Þrátt fyrir að alþjóðasamfélagið hafi fyrir löngu viðurkennt alvarleika loftslagsvandans og þrátt fyrir falleg fyrirheit og áætlanir um aðgerðir hefur mannkynið enn aukið losun gróðurhúsalofttegunda. Af hverju er það? Ein líkleg skýring er að núverandi kerfi hamlar árangri. Ákall um róttækar kerfisbreytingar verða sífellt háværari og koma frá virtustu vísindamönnum og stofnunum eins og milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál IPCC og frá Sameinuðu þjóðunum sjálfum.
Margir halda að kerfisbreytingar sem talað er um séu aðallega breytingar á t.d. orkukerfum, s.s. breytingar sem fela í sér að skipta út orkugjafa sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum fyrir orkugjafa sem losar minna af gróðurhúsalofttegundum. Orkuskipti skipta að sjálfsögðu miklu máli til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Þar með er þetta mikilvægur hlekkur í breytingum en ekki kerfisbreytingin sjálf, heldur er verið að færa sama ósjálfbæra kerfið frá því að vera jarðefnaeldsneytisdrifið í að vera rafdrifið. Ef breyting eins og orkuskipti fer fram án nauðsynlegra kerfisbreytinga leysum við varla vandann og höldum áfram að menga, ofnýta og arðræna á ýmsum sviðum.
Við verðum að skilja að orsakir og afleiðingar eru ekki línulegt kerfi heldur flókinn og margþættur vefur. Þá sjáum við að lausn á einu vandamáli má ekki auka annað vandamál heldur þarf að hugsa allt í samhengi. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun geta hjálpað okkur að sjá samhengið.
Hvaða kerfum þurfum við að breyta?
Breytingar sem mannkynið, sérstaklega hinn vestræni heimur, þarf að fara í eru miklar, róttækar og djúpar. Augljóst er að það verður ekki auðvelt og leiðin ekki greið en framtíðarsýn um sjálfbæra þróun vísar okkur veginn. Hafa ber í huga að það munu hvort sem er verða stórar breytingar á heiminum eins og við þekkjum hann í dag. Því breytingar af völdum loftslagshamfara og hruns vistkerfa verða mjög neikvæðar og stórtækar. En ef við erum hugrökk og djörf og veljum núna strax að gera róttækar kerfisbreytingar, höfum við þann möguleika að afstýra verstu afleiðingunum.
Hér er stiklað á stóru og nokkur stærstu kerfin í vestrænum löndum nefnd, en innan þeirra eru mörg önnur kerfi sem þurfa umbreytingu.
Hagkerfið
Við verðum að viðurkenna að núverandi nær óhefta gróðadrifna hagkerfi gengur ekki upp og á stóran þátt í þeirri slæmu stöðu sem mannkynið er komið í. Knúið áfram af hagvaxtarkröfu og ofneyslu höfum við farið langt út fyrir þolmörk náttúrulegra auðlinda jarðarinnar. Auk þess hefur ójöfnuður og óréttlæti aukist. Núverandi hagkerfi byggir á gildum sem eru gagnstæð gildum sjálfbærrar þróunar. Hrun vistkerfa er aðeins hægt að stöðva með róttækum breytingum, eins og að taka upp hagkerfi sem byggir ekki á stöðugum hagvexti og stuðla að dreifingu og deilingu auðs á réttlátan hátt.
Núverandi hagkerfi er barn síns tíma og nú er komið að næstu skrefum í framþróun mannkyns, sem felast í því að búa til hagkerfi sem byggir á sjálfbærri þróun. Margir virtir hagfræðingar hafa nú þegar hannað ný og bætt hagkerfi eins og Kleinuhringjahagkerfið, Sældarhagkerfið, sósíalískt markaðshagkerfi, blandað hagkerfi, niðurvaxtarhagkerfi o.fl. Við verðum að horfa fram á við og eiga uppbyggilegar umræður um nýjar, mögulegar útgáfur af hagkerfi sem mun svo m.a. stuðla að sjálfbærum framleiðslu- og neysluháttum á öllum sviðum.
Stjórnmálakerfið
Það virðist líka vera þörf á endurbótum á lýðræðinu því eins og málin standa núna virðast hagsmunaaðilar oft geta haft allt of mikil áhrif á pólitískar ákvarðanir. Almenningur hefur hins vegar litla möguleika á að hafa áhrif á gang mála nema í gegnum kosningar. Eitt gott dæmi hér á Íslandi er nýja stjórnarskráin sem samin var á lýðræðislegan hátt og samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir um 10 árum síðan. Þrátt fyrir þessa lýðræðislegu niðurstöðu hafa valdhafar einhverra hluta vegna hunsað hana.
Ákveðin hætta er á því að ójöfn dreifing eignarhalds á fáeinar hendur geti haft áhrif á virkni lýðræðis. Þau sem þegar eru rík og valdamikil geta haft áhrif á stjórnmálin og reglurnar sem eru settar, á þann hátt að þau hagnast enn meira fjárhagslega. Fyrirtækjaauður og einstaklingsauður virðast vera nátengd þeim áhrifum sem þessir ríku einstaklingar geta haft á ákvarðanatöku stjórnmálamanna (sjá Medici-vítahringur).
Dómskerfið
Með breytingum á dómskerfinu væri hægt að auka rétt náttúrunnar og almennings gegn alls kyns mengun, ofnýtingu og eyðileggingu. Mikilvæg ályktun í þessum efnum var samþykkt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í júlí 2022 þar sem því var lýst yfir að aðgangur að hreinu, heilbrigðu og sjálfbæru umhverfi teljist til almennra mannréttinda og Evrópuráðsþingið hefur líka samþykkt slíka ályktun. Ísland greiddi atkvæði með þessari ályktun Sþ og verður núna að sýna fram á að alvara fylgi. Hingað til eru, í vestrænum heimi, allt of mörg dæmi um það að réttarstaða fyrirtækja sé betri en umhverfisins eða almennings. Augljóst er að umbóta er þörf í dómsmálakerfinu til að stuðla að sjálfbærri þróun samfélaga.
Nýlendukerfið
Velgengni ríkra landa og hagnaður sérstaklega stórra fyrirtækjasamsteypa byggir að hluta til á arðráni í fátækum löndum. Þannig er t.d. hægt að selja ódýr föt í ríkum löndum vegna þess að þau eru framleidd í fátækum löndum, af verkafólki sem er á mjög lágum launum og verður jafnvel fyrir mannréttindabrotum. Umhverfislöggjöfin í þeim löndum er einnig oft mjög veik þannig að fyrirtækin þurfa ekki að borga mikið fyrir það að menga og ofnýta náttúrulegar auðlindir. Ríku löndin úthýsa þannig ofnýtingu og mengun, losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangi til fátækra landa. Slíkt kerfi sem er stutt af alls konar milliríkjasamningum er í engu samræmi við mannréttindastefnu, loftslagsstefnu eða stefnu um sjálfbæra þróun sem ríku löndin ætla sér að styðja. Mikilla breytinga er þörf hér þar sem réttlæti verður að vera að leiðarljósi.
Menningarheimar
Vinna þarf áfram að auknu jafnrétti og virðingu allra og á öllum sviðum.
Þegar kemur að umbreytingum samfélaga í átt að sjálfbærri þróun er mikilvægt að læra af þeim þjóðflokkum og frumbyggjum sem bera djúpa og víðfeðma þekkingu og reynslu á lífi í sátt við náttúruna. Þau þurfa að fá meira vægi.
Aðgerðir ríkja í loftslagsmálum verða að hafa loftslagsréttlæti að leiðarljósi. Nýlenduhugsunin verður líka hér að víkja fyrir nýrri hugsun.
Gildisbreytingar
Einstaklingsaðgerðir eru mikilvægur hluti af breytingunum en munu ekki duga án kerfisbreytingar. En einstaklingar geta haft mikil áhrif á aðra og besta dæmið um það er væntanlega loftslagsaktívistinn Greta Thunberg.
Þegar margir einstaklingar breyta lífsstílnum sínum getur það haft áhrif á stemninguna í samfélaginu og breytt gildum og viðmiðum. Þegar nægjusemi verður að tísku og normi, þegar réttlæti, samfélagshyggja og samvinna verða að viðmiði við ákvarðanatöku og þegar kærleikur, virðing, þakklæti, samkennd og umhyggja verða að helstu einkennum samfélags, þá erum við á góðri leið að betri heimi.
Mannkyn sem hluti af vistkerfum
Einu kerfin þar sem mannkynið á ekki að grípa inn í, nema til að endurheimta, eru vistkerfin. Mannkynið hefur aldrei áður verið eins háð þeirri náttúru og þeim vistkerfum sem eru enn þá í lagi í dag og við þurfum að gera allt sem við getum til þess að vernda þau. Stóra breytingin sem mannkynið verður að gera er að sjá og upplifa sig sem hluta af vistkerfunum, haga sér samkvæmt því og lifa í sátt og samlyndi við aðra sem byggja Jörðina. Það er grunnurinn að góðri umgengni við náttúruna sem okkar líf byggist á.
Einhver verður að byrja
Minna þarf á að öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, þar með talið Ísland, hafa skuldbundið sig til að vinna skipulega að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Norrænu löndin vinna mikið saman og hafa m.a. sett sér sameiginleg markmið um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims. Þar með skapast góður grundvöllur um að þessi lönd standi saman að þessum stóru kerfisbreytingum og styðji hvert annað í þeirri vegferð með alvöru skrefum í átt að sjálfbærri þróun. Með þessu geta Norðurlöndin breytt sínum fyrirheitum og fallega tali í alvöru aðgerðir og vegna stærðar þeirra og áhrifasviðs geta slíkar breytingar haft áhrifamikil dómínóáhrif út á við. Íslandi og hinum Norðurlöndunum gefst hér tækifæri til að sýna mikilvægt fordæmi við að koma á nauðsynlegum umbreytingum samfélaga.
Við þurfum að hugsa heiminn upp á nýtt og vinna saman að raunhæfri framtíðarsýn. Nýtum samtakamáttinn. Að gera stórar kerfisbreytingar hljómar ekki eins og hótun heldur eins og eftirsóknarvert fyrirheit!
Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd
Athugasemdir