Ágæti lesandi.
Fyrsta tölublað Heimildarinnar er komið út og nýr vefur kominn í loftið. Fram undan er vegferð sem hófst með samtali aðstandenda Stundarinnar og Kjarnans síðasta haust. Þá var þeirri spurningu varpað fram hvort fjölmiðlarnir myndu verða sterkari saman, heldur en í áframhaldandi samkeppni við hvor annan. Um er að ræða tvö fjölmiðlafyrirtæki sem voru stofnuð út frá svipuðum forsendum og hugmyndafræði, um að sækja vald sitt og rekstrargrundvöll fyrst og fremst til lesenda. Með því er boðið upp á mótvægi við þá skekkju sem myndast hefur á íslenskum fjölmiðlamarkaði.
Sú skekkja er marglaga. Af umræðu stjórnmálamanna á Íslandi um fjölmiðla má ætla að þar takist á tveir skólar. Annar telur frjálsa, faglega og fjölbreytta fjölmiðla vera hornstein lýðræðis og forsendu opinnar lýðræðislegrar umræðu, sem hefur það mikilvæga samfélagslega hlutverk að veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Hinn telur að fjölmiðlar eigi fyrst og síðast að vera framlenging á hagsmunabaráttu. Þeirra hlutverk sé að endurspegla sýn ólíkra valdahópa á samfélagið þar sem þeir háværustu og best fjármögnuðu stjórni orðræðunni.
Við nálgumst fjölmiðlun út frá fyrri skólanum. Og höfnum þeim síðari. Okkar afstaða er í takti við ríkjandi afstöðu á hinum Norðurlöndunum, sem raða sér fyrir vikið í fjögur efstu sæti yfir þau lönd þar sem fjölmiðlafrelsi er mest, á meðan að Ísland situr í 15. sæti.
***
Það er þó erfitt að draga aðra ályktun en að síðari skólinn hafi orðið ofan á í stefnu íslenskra stjórnvalda á undanförnum árum. Sífellt hefur verið þrengt að einkareknum fréttafjölmiðlum með ýmsum hætti.
Fyrst ber að nefna breytingar á rekstrarumhverfi. Alls námu tekjur allra fjölmiðla á Íslandi 27 milljörðum króna á árinu 2021. Á föstu verðlagi er það sama upphæð og þeir þénuðu árið 2015, en 13 prósent minni tekjur en miðlarnir höfðu samanlagt árið 2005. Sú breyting hefur orðið á skiptingu tekjukökunnar að erlendir miðlar, aðallega Google og Facebook, tóku til sín 43,2 prósent af þeim 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa á Íslandi á árinu 2021. Árið 2012 var hlutdeild þeirra fjögur prósent. Íslensk stjórnvöld hafa ekki gert neitt til að bregðast við þessu.
Á meðan að tekjur einkarekinna fjölmiðla hafa dregist saman hefur hlutur ríkisfjölmiðilsins RÚV í öllum fjölmiðlatekjum farið vaxandi. Hann var 22 prósent árið 2015 en 25 prósent árið 2021, en á síðarnefnda árinu tók RÚV til sín um helming allra auglýsingatekna í sjónvarpi og 39 prósent þeirra í útvarpi. Auk þess er innbyggður tekjuvöxtur í rekstrarmódel RÚV. Útvarpsgjaldið er verðtryggt og hækkar því í takti við verðbólgu. Þá fjölgar greiðendum þess í beinu samhengi við fjölgun íbúa og fyrirtækja í landinu.
Ofan á það rekur RÚV afar harðskeytta auglýsingasöludeild sem veldur verulegri samkeppnisbjögun á markaði. Í ár gera fjárlög ráð fyrir að RÚV fái 5,7 milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum, sem er um milljarði króna meira en fyrirtækið fékk úr ríkissjóði 2021. Ofan á það framlag sækir RÚV að minnsta kosti um tvo milljarða króna á ári í auglýsingatekjur. Eina opinbera framlagið úr ríkissjóði sem fer staðfest til einkarekinna fjölmiðla eru 377 milljónir króna á ári, sem skiptast á þriðja tug fjölmiðlafyrirtækja. Það eru 73 milljónum krónum minna en ríkissjóður ákvað að greiða innlendum kjúklinga-, svína- og eggjaframleiðendum í sárabótagreiðslur vegna þess að fóðurverð hækkaði milli ára.
