Þetta var fyrir og eftir árið mikla. Fyrir og eftir Covid. Fyrir og eftir stríðið. Um það leyti sem lífið virtist vera að færast aftur í eðlilegt horf braust út stríð í Evrópu. Allt virtist vera að falla í ljúfa löð en á sama tíma fór allt úr skorðum. Stríðinu lauk og stríðið hófst. Björninn reis upp úr híðinu.
Sem starfandi skemmtikraftur lauk loks tveggja ára eyðimerkurgöngu. Verbúðin kláraðist í sjónvarpinu. Vertíðinni lauk. Dýrtíðin tók við. Íslendingar lyftu sér upp sem aldrei fyrr á útmánuðum. Árshátíðir, afmæli, tónleikar, vinafundir og veislur. Héldu svo utan í gríð og erg þegar líða tók á sumarið. Covid-brandararnir hættu skyndilega að virka. Takmarkalaus gleði.
Við höfum alltaf kunnað að lyfta okkur upp. Sérstaklega eftir harðan vetur. En sú tilfinning gróf líka um sig að fara ekki of geyst. Spara aðeins orkuna. Stíga örlítið á bremsuna. Setja tærnar upp í loft við og við. Bara helst ekki á Tenerife til að spara gjaldeyrisforðann.
„Og ætli flestir þrái núna ekki bara eðlilegri takt“
Sumir upplifðu líka félagslegar harðsperrur eftir faraldurinn. Kunnu betur að meta rólega taktinn sem varð ofan á í samkomubanninu. Hugtakið Jomo (Joy of Missing Out) varð til, í staðinn fyrir Fomo (Fear of Missing Out) þegar instagrömmin fylltust af glaðbeittu fólki í húllumhæi um allan bæ. Það er líka bara svo notalegt að vera heima.
Þetta var jú ár öfganna. Það var ekkert í gangi. Svo var allt í gangi. Það voru engin partí, svo voru fjögur partí sömu helgi. Það voru lágir vextir, svo voru háir vextir. Það voru engir ferðamenn. Allt fylltist af ferðamönnum.
Og ætli flestir þrái núna ekki bara eðlilegri takt. Eðlilegt líf. Eðlilegt ár. Kannski eru loksins teikn á lofti núna í lok ársins. Snjórinn kom rétt fyrir jól. Messi er bestur í fótbolta. Og Covid-brandararnir loksins hættir að virka.
Athugasemdir