Þegar ég var unglingur og kominn eitthvað inn á þrítugsaldurinn hafði ég alveg gaman af Skaupinu en varð oft fyrir vonbrigðum. Mér þótti það sjaldan leiðinlegt en oft bara allt í lagi. Undanfarin ár, eftir að ég datt inn á fertugsaldurinn, hefur þetta þó breyst. Skaupið toppar sig ár eftir ár. Síðasta Skaup var virkilega fyndið. Óborganlegt jafnvel.
Þegar ég fór inn á internetið rétt eftir miðnætti þá snerist allt sem þar var skrifað um Skaupið. Eins og grafið að neðan sýnir, þá varð allavega forritið Twitter alveg stappfullt af tístum, lækum og deilingum tengdum Skaupinu. Og á minni tímalínu voru tístin meira og minna jákvæð. Sama hvaða færslu ég las, öllum fannst þetta Skaup algjör hrein og tær snilld. Sem fékk mig aðeins til að hugsa um bubblurnar sem við öll búum í á internetinu.
Einhljóða skoðun almennings sem ég las á netinu taldi ég því líklega ekki skoðun allra landsmanna. Eftir að ég hafði gefið mér smá tíma til að pæla í þessu fann ég upp tilgátu sem ég taldi útskýra þessa miklu jákvæðni.
Tilgátan
Tilgátan mín var eftirfarandi. Skaupið í ár var ekkert endilega betra en undanfarin ár, mögulega kannski aðeins betra, en það sem breyttist á síðustu árum er aldur minn og þess hóps sem ég helst heyri skoðanir á Skaupinu frá. Og þar sem snemmmiðaldra fólk er mikilvægur markhópur Skaupsins, fólk á aldrinum 35–45 ára, þá er ekki nema von að bubblunni minni hafi fundist Skaupið gargandi snilld.
Þessi kynslóð, 35–45 (plús/mínus eitthvað) er kynslóðin sem elskaði Fóstbræður, ólst upp á Tvíhöfða. Því var kenningin mín sú að þetta væri nákvæmlega það sem gerðist. Skaupið, ef vegið meðaltal af skoðunum allra aldurshópa væri tekið, var eflaust alveg fínt. En þegar Fóstbræðrakynslóðin er spurð var það stórfenglegt. Ég meina, Sigurjón fór með framleiðslu Skaupsins og eini Fóstbróðirinn sem ekki var með var Þorsteinn Guðmundsson (hvar var hann? Var hann á Tene með Randver?)
Tilgátan metin
Til þess að meta trúverðugleika tilgátunnar þarf þó gögn. Gögn sem almennt ekki eru til. Því greip ég á það ráð að útbúa spurningalista og dreifa honum á netinu. Spurningalistinn var einfaldur. Ég spurði fjögurra spurninga:
- Hver er aldur þinn?
- Hvert er kyn þitt?
- Hvar áttu heima?
- Hvað fannst þér um Skaupið (á skalanum 1–10)?
Með þessar upplýsingar að vopni taldi ég mig vera í ágætis stöðu til þess að svara því hvort aldur spilaði hlutverk í áliti fólks á Skaupinu. Viðbótarspurningarnar voru hafðar með, til þess að ég gæti metið tvær viðbótartilgátur sem ég hafði þróað með mér:
(1) Þetta Skaup var skrifað af miðbæjarfólki og fólki sem almennt ber hlýjan hug til miðbæjarfólks, því taldi ég að það hefði höfðað til þeirra sem búa í þéttustu kjörnum Reykjavíkurborgar – miðbæ og nágrenni.
(2) Þar sem kynjahlutfall höfunda var jafnt taldi ég að enginn munur væri á konum og körlum (ég gerði mér enga tilgátu um hin kynin, ég vissi að ég myndi ekki fá nægilega mörg svör frá þeim hópum til að geta svarað því á marktækan máta).
Þegar ég hætti að taka við svörum voru komin 270 svör, sem ég kalla ágætt. Til þess að meta hvort kenningar mínar héldu vatni notaðist ég svo við einfaldar tölfræðilegar aðferðir (ásamt því að sleikja aðeins puttann og stinga honum í vind gagnanna).