***
Þessar aðstæður hafa leitt til þess að leið sérhagsmunahópa, sem hafa hag af því að hafa sín tök á umræðunni, að fjölmiðlamarkaði hefur verið greið. Sérstaklega þeirra sem setja það ekki fyrir sig að tapa milljörðum króna, með niðurgreiðslu á taprekstri ósjálfbærra fjölmiðla, til að ná þeim tökum.
Árið 2020 lýsti Samkeppniseftirlitið stöðunni þannig að hafa yrði „í huga að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefur í vaxandi mæli þróast á þann veg að eignarhaldið hefur færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir tiltekna skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi. Í sumum tilvikum blasir við að ráðstöfun þessara aðila á fjármunum í fjölmiðlarekstur hefur það meginmarkmið að ljá hagsmunum viðkomandi aðila enn sterkari rödd og vinna þeim þannig frekari framgang.“ Stjórnvöld hafa ekkert gert í þessari stöðu annað en það að beina þorra þeirra fjármuna sem greiddir eru í styrki til einkarekinna fjölmiðla, til þeirra sem Samkeppniseftirlitið óttaðist.
Afleiðingar stefnu stjórnvalda eru þær að árið 2020 var starfandi fjölmiðlafólk 40 prósent af þeim fjölda sem starfaði við geirann árið 2013. Milli áranna 2018 og 2020 fækkaði starfandi fjölmiðlafólki um helming. Í nýlega birtri könnun Blaðamannafélags Íslands kom fram að meðalstarfsaldur í blaðamannastétt er lágur.
***
Heimildin er í dreifðu eignarhaldi, hátt í fjörutíu aðilar standa að baki fjölmiðlinum og enginn fer með meira en 7,6 prósenta hlut í félaginu. Yfirtökuvarnir eru innbyggðar í samþykktir félagsins og ritstjórar munu skrá hagsmuni sína á opinberum vettvangi. Allt er þetta gert til að tryggja að miðillinn vinni út frá forsendum almannahagsmuna fremur en sérhagsmuna. Markmiðið er að veita aðhald og almenningi þær upplýsingar sem hann á rétt á.
Á sameinaðri ritstjórn Stundarinnar og Kjarnans, starfa nú tólf blaðamenn, og þeim mun fjölga á næstu vikum. Hópurinn er kannski ekki stór en reynslan er mikil. Samanlagður starfsaldur nær 196 árum, en meðal starfsaldur er 16 ár. Á fjölmiðlum nú til dags er ekki algengt að finna svo reyndan hóp, en nýleg könnun sem var framkvæmd fyrir Blaðamannafélagið sýndi að meðalaldur í stéttinni er lágur. Um jafnmargir hafa unnið skemur en í fimm ár í blaðamennsku og þeir sem hafa unnið lengur en í tíu ár. Hvor hópurinn um sig telur um þriðjung allra þátttakenda í kjarakönnun. Skýringarnar eru meðal annars þær að álag er mikið í stéttinni, vinnutíminn almennt langur og launin lág. Á undanförnum tíu árum hafa grunnlaun blaðamanna dregist aftur úr almennri launaþróun sem nemur 23 prósentum, jafnvel þótt hlutfall háskólamenntaðra hafi farið hraðvaxandi. Enda standa laun blaðamanna almennt í stað eftir að fyrstu sex starfsárunum er náð, þar til fólk hefur náð 16 til 20 ára starfsreynslu. Á Heimildinni starfar hins vegar hópur fólks sem hefur hugsjón fyrir blaðamennsku og hefur haldið áfram þrátt fyrir margvíslegar ógnanir og áreiti, ólögmætt lögbann, dómsmál og skýrslutökur. Þeirra á meðal eru þrír sem sitja á sakamannabekk vegna fréttaflutnings af málefnum stórfyrirtækis.
***
Á meðal starfsmanna á ritstjórn Heimildarinnar er fólk sem hefur sérhæft sig í umhverfismálum, stjórnmálum, efnahagsmálum og viðskiptalífinu, heilbrigðismálum, velferðarmálum og félagslegu réttlæti. Allt eru þetta málaflokkar sem Heimildin mun taka föstum tökum til framtíðar. Ef vel tekst til verður hægt að breikka efnistökin. Því ríkari stuðnings sem miðillinn nýtur frá almenningi, því meira verður hægt að gera.
