Jón Þorkelsson:
Sýnisbók þess að Ísland er ekki barbaraland heldur land bókmennta og menningar
Hér er komin — að mínum dómi — ein skemmtilegasta bókin í jólabókaflóðinu þó það verði kannski ekki endilega slegist um hana í bókabúðunum. Höfundur er Jón Þorkelsson (1697-1759) sem var um tíma skólameistari í Skálholti og síðan sérlegur aðstoðarmaður danska biskupsins Ludvig Harboe sem kom í fræga eftirlitsferð til Íslands laust fyrir miðja 18. öld, gjarnan kallaður Jón Thorkillius. Hann bjó svo í Kaupmannahöfn til æviloka.
Markmið Jóns með bókinni kemur skýrt fram í titli hennar. Honum sveið að stallbræður hans í Höfn skyldu ekki hafa betri skilning á Íslandi og íslenskri menningu en svo að þeir héldu að landið væri menntunarsnautt villimannaland.
Því skrifaði hann á latínu, tungu menntamanna í Evrópu, stuttar ævisögur íslenskra menntamanna á öllum tímum til að sanna að þeir hefður ekki verið barbarar, eða villimenn.
Og nú hefur Stofnun Árna Magnússonar gengist fyrir því að gefa út íslenska þýðingu Sigurðar heitins Péturssonar á öllu verkinu. Samkvæmt formála er langt síðan Sigurður byrjaði á þýðingu verksins en það var ekki fyrr en nokkru fyrir andlát sitt árið 2020 sem hann gekk endanlega frá verkinu og naut þá aðstoðar Hjalta Snæs Ægissonar.
Hjalti Snær hefur nú séð um útgáfu og ritar formálann og eftir því sem best verður séð er alveg bráðvel frá öllu gengið. Textinn er birtur bæði á latínu og íslensku, skýringar eru greinargóðar og hæfilegar, umbrot fínt og svo framvegis. Það er náttúrlega leitt að sá sómamaður Sigurður skyldi ekki lifa að sjá þessa útgáfu á prenti en þessi skemmtilega bók er honum prýðilegur bautasteinn.
„Torskilin og fánýt kvæði“
Það er hægt að blaða lengi í bókinni og skemmta sér við mannlýsingar Jóns Thorkilliusar. Hann er ekkert að skafa utan af hlutunum. Í kafla sínum um Sæmund fróða nefnir hann til dæmis hugmyndir um hvort Sæmundur hafi samið hina svonefndu Sæmundar-Eddu eður ei, og segir svo:
„Sennilegra er að þetta safn, torskilinna og fánýtra kvæða sé ekki eftir einn höfund heldur hafi Sæmundur safnað þeim saman eða þá einhver annar áhugamaður um þess háttar goðfræðilegan þvætting.“
Það er auðvitað ljóður á ráði Jóns sem fræðimanns að hafa ekki áttað sig á mikilvægi Eddukvæðanna (eða vilja altént ekki viðurkenna það) en ætli það sé ekki enn eitt dæmið hvernig trúarbrögðin blinda mönnum sýn? — hafi þá verið þörf á einhverjum fleiri dæmum um það.
Ómenntuð og illgjörn alþýða
Raunar er margt í þessari bók náttúrlega fyrst og fremst til marks um hugarfar höfundarins og þar með líka menntamanna almennt á 18. öld. Eins og Hjalti Snær bendir á í formála sínum kemur til dæmis víða fram fyrirlitning Jóns á alþýðufólki, sem margir menntamenn deildu áreiðanlega með honum, og má af handahófi sýna hér brot úr skrifum Jóns um nafna sinn Daðason í Arnarbæli:
„En að hann hafi verið talinn galdramaður má reka til ómenntaðrar og illgjarnar alþýðu af því að hann gerði það af hygguviti sinu og visku sem vitgrannir menn telja gjarnan til listar og verka myrkrahöfðingjans.“
Margir kaflar í þessari bók beinlínis hrópa á að vera lesnir upp í útvarpsþættinum mínum Frjálsum höndum og má til dæmis nefna skrif Jóns um nafna sinn Vestmann soldáta í danska hernum. Alveg gullvægt allt saman!
Saga útgáfunnar er rakin í eftirmála ritstjóranna Margrétar Eggertsdóttur og Guðvarðar Más Gunnlaugssonar. Öll útgáfan er til prýði og fyrirmyndar sem áður greindi og eina athugasemdin sem ég hef við þetta allt saman er að ritstjórar hefðu mátt mæta við fæðingar- og dánarári þeirra sem Thorkillius fjallar um.
En það er smáatriði. Að öðru leyti: Allt gott!
Athugasemdir