Fjóla liggur heilu næturnar andvaka á aðventunni, með það markmið eitt að grípa nú einu sinni jólasveinana glóðvolga þegar þeir setja í skóinn. Eins og flest sæmilega forvitin börn hafa einhvern tímann gert. En þetta var þegar hún var fimm ára. Núna er hún sex ára og foreldrarnir hafa sagt henni hið ósegjanlega; að jólasveinarnir séu ekki til og að það séu foreldrarnir sem gefa í skóinn. Eitthvað sem jólabarnið Fjóla ætlar sér svo sannarlega ekki að sætta sig við.