Reynslan hefur sýnt að eina leiðin til að hægt sé að stunda rannsóknarblaðamennsku er með stuðningi almennings, í gegnum áskriftartekjur eða styrki. Rannsóknarblaðamennska felur í sér að blaðamaður fær svigrúm frá daglegum verkefnum til að vinna að ákveðnum málum. Sérstakt rannsóknarteymi er á ritstjórn Heimildarinnar, sem hefur það hlutverk að skoða á eigin forsendum og í gegnum eigin rannsóknir hluti sem skipta máli. Með slíkum aðferðum hefur margoft tekist að afhjúpa gjörninga sem reynt hefur verið að halda leyndum. Hér á landi hafa slíkar afhjúpanir oftar en einu sinni valdið því að gengið er til kosninga á miðju kjörtímabili, sem þýðir að samstarfsflokkar og almenningur hafa hafnað því framferði sem þar var varpað ljósi á.
Til að mæta vaxandi hraða og harðari samkeppni í skökku samkeppnisumhverfi hefur verið ákveðið að stíga út af færibandinu, framleiða færri fréttir en almennt tíðkast á hefðbundnum fréttamiðlum, en vanda til verka. Sú ákvörðun á að skila sér í meiri gæðum fyrir lesendur, en að baki Heimildinni standa ritstjórnir sem hafa fengið flestar tilnefningar einkarekinna fjölmiðla til blaðamannaverðlauna á síðustu árum, sem og flest ljósmyndaverðlaun. Í spurningakönnun sem fylgdi almenningsvagni Maskínu sagðist fólk treysta ritstjórnum þessara miðla til að taka á spillingu, stunda rannsóknarblaðamennsku og setja mikilvæg mál á dagskrá.
***
Áfram verður lögð áhersla á gæði umfram magn, dýpt frekar en auðsóttan lestur. Nafnið vísar til ritstjórnarstefnu sem byggir á því að miðla þekkingu til fólks, upplýsingum sem byggja á traustum heimildum á tímum þar sem upplýsingaóreiða setur sitt mark á samfélagslega umræðu. Hagsmunaaðilar reyna að hafa áhrif og móta hugmyndir fólks með því að dreifa áróðri, villandi og jafnvel röngum upplýsingum. Hlutverk fjölmiðla er að veita almenningi áreiðanlegar upplýsingar, kanna sannleiksgildi fullyrðinga og sannreyna frásagnir, sem geta nú birst óhindrað á samfélagsmiðlum.
Blaðamennska getur verið flókin, hún krefst margvíslegrar færni og til að ná árangri verður að meta hvenær þarf að taka áhættu, hvað varðar stefnu, hugmyndir og efnistök. Stundum er skapandi nálgunar þörf.
Í fyrsta eintaki Heimildarinnar má sjá frumdrög að nýju blaði. Áfram verður unnið að því að þróa miðilinn bæði í vef og prenti. Í fyrsta kasti eru lögð drög að víðtækri menningarumfjöllun og umræðuvettvangi, en til framtíðar stendur fleira til. Lesendur eru hvattir til að koma hugðarefnum sínum á framfæri, meðal annars með aðsendum greinum, fréttaábendingum og myndum þegar efni standa til. Enn gildir það sama og áður, Heimildin er og verður ekkert án ykkar.
Bara ein athugasemd . Hættið að agnúast út í RÚV eins og ,,olíarkarnir " eigendur Torgs, Árvakurs og Sýnar.
Stundin með sinn lokaða áskriftarvef, takmarkaði lýðræðislega umræðu við áskriftina, meðan Kjarninn var opinn.
Báðir miðlar hafa fengið gagnrýni fyrir efnistök, enda hæpið að vera með fullkomin efnistök í hverri einustu blaðagrein, enn hæpnara að áskrifendur vilji borga fyrir slíka fullkomnun og líklegast að hinn fullkomna blaðagrein fái á sig gagnrýni fyrir að vera of fullkomin.
Bæði Kjarninn, Stundin og nú Heimildin hafa fengið á sig það orðspor að þau láta valdið heyra það "speaking truth to power" og þar liggja að mínu mati, þegar allt kemur til alls, væntingar lesenda og áskrifenda. Ósk almennings sem valdið og yfirvöld hunsa, um að til sé rödd sem lætur valdið heyra það.