Það ræktar enginn banana í Namibíu.
Hinn 11. nóvember 2019 mætti Jóhannes Stefánsson á skrifstofu héraðssaksóknara og gaf fyrstu skýrslu um starfshætti Samherja í Namibíu og greindi í leiðinni frá því að hann hefði um eins árs skeið átt í samstarfi við namibísk yfirvöld, sem hefðu nú farið af stað með umfangsmestu spillingarrannsókn í sögu landsins.
Jóhannes greindi líka frá því að hann hefði í rúmt ár átt í samstarfi við Wikileaks og innlenda og erlenda blaðamenn.
Ástæðan fyrir því að Jóhannes ákvað að gera meira en að gefa sig upp við lögregluyfirvöld og bjóða þeim upplýsingar var vantrú. Byggð á þeim ótta hans að málin snerist öðrum þræði um svo gríðarlega hagsmuni; peninga og völd. Að jafnvel þótt hann efaðist ekki um getu einstaklinga innan kerfisins til að rannsaka málin, efaðist hann um kerfin.
Þess vegna væri nauðsynlegt að upplýsa aðstandendur þessara kerfa beggja landa um málið: Almenning.
Við blasti að stór og öflugur stjórnmálaflokkur flæktist inn í málið. Og þar væri þéttur hópur sem hefði tögl og hagldir víða, í gegnum aðgengi sitt að auðlindum og valdi til að ákveða hver nyti góðs af þeim. Í skjóli langrar valdasetu hafði flokkurinn komið sér vel fyrir og haft á sínum höndum skipunarvald í æðstu embætti framkvæmda- og dómsvalds.
Og svo gat farið að kerfið sem á þessu hvíldi gæti metið sjálfa tilveru sína undirselda því hvort saga Jóhannesar yrði sögð. Eða í það minnsta ekki í stærri hópi en svo að hægt yrði að stjórna því hvort og þá hvað af henni ætti erindi.
Í öllu falli væri það bara í skjóli af þögninni sem mögulegt væri að hægja á, þæfa og þreyta flókna og umfangsmikla sakamálarannsókn. Það voru mýmörg dæmi til um að sömu menn og nú beindust að spjótin, hefðu áður sloppið á undraverðan hátt við valkvæðan vönd réttlætisins, sem verður til þegar völdin eru líka á þeirri sömu hendi.
Að tilkynna fleirum um hvernig gæslumenn almannaeigna færu með þær og völdin sem fylgja með, kom alltaf fleirum við en nokkrum lögreglumönnum. Það yrði líka til þess að þeir sem á endanum tækju ákvörðun um hvort rými væri til að rannsaka svo umfangsmikil mál, kysu að gera það. Eða sæju sér í það minnsta ekki annað fært, en að gera það.
Öll þessi rök fyrir því að opinbera málið á Íslandi, gátu svo sem líka átt við í Namibíu.
Það var fyrirsjáanlega erfitt að ætla að fara langt með risastóra spillingarrannsókn gegn tveimur sitjandi ráðherrum. Sérstaklega þegar annar þeirra var yfirmaður lögreglunnar sem rannsakaði málið. Það að opinbera málið neyddi líka viðhlæjendur beggja namibísku ráðherranna til að krefja þá afsagnar. Stuttu seinna voru þeir báðir handteknir.
Og það líka auðvelt að tína til rök eins og þau að Jóhannes, sem yrði lykilvitni í Namibíu, þyrfti að opinbera málið til þess að tryggja öryggi sitt.
Það er mýgrútur frásagna til af því hvernig reynt er að losa sig við óþægilega menn í „útlöndum“ – þeim mun svæsnari eftir því sem þau lönd eru lengra í burtu frá okkur. „Útlönd" þar sem hægt er að fá vanþróuð og spillt yfirvöld til að líta í hina áttina þegar kenna þarf réttum mönnum lexíu. Sérstaklega þeim sem fara gegn þeim sem öllu ráða.
Almenn vitneskja um hvað Jóhannes hefði að segja yrði til þess að yfirvöld í Namibíu bæru ábyrgð á að vernda vitnið, til þess að vernda sig sjálf. Það vissu allir hvað væri undir.
Eða hvað?
Nú þremur árum seinna erum við fleiri, sem mættum hugsa okkar gang en maðurinn sem brást við uppljóstrun Jóhannesar með því að vísa til spillingar í Afríku sem orsakar þess ef stærsta fyrirtæki landsins hefði mætt óumbeðið til Namibíu og greitt hátt í 1.800 milljónir króna mútur til kollega hans, til þess að komast yfir eignir almennings, og svo stungið ávinningnum undan í skattskjól.
