er nýyrðið rafvarnarvopn notað í stað hins þekkta orðs rafbyssa, og í frumvarpi ráðherrans um breytingar á lögreglulögum er enn fremur talað um afbrotavarnir en ekki forvirkar rannsóknarheimildir eins og tíðkast hefur. Þarna er orðanotkun meðvitað breytt til að skapa jákvæðara almenningsálit.
Rafvarnarvopn eða rafbyssa?
Nýlega kom í ljós að dómsmálaráðherra hafði farið á bak við samráðherra sína og undirritað reglur sem heimila beitingu „rafvarnarvopna“. Forsætisráðherra sagði ráðherra Vinstri grænna hafa „sett fyrirvara við málið þegar það var rætt í ríkisstjórn“. Orðið fyrirvari merkir ʻskilyrði, varnagliʼ. Þegar settur er fyrirvari um einhverja aðgerð merkir það að hún verði ekki samþykkt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Þó var ljóst að þetta var búið og gert, og forsætisráðherra sagði að ráðherrann hefði „auðvitað fullar heimildir til að taka þessar ákvarðanir“. En þú tryggir ekki eftir á. Fyrirvarar sem eru settir eftir að einhver ákvörðun er tekin af þeim sem er til þess bær að taka þá ákvörðun eru marklausir. Hér er verið að snúa merkingu orða á haus.
Þetta er þó ekki eina – og alls ekki versta – dæmið úr þessu máli um hagræðingu stjórnvalda á tungumálinu til að slá ryki í augu almennings. Það sem hingað til hefur heitið rafbyssa heitir allt í einu rafvarnarvopn í umræddum reglum. Um það sagði dómsmálaráðherra: „Þetta er auðvitað byssa eins og hún lítur út. Það er skotið hlut í líkamann á manni sem að slær menn út í augnablik. En þetta er auðvitað fyrst og fremst varnarvopn […].“ Spurður um þetta orðalag sagði formaður Landssambands lögreglumanna: „Við höfum kosið að kalla þetta ekki byssur af því að við lítum þannig á að þetta sé ekki síst til að verja lögreglumenn, að þetta sé einskonar sjálfsvarnarvopn. En auðvitað er þetta notað til að yfirbuga það fólk sem stendur ógn á [svo].“
Í þessu felst tvenns konar afvegaleiðing eða blekking. Annars vegar mætti ráða af orðum formannsins að samsetningar af orðinu byssa séu eingöngu notaðar um vopn en því fer auðvitað fjarri. Við höfum orð eins og baunabyssa, heftibyssa, línubyssa, rásbyssa, snjóbyssa, teygjubyssa, úðabyssa, vatnsbyssa o.fl. sem ekki vísa til vopna í venjulegum skilningi þótt auðvitað megi segja að baunabyssur, teygjubyssur og vatnsbyssur séu stundum notaðar í eins konar „bardögum“. Hins vegar er látið í veðri vaka að einhver grundvallarmunur sé á „sjálfsvarnarvopnum“ og vopnum sem nota megi til annarra hluta eins og t.d. árása – sem er auðvitað rugl, enda viðurkennir formaðurinn það í raun í síðustu setningunni og það kemur skýrt fram í reglunum.
Þar segir: „Lögreglu er heimilt að nota rafvarnarvopn þegar heimilt er að nota úðavopn eða kylfu ef talið er að úðavopn eða kylfa eða aðrar vægari aðgerðir muni ekki nægja til þess að yfirbuga aðila […].“ Úðavopn má nota „þegar vægari aðferðir duga ekki til þess að yfirbuga mótþróa einstaklings við handtöku“ en kylfur má nota „a. Til að afstýra árás á lögreglumann eða þriðja aðila. b. Til að handtaka hættulegan brotamann. c. Þegar einhver reynir að koma í veg fyrir handtöku eða reynir að frelsa handtekinn einstakling. d. Þegar einhver reynir að hindra lögreglu við störf sín. e. Til að knýja fram hlýðni við skipun sem ekki er fylgt, enda sé nauðsynlegt að henni sé framfylgt tafarlaust.“ Vitanlega fellur fæst af þessu undir sjálfsvörn.
Orðið rafbyssa er stutt, lipurt og lýsandi orð sem hefur verið talsvert notað í rúm 20 ár um það fyrirbæri sem hér um ræðir. Það er líka hlutlaust, segir ekkert til um notkunina, enda hægt að nota rafbyssur á margvíslegan hátt. Orðið rafvarnarvopn er stirt og klúðurslegt og auk þess mjög gildishlaðið. Þetta minnir svolítið á það þegar deilt var um hvað skyldi kalla bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli. Stuðningsmenn hans töluðu um Varnarstöð og Varnarlið, sem var hið opinbera heiti, en herstöðvaandstæðingar töluðu um herstöð og herlið, enda væri þetta óneitanlega her, hver svo sem tilgangurinn með veru hans á Íslandi væri. Þarna var sem sé ágreiningur um hvort í heitinu ætti að koma fram eðli eða tilgangur liðsins og stöðvarinnar.
Afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir?
Árið 2011 fluttu Siv Friðleifsdóttir og átta aðrir þingmenn úr þremur flokkum svohljóðandi tillögu til þingsályktunar „um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu“: „Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að vinna og leggja fyrir Alþingi frumvarp sem veiti lögreglunni sambærilegar heimildir og lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur til að rannsaka og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi (forvirkar rannsóknarheimildir).“ Þessi tillaga kom ekki til umræðu á þinginu og var endurflutt á tveimur næstu þingum án þess að fá nokkurn tíma afgreiðslu, en forvirkar rannsóknarheimildir hafa þó verið ræddar meira og minna á hverju einasta þingi síðan (að undanskildu hinu örstutta 147. þingi 2017).
Áðurnefnd þingsályktunartillaga gengur hins vegar aftur í frumvarpi sem dómsmálaráðherra flutti fyrir jól og heitir fullu nafni „Frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996 (afbrotavarnir, vopnaburður og eftirlit með lögreglu)“. Þar er kafli sem heitir „Aðgerðir í þágu afbrotavarna“ þar sem segir: „Lögreglu er heimilt, í því skyni að stemma stigu við afbrotum, að nýta, svo sem til greiningar, allar þær upplýsingar sem hún býr yfir eða aflar við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna […].“ Í þessu frumvarpi eru forvirkar rannsóknarheimildir hvergi nefndar þótt augljóslega sé m.a. verið að tala um þær, en aftur á móti kemur orðið afbrotavarnir 64 sinnum fyrir í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því.
Þýðing þessarar orðalagsbreytingar kom skýrt fram í viðtali við verkefnastjóra hjá Ríkislögreglustjóra í Speglinum í Ríkisútvarpinu 9. janúar. Þar var sagt að ákvæði í þessu frumvarpi myndu gefa lögreglunni betri tæki til að koma í veg fyrir stafræn brot, og það væri því mjög mikilvægt fyrir aukið öryggi á netinu að þessi lög yrðu samþykkt. Spurningu fréttamanns um hvort ekki væri þá átt við forvirkar rannsóknarheimildir svaraði verkefnastjórinn: „Já, ég held reyndar að það heiti afbrotavarnir, hérna en en í sjálfu sér er það að hluta til forvirkar rannsóknarheimildir, já. En það er kannski ekki – þú veist þetta auðvitað líka hefur auðvitað áhrif á hvernig maður hugsar um þetta, hvaða orð maður notar.“ Það er einmitt málið.
Pólitísk hagræðing orðafars
Það skiptir máli hvaða orð eru notuð, og í þessum dæmum er orðanotkun meðvitað breytt til að hafa áhrif á almenningsálitið. Stjórnvöld vita að það er líklegt að almenningur hafi jákvæðara viðhorf til afbrotavarna en til forvirkra rannsóknarheimilda – rétt eins og þau telja að rafvarnarvopn veki jákvæðari hughrif en rafbyssur. Slík hagræðing orðafars í pólitískum tilgangi er auðvitað vel þekkt á ýmsum tímum og í ýmsum þjóðfélögum. Alræmdasta og grófasta dæmið í samtímanum er líklega orðalagið sérstakar hernaðaraðgerðir í staðinn fyrir innrás. Þótt þær hagræðingar á orðanotkun sem hér eru til umræðu séu vissulega ólíkt mildari er samt mikilvægt að almenningur veiti stjórnvöldum aðhald á þessu sviði og láti þau ekki komast upp með allt.
Athugasemdir (1)