Í byrjun janúar verða átta ár liðin frá því að ég sat ásamt fámennum hópi fjölmiðlafólks í gluggakistunni á auðri skrifstofu sem við höfðum tekið til leigu í Austurstræti. Tilkynning um stofnun Stundarinnar var nýfarin í loftið og engin leið að vita hvernig tíðindunum yrði tekið, hvað tæki nú við eða hvað framtíðin bæri í skauti sér. Markmiðið var að skapa skjól til að stunda rannsóknarblaðamennsku án ótta við afleiðingar. Til þess óskuðum við eftir stuðningi almennings, sem lét ekki sitt eftir liggja. Velviljað fólk mætti á skrifstofuna með kaffivél, keramík-bolla og grænan sófa fyrir ritstjórnina. Steinunn Ólína og Stefán Karl mættu óvænt með hraðsuðuketil, súkkulaði og te. Fram undan var hópfjármögnun þar sem hvert metið var slegið á fætur öðru. Með hverri keyptri áskrift óx okkur ásmegin. Allar götur síðan hafa áskrifendur staðið þétt að baki miðlinum og sumir jafnvel greitt sérstakan styrk með áskriftinni, til að tryggja gengi hans. Þörfin var áþreifanlega til staðar. Á átta ára tímabili hefur margt áorkast, en eitt er víst að án stuðnings almennings hefði ekki orðið neitt úr neinu. Stundin hefur starfað fyrir tilstuðlan hans og haft það hlutverk að vinna í þágu hans. Það er því með þakklæti sem við kveðjum, ekki aðeins árið heldur átta ára tímabil. Þetta er síðasta tölublaðið undir merkjum Stundarinnar.
Fram undan eru breytingar. Við, aðstandendur Stundarinnar og aðstandendur Kjarnans, höfum ákveðið að sameinast um nýtt fjölmiðlafyrirtæki með sömu hugsjónir. Um er að ræða tvö fjölmiðlafyrirtæki sem eiga sér svipaða sögu, hafa svipaðar áherslur og gildi, sem sameinast nú í eitt. Fjölmennur hópur fjölmiðlafólks og áhugafólks um frjálsa fjölmiðlun stendur að hinum nýja miðli. Að baki samrunanum liggur sú einfalda trú að sameinuð séum við sterkari og að ástæðulaust sé að standa sundruð að sameiginlegum tilgangi. Í stærra fyrirtæki séum við betur í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem fylgja því að reka gagnrýninn fjölmiðil hér á Íslandi. Með því séum við að stíga skref í átt til framtíðar, þar sem tími, fjármagn og kraftar nýtast betur í þágu okkar allra.
Samruninn mun eiga sér stað um áramótin. Stefnt er á útgáfu fyrsta tölublaðs þann 13. janúar og samhliða verður nýr fréttavefur afhjúpaður. Með auknum styrk verður lögð aukin áhersla á þróun nýjunga í efnisvali, framsetningu og formi. Nýir tímar kalla á nýja hugsun. Eftir sem áður verður lykiláherslan lögð á kjarnahlutverk þessara tveggja miðla, sem hefur verið að ástunda greinandi, gagnrýna og upplýsandi blaðamennsku. Skapa svigrúm frá færibandinu fyrir rannsóknarblaðamennsku. Áfram verður áhersla á að veita aðhald, kafa dýpra og segja merkilegar sögur af samfélaginu.
Afraksturinn
Það er ekki einfalt verk að gera upp átta ár og 166 tölublöð í einum leiðara. Stefnuyfirlýsing Stundarinnar byggði á fjórum meginstoðum; að fólk taki ákvarðanir byggðar á upplýsingum, ákvarðanir séu forsenda farsældar, vald hafi áhrif á veittar upplýsingar og hagsmunir valdhafa eru ekki alltaf þeir sömu og almennings. Í ákalli eftir stuðningi almennings fólst áskorun: Vertu valdið. Með því var átt við að í upplýsingum liggur vald. Með það í huga höfum við miðlað upplýsingum sem eru ómengaðar af áhrifum hagsmunaaðila og munum halda því áfram.