Það hafa nefnilega verið þessi „afrísku", vanþróuðu yfirvöld sem hafa ítrekað furðað sig á því hvernig kollegar þeirra hér uppi á Íslandi hafa höndlað uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar - þá staðreynd að hann hafi óumbeðið og án nokkurra skilyrða afhent yfirvöldum hér risavaxin saka- og skattamál, sem annars hefðu aldrei lítið dagsljós.
Fyrir þá sem hafa gaman af bókfærslu er ágætt að taka fram að uppljóstranir Jóhannesar Stefánssonar hafa þegar skilað ríkissjóði Íslands 300 milljónum króna. Peningum sem sami maður og taldi landa sína hafa „lent í mútum“ í Afríku, fær nú aukalega til ráðstöfunar inn á heftið okkar. Færeyingar endurheimtu þessa peninga og skiluðu hingað, eftir að Jóhannes sagði frá því hvernig Samherji hefði tekið snúning á sköttum með því að gefa laun íslenskra sjómanna upp í Færeyjum, þó þeir reru allir við strendur Afríku.
Í viðtali við Jóhannes sem tekið var í tilefni af þriggja ára „afmæli“ uppljóstrunarinnar um Samherjaskjölin ræðir hann meðal annars um hvernig yfirvöld í Namibíu hafa oftar en einu sinni lýst yfir áhyggjum sínum af því hversu langt þeir sem til rannsóknar eru í málinu hafa komist upp með að áreita og hóta lykilvitninu gegn þeim. Þessar áhyggjur namibísku lögreglumannanna eru ekki til komnar kvartana Jóhannesar. Heldur hafa þeir eins og flestir aðrir lesið um þessi atvik í fjölmiðlum.
Frásagnir af því hvernig Jóhannes hefur verið eltur, njósnað um hann og hann áreittur. Hvernig honum hefur verið hótað. Undir rós og alls ekki, þegar ljóstað var uppi um samsæri Samherjafólks um að reyna að hræða Jóhannes frá því að bera vitni í Namibíu. Starfsmenn Samherja hafa gengist við því að brjótast ítrekað inn á einkavefsvæði Jóhannesar og svo beinlínis stært sig af því að hafa stolið þaðan persónulegum myndum og myndböndum.
Æðsta embættismanni íslensku utanríkisþjónustunnar þótti svo ekkert sérstakt tiltökumál þótt fulltrúi Samherja hefði við hann samband og falaðist eftir því að fá upplýsingar um ferðir Jóhannesar erlendis. Ferð sem Jóhannes fór í þeim erindum einum að skila eiðsvörnum vitnisburði sínum um framgöngu Samherja til namibískra yfirvalda.
Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur flest þetta viðbragðsleysi íslenskra yfirvalda við þessum augljósu tilraunum fólks sem undir er í sakamálarannsókn til að reyna að koma í veg fyrir að vitnað sé gegn þeim.
Það er ómögulegt að segja til um hvað veldur því að ekkert þessara atvika hafi orðið tilefni nokkurra afskipta af þeim sem standa fyrir þeim. Hvað þá ef einhver segði nú eitthvað við þessum atlögum? Nóg er af talsmönnum réttarríkisins hér, samkvæmt síðustu fréttum.
Forsætisráðherra hefur jafnan orð á því að henni hafi auðnast að setja lög um vernd uppljóstrara þegar reynt hefur verið að fá hana til að ræða efnislega um uppljóstrun Jóhannesar Stefánssonar.
Þá staðreynd að stærsta og valdamesta fyrirtæki landsins sé ekki bara undir í risastórri sakamálarannsókn, heldur fari það líka um eins og naut í flagi gagnvart hverjum þeim sem vogar sér að fjalla um það öðruvísi en undir leikstjórn þeirra sjálfra.
Sú uppljóstraravernd sem forsætisráðherra vísar til, á ekki við um Jóhannes Stefánsson. Og sjálfur hefur hann ekki óskað eftir henni. Þessari sem sett var til málamynda, eftir tíu ára tilraunir þingmanna. En líka tilmæli, ítrekanir og svo gott sem hótanir alþjóðastofnana. Og urðu að lokum þannig að fáa ef nokkra fýsir í skjól af lögunum, utan forsætisráðherra sjálfan.
Við getum þó alltaf huggað okkur við að lögregla stóð ekki aðgerðarlaus hjá í öll þessi skipti sem ljóstrað var upp um áreitið gegn Jóhannesi Stefánssyni.
Lögreglan hefur í eitt skipti séð sig knúna til að grípa inn í og hefja sakmálarannsókn.
Á hendur blaðamönnunum sem sögðu frá. Fyrir að segja frá.
Ísland er stærsta bananaplantekra Evrópu.
Munum það næst.
Athugasemdir (1)