Tilgátunum hafnað og ekki hafnað
Það er erfitt að játa þegar maður hefur haft rangt fyrir sér. Oft hangir maður lengi á minnst lélegu rökunum sem maður hefur í von um að hafa í það minnsta að hluta til rétt fyrir sér. Eftir afgerandi tap situr maður gjarnan án lima í drullunni, eins og svarti riddarinn í Monthy Python myndinni The Holy Grail, og býður andstæðingum jafntefli og kallar hann svo nöfnum þegar hann nennir ekki lengur að taka þátt í leikritinu.
En núna játa ég mig sigraðan þegar kemur að búsetu- og aldurskenningunum mínum. Þó stendur kynjakenningin mín enn.
Til að sjá hvort ég hefði rétt fyrir mér skar ég gögnin á nokkra vegu. Fyrst athugaði ég einfaldlega hvort það væri almennt samband á milli einkunna og aldurshópa. Þar var ekki mikið að frétta. Langflestum í öllum aldurshópum fannst Skaupið einfaldlega frábært. Engan marktækan mun mátti finna á áliti einstaklinga á aldrinum 26–75, að meðaltali gaf þetta fólk Skaupinu einkunnina 8,5.
Þó má vera að mjög unga fólkinu sem svaraði könnuninni hafi ekki þótt Skaupið eins merkilegt og öllum hinum, fólk á aldrinum 16–25 gaf Skaupinu einkunnina 7,9. Í þessu tilfelli var þó ekki tölfræðilega marktækur munur, svona ef maður á að nota vísindin.
Að sama skapi hafði búseta engin áhrif á svör einstaklinga. Hvort sem fólk bjó í Kraganum, í miðbænum eða úti á landi, þeim fannst öllum Skaupið frábært. Engan marktækan mun mátti sjá á niðurstöðum könnunarinnar, þó voru íbúar landsbyggðarinnar líklegri til að gefa Skaupinu fullt hús stiga heldur en þeir sem hafa búsetu annars staðar. Kannski spilar þar inn í að Sigurjón, sem sá um Skaupið, er samkvæmt heimildum búsettur á Selfossi. Og eins og allir vita er Selfoss óformleg höfuðborg landsbyggðarinnar.
Þegar kom að kynjunum var það að frétta að konum þótti Skaupið mögulega aðeins betra en körlum, að meðaltali gáfu konur Skaupinu 8,8 í einkunn en karlar gáfu því 8,2 (gögn 2, Eikonomics 1).
Í fjarveru frekari upplýsinga: Skaupið var vel heppnað
Vandamálin við að meta gæði Skaupsins með þessum spurningalista eru auðvitað mörg. Í fyrsta lagi dreifði ég spurningalistanum á Twitter. Twitterfólk, sem fylgir mér og þeim sem þeim fylgja, er líklegra til að hafa samhljóma skoðanir og líklegra til að taka upp skoðanir vina sinna á forritinu.
Að einhverju leyti losnaði ég við þessa bjögun með því að biðja mömmu mína um að dreifa listanum á Facebook-síðunni sinni. En, þó er það ekki endilega nóg. Grafið að neðan sýnir til dæmis að dreifing aldurs þeirra sem svöruðu könnuninni er langt því frá sambærileg raunverulegri aldursdreifingu þjóðarinnar. Það skapar svo sem engin óyfirstíganleg vandamál, en dregur þó aðeins úr trúverðugleika greiningarinnar að ofan.
Ég vil þó halda því fram að greiningin sé ekki gagnslaus, maður hefði haldið að eldra og yngra fólk, þó það sé líklegra til að deila skoðunum annarra Twitterbúa, þá ætti það samt að endurspegla að einhverju leyti skoðanir síns aldurshóps. Ef aldur væri sterk ákvörðunarbreyta í áliti á Skaupinu, þá hefði maður átt að sjá einhvern mun á svörum yngri hópa. Svo var ekki.
Því held ég, í bili, í fjarveru nákvæmari upplýsinga, að þetta skaup hafi verið vel heppnað. Allir, konur, karlar, landsbyggðar- og miðbæjarbúar, voru sáttir. Kannski spilar þar þátt að Sigurjón er eftir allt mjög gamall maður sem ólst upp á mölinni en er núna búsettur á Selfossi og er því í betri tengslum við mismunandi markhópa. Einnig hefur það líklega hjálpað til að kynjahlutfall höfunda var jafnt.
Eða kannski var það bara sú staðreynd að Helga Braga fékk töluvert pláss í Skaupinu sem réði því að allir elskuðu Skaupið. Það er nefnilega einfaldlega ekki annað hægt en að hlæja sig máttlausan þegar hún kemur á skjáinn.
Athugasemdir