Við tökum höndum saman við Kjarnann og saman myndum við sterka heild. Allt frá upphafi hefur verið lögð áhersla á teymisvinnu á ritstjórn Stundarinnar og sömuleiðis hefur margt af okkar mikilvægasta efni verið unnið í samstarfi við aðra miðla. Þar má meðal annars nefna umfjöllun um Samherjaskjölin sem var unnin í samvinnu við RÚV, Al Jazeera og Wikileaks og síðar The Namibian. Umfjöllun um Glitnisskjölin var unnin í samstarfi við Reykjavík Media og The Guardian. Uppljóstranir úr Panamaskjölunum voru sömuleiðis unnar í samstarfi við Reykjavík Media. Að baki samstarfsvilja liggur það viðhorf að almenningur á rétt á þessum upplýsingum og það sé mikilvægara að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð heldur en hver segir fréttina.
Á þessu tímabili hefur Stundin fengið flestar tilnefningar einkarekinna fjölmiðla til blaðamannaverðlauna. Á átta árum hefur Stundin fengið átján tilnefningar og unnið til verðlauna í öllum flokkum. Oftast fyrir rannsóknarblaðamennsku.
Forsagan
Stundin var stofnuð af fjölmiðlafólki sem hafði mætt margvíslegum áskorunum á sínum ferli. Umgjörð Stundarinnar tekur mið af reynslu þessa hóps, eignarhald er dreift og að hluta í eigu starfsmanna, yfirtökuvarnir eru innbyggðar í samþykktir, ritstjórum ber skylda til að skrá hagsmuni sína opinberlega og svo framvegis. Síðast en ekki síst, er ein öflugasta leiðin til þess að tryggja að fjölmiðill sé fyrst og fremst háður lesendum sínum að sækja tekjur beint til þeirra. Stundin gerir það í gegnum áskriftir og styrki. Kjarninn í gegnum styrki. Mikilvægasta forsenda þess að fjölmiðill sé óháður er að reksturinn sé sjálfbær og ekki þurfi að leita til fjársterkra aðila til þess að niðurgreiða hallarekstur.
Allar þessar ákvarðanir byggja á reynslu þessa hóps af þöggun og þöggunartilraunum. Að baki var fjandsamleg yfirtaka á fjölmiðli sem hafði verið leiðandi í uppgjöri við hrunið. Slíkum umfjöllunum fylgdu endurteknar málsóknir þar sem blaðamenn voru dregnir fyrir dóm. Stefnur bárust á Þorláksmessu, blaðamanni var stefnt af athafnamönnum fyrir hatursáróður vegna leiðaraskrifa og ítrekað varð íslenska ríkið uppvíst að því að brjóta á tjáningarfrelsi blaðamanna.
Hindranirnar
Þótt umgjörð Stundarinnar taki mið af þessari reynslu eru takmörk fyrir því hvað hægt er að gera til að verja ritstjórn fyrir árásum og áreiti. Það virðist einfaldlega vera samfélagslega samþykkt að slíkt sé fylgifiskur þess að ástunda gagnrýna blaðamennsku hér á landi. Í það minnsta hafa stjórnvöld lengi verið treg til að bæta lagalegt umhverfi til að verja fjölmiðlafólk fyrir slíku, þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir þess efnis.
Á þessum átta árum hef ég varið afmælisdögum í dómsal og skýrslutöku hjá héraðssaksóknara, auk þess sem mér barst óvænt afmælisgjöf eitt árið: Stefna frá föður dætra sem lýstu því hvernig þær voru skikkaðar í umgengni við hann í æsku þrátt fyrir að hafa greint frá misnotkun af hans hálfu.
Í aðdraganda alþingiskosninga mætti sýslumaður fyrirvaralaust á ritstjórnarskrifstofurnar til að stöðva fréttaflutning af vafasömum viðskiptaháttum þáverandi forsætisráðherra. Sýslumaðurinn krafðist þess um leið að fá afhent gögn og fréttir af málinu fjarlægðar af vef Stundarinnar, en fékk vilja sínum ekki framfylgt. Ólögmætt lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media var hins vegar látið standa í rúmt ár.
Einn úr okkar hópi er nú með stöðu sakbornings, vegna fréttaflutnings af því hvernig stórfyrirtæki lagði á ráðin um að koma í veg fyrir vitnisburð uppljóstrara fyrir dómi og ráðast í refsiaðgerðir gagnvart blaðamönnum. Tveir á ritstjórn Kjarnans eru í sömu stöðu. Áður hafði blaðamaður þurft að þola stöðugt áreiti af hálfu manns sem starfaði fyrir þetta fyrirtæki, sendi hótanir, hékk fyrir utan heimili hans og elti uppi á kaffihúsum. Bara til þess að áreita hann.
Umhverfið
Kannski kemur engum á óvart að atgervisflótti hefur verið úr stétt fjölmiðlafólks. Hér á landi eru ekki margir sem gera blaðamennsku að ævistarfi. Flestir blaðamenn hafa þá stöðu að sinna almennum fréttum, þar sem krafa er gerð til þeirra að þeir viti margt um mikið, í stað þess að vita mjög mikið um lítið. Það krefst hins vegar sömu færni, þekkingar, tíma og fjármuna að ástunda rannsóknarblaðamennsku hér á landi og í fjölmennari ríkjum þar sem fjölmiðlar standa sterkari fyrir.
Þetta er svo sem ekkert nýtt, fjallað var um það í Rannsóknarskýrslu Alþingis að blaða- og fréttamenn hefðu í auknum mæli farið að sækjast eftir stöðu upplýsingafulltrúa hjá fjármálafyrirtækjum, sem höfðu sérstakan áhuga á að ráða til sín fjölmiðlafólk sem hefði þekkingu á viðskiptalífinu og þannig „grafið undan getu fjölmiðla til að veita þeim aðhald“. Í raun væri erfitt að greina á milli upplýsingafulltrúa og áróðursmeistara, þar sem þeir væru sérfræðingar í að „koma í veg fyrir að almenningur geti öðlast skilning á umhverfi sínu“.
Sama þróun hefur átt sér stað í stjórnmálalífinu á undanförnum árum. Markvisst hefur verið unnið að því að fjölga aðstoðarmönnum þingflokka, ráðherra og ríkisstjórnarinnar. Áætlaður heildarkostnaður vegna þess var 427 milljónir króna árið 2018, eða hærri upphæð en samtala þess sem veitt var í stuðning til allra einkarekinna fjölmiðla hér á landi. Ríkið hefur einnig lagt aukinn þunga í að ráða til starfa einstaklinga sem hafa það hlutverk að sinna samskiptum við fjölmiðla og gæta ímyndar opinberra stofnana.
Á sama tíma og staða einkarekinna fjölmiðla hefur verið að veikjast hafa fjárframlög ríkisins til stjórnmálaflokka verið að aukast. Þegar síðasta kjörtímabili lauk höfðu þeir stjórnmálaflokkar sem áttu sæti á Alþingi fengið 2,8 milljarða úr ríkissjóði fyrir rekstur flokkanna á tímabilinu. Til samanburðar veitti ríkið 381 milljón í stuðning við einkarekna fjölmiðla, sem deilt var niður á 25 miðla, þar á meðal Bændablaðið sem rekið er af hagsmunasamtökum. Stærstu miðlarnir fá mest, sem flestir eru niðurgreiddir af auðmönnum. Kannski er ekki nema von að framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar hafi varpað þeirri spurningu fram hvort íslenskir fjölmiðlar eigi sér framtíð.
Fjölmiðlamarkaðurinn
Fjölmiðlamarkaðurinn hér á landi einkennist ekki síst af smæð þjóðarinnar. Hér á landi eru hvorki sérhæfðir fjölmiðlar né mjög aðgangsharðir, líkt og tíðkast víða annars staðar. Hlutfall fríblaða hefur sömuleiðis verið hærra hér heldur en á Norðurlöndunum. Með tilkomu þeirra breyttust ritstjórnarlegar áherslur, markaðsvæðing jókst og afþreyingarefni hefur stóraukist með árunum. Opnir vefmiðlar lúta sömu lögmálum og fríblöð sem byggja á auglýsingatekjum, þar sem tilhneigingin er að framleiða sem mest efni með sem minnstum tilkostnaði, í því skyni að draga sem flesta lesendur að, án þess að styggja auglýsendur.
Það er ekki aðeins ritstjórnarstefna fjölmiðla sem hefur orðið fyrir áhrifum af þessari þróun heldur hefur hún innleitt þá hugsun að fréttaflutningur kosti ekkert. En ef fólk greiðir ekki sjálft fyrir fréttir er einhver annar sem gerir það. Spurningin sem stendur eftir er: Hvers vegna vilja fjársterkir aðilar greiða fyrir fréttirnar sem þú lest? Skekkjan á fjölmiðlamarkaði birtist hins vegar fyrst og fremst í því að nánast allir einkareknir fjölmiðlar landsins eru og hafa verið niðurgreiddir af auðmönnum sem sjá hag af því að viðhalda taprekstri. Það er ekki langt síðan Samkeppniseftirlitið opinberaði að ríkasti Íslendingurinn hefði leynilega lagt 745 milljónir í rekstur DV á þriggja ára tímabili, þrætt fyrir það og neitað aðkomu sinni að fjölmiðlinum.
Eftir að hafa greint fjölmiðlalandslagið hér á landi komst rannsóknarnefnd Alþingis að þeirri niðurstöðu að eigendur fjölmiðla gætu „ráðskast með fjölmiðla“ í því markmiði að „ástunda skoðanafjölmiðlun og verja sérhagsmuni“. Slíkar áhyggjur opinberra aðila hafa ítrekað komið fram síðan. Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofa Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu hefur ítrekað lýst áhyggjum af samþjöppun í eignarhaldi fjölmiðla og lagt til að íslensk stjórnvöld grípi til ráðstafana. Árið 2018 bentu höfundar greinar í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla á vísbendingar um aukið flokksræði í íslenskum fjölmiðlum síðasta áratuginn. Tveimur árum síðar varaði Samkeppniseftirlitið við því að eignarhald stærri einkarekinna fjölmiðla hefði í vaxandi mæli „færst á hendur fjársterkra aðila sem standa fyrir skilgreinda hagsmuni í íslensku atvinnulífi“.
Fjölmiðlafrelsi hér á landi hefur hrunið á undanförnum árum, meðal annars vegna lagaumhverfis þar sem blaðamenn eiga stöðugt á hættu að vera dregnir fyrir dóm vegna starfa sinna og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað dæmt íslenska ríkið fyrir að brjóta á tjáningarfrelsi blaðamanna. Fleiri ástæður eru tilgreindar, svo sem að rekstrarumhverfi fjölmiðla veiki getu þeirra til að standast þrýsting hagsmunaaðila. Fjölmiðlar hafi verið yfirteknir af hagsmunaaðilum, samskipti stjórnmálamanna við fjölmiðla hafi versnað og stórfyrirtæki staðið fyrir ófrægingarherferð á hendur fréttamönnum.
Lærdómurinn
Á síðustu árum hefur þeirri hugsun einstaka sinnum skotið upp hvort það sé þess virði að standa í þessu streði, en sú hugsun varir sjaldnast lengi. Af því að það eru forréttindi að vera í þeirri stöðu sem við höfum verið síðustu ár hér á Stundinni, þar sem við höfum notið ríkulegs stuðnings almennings.
Til framtíðar þurfa fjölmiðlar að aðlagast breyttu upplýsingaumhverfi þar sem stofnanir, fyrirtæki, stjórnmálamenn og aðrir hagsmunaaðilar miðla skilaboðum sínum beint til almennings um samfélagsmiðla og nýta jafnvel fjárhaglega yfirburði til þess. Ef það er eitthvað sem ég hef lært á síðustu árum er það mikilvægi þess að spyrna við. „Það hefur aldrei verið brýnna að leita nýrrar þekkingar,“ skrifar rektor Háskóla Íslands í pistli sem birtist í blaðinu. Skólinn leiðir meðal annars nýtt evrópskt rannsóknarverkefni sem snýst um að finna leiðir til að berjast við falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Að sama skapi hefur líklega aldrei verið eins mikilvægt að sinna því hlutverki fjölmiðla að sannreyna upplýsingar, vinna úr gögnum og koma réttum upplýsingum áleiðis. Með því að stíga það skref að stofna nýjan fjölmiðil með ritstjórn Kjarnans er markmiðið að mynda öflugra mótvægi við þessari þróun.
Fyrir ykkur og með ykkur – því við getum ekkert gert án ykkar.
Heitir barnið Stundarkjarninn eða Kjarnastundin?? Trúlega eitthvað annað.