Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands telur að Íslandsbanki kunni að hafa brotið gegn lögum við framkvæmd bankans á útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5 prósenta eignarhluta ríkisins í bankanum sjálfum, sem fram fór 22. mars. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka, en þar segir frá því að bankinn hafi fengið í hendurnar svokallað frummat fjármálaeftirlitsins vegna athugunar þess á framkvæmd útboðsins.
Í enskri útgáfu tilkynningar bankans kemur fram að bankinn sjálfur hafi óskað eftir því að hefja sáttarferli við fjármálaeftirlitið, en þess er ekki sérstaklega getið í íslenskri útgáfu hennar.
Ekkert er nánar tilgreint í tilkynningu Íslandsbanka hvaða ákvæðum laga fjármálaeftirlitið telur að brotið hafi verið gegn, en fram kemur að sáttarferli sé hafið á milli Íslandsbanka og fjármáleftirlitsins, sem hefur heimildir til þess að leggja á stjórnvaldssektir og ljúka málinu með sátt.
Íslandsbanki segir að bankinn muni „á næstu vikum setja fram skýringar sínar og sjónarmið við frummati FME“ og að stjórnendur bankans taki frummat fjármáleftirlitsins „alvarlega“.
„Eins og áður hefur verið greint frá hefur bankinn þegar gert breytingar á innri reglum og ferlum og mun halda slíkri vinnu áfram í sáttarferlinu,“ segir í tilkynningu bankans.
Þær reglur sem bankinn hefur breytt nú þegar varða verðbréfaviðskipti starfsmanna, en alls tóku átta starfsmenn bankans eða aðilar tengdir starfsmönnum þátt í útboðinu í mars í fyrra, en fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun bankans voru á meðal umsjónaraðila þess.
Athugasemdir