Fyrirhuguð lög fela í sér að yfirvöld fái vald til þess að skilgreina lágmarksþjónustu sem þarf að vera til reiðu á meðan verkfallsaðgerðum stendur. Óljóst er hversu víðfemt það vald verður, en þó hefur komið fram að starfsmenn sem neita að vinna ef þeir eru krafðir um það munu ekki sjálfkrafa njóta verndar gegn uppsögnum.
Áformin eru vægast sagt umdeild og koma á miklum umbrotatímum í Bretlandi, þar sem fjöldi stétta í almannaþjónustu um allt landið hefur ákveðið að grípa til verkfallsaðgerða til að reyna að knýja fram betri kjör, en kaupmáttur launa er í frjálsu falli í Bretlandi, sér í lagi hjá starfsmönnum hins opinbera.
Órói gaus upp á vinnumarkaði í Bretlandi á haustmánuðum og framhald hefur orðið á því nú í janúar. Hafa lestarstarfsmenn, strætóbílstjórar, kennarar í Skotlandi, hjúkrunarfræðingar og sjúkraflutningamenn í heilbrigðisumdæmum landsins þegar gripið til eða ráðgert verkfallsaðgerðir í mánuðinum.
Grunnkrafa flestra stétta er sú að launaþróun haldi í við verðlagsþróun, auk þess sem víða er til viðbótar krafist bóta á bágum starfsaðstæðum og undirmönnun.
Heilbrigðisstéttirnar beita sér
Á miðvikudag tóku yfir 25 þúsund sjúkraliðar, starfsmenn bresku neyðarlínunnar og ökumenn sjúkrabíla þátt í aðgerðum sem náðu yfir mestan hluta Englands og allt Wales, en um 10 þúsund manns lögðu niður störf í heilan sólarhring og 15 þúsund manns gripu til tólf klukkustunda verkfalls frá hádegi.
Hefðbundin þjónusta sjúkrabíla víða í Bretlandi var því löskuð, en bráðatilvikum í hæsta flokki sinnt auk þess sem gripið var til mótvægisaðgerða af hálfu bresku heilbrigðisþjónustunnar, NHS.
Á næstu dögum hyggja hjúkrunarfræðingar sem heyra undir stéttarfélagið Royal College of Nursing á tveggja daga verkfall, en hjúkrunarfræðingar fóru áður í verkfall 15. og 20. desember sem voru fyrstu verkfallsaðgerðirnar í 106 ára sögu stéttarfélagsins. Aðgerðirnar þessa tvo daga í desember höfðu þær afleiðingar að fresta þurfti um 40 þúsund bókuðum tímum eða aðgerðum á heilsugæslum og sjúkrahúsum.
Verkfallsaðgerðirnar sem eru fyrirhugaðar 18. og 19. janúar verða með þeim hætti að hjúkrunarfræðingar í um fjórðungi heilbrigðisumdæma landsins munu ganga út í 12 tíma hvorn dag. Um 300 þúsund hjúkrunarfræðingar eru í heild innan vébanda félagsins og gerir stéttin kröfu um 19 prósenta launahækkun, til að koma til móts við verðlagshækkanir. Ríkisstjórnin hefur boðið 4,75 prósent launahækkun til hjúkrunarfræðinga og annarra starfsstétta í opinberri heilbrigðisþjónustu.
Áfram bætist við fyrirhugaðar aðgerðir, en á miðvikudag var til dæmis boðað að yfir 100 þúsund opinberir starfsmenn sem starfa hjá 124 mismunandi ríkisstofnunum vítt og breitt um landið ætli að leggja niður störf 1. febrúar.
Gætu þvingað lykilstéttir til að vinna
Það er því óhætt að segja að það séu ólgutímar á breskum vinnumarkaði, og fyrirhugaðar lagabreytingar ríkisstjórnarinnar hafa ekki bætt úr skák.
Verkalýðsfélög hafa sum hver heitið því að láta reyna á lögmæti laganna ef þau verða að veruleika og verkalýðsleiðtogar hafa látið hafa eftir sér að fyrirhuguð löggjöf muni lengja kjaradeilur og eitra samskipti á vinnumarkaði, sem gæti leitt af sér enn tíðari verkföll.
Með lögunum er ríkisstjórn Sunaks að byggja ofan á frumvarp sem lagt var fram síðasta haust, en það fól í sér að yfirvöldum yrði gert kleift að skilgreina þá lágmarksþjónustu sem þyrfti að vera haldið uppi ef starfsmenn í almenningssamgöngum beittu verkfallsvopninu.
Nú er lagt til að það verði í höndum ríkisstjórnarinnar hve mikil þjónusta þurfi að vera til staðar hjá slökkviliðsmönnum, heilbrigðisstarfsfólki, starfsmönnum skóla, landamæraeftirlitsmönnum auk þeirra sem starfa við förgun kjarnorkuúrgangs, ef þessar stéttir ákveða að leggja niður störf.
Ef frumvarpið verður samþykkt fær viðskiptaráðherrann, sem í nýjustu útgáfunni af ríkisstjórn Íhaldsflokksins heitir Grant Shapps, heimildir til þess að skilgreina þjónustuna sem þarf að halda uppi með setningu reglugerða.
Verkalýðsfélög búast við að þetta muni verulega draga úr slagkrafti verkfallsvopnsins í þessum geirum. Mick Lynch, framkvæmdastjóri samtaka lestarstarfsmanna, hefur kallað frumvarp stjórnarinnar „árás á mannréttindi og borgaraleg réttindi“.
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa á sama sagt að stjórnin vilji ekki grípa til þess að beita lögunum. „En við verðum að tryggja öryggi bresks almennings,“ sagði Grant Shapps í þinginu í vikunni.
Athugasemdir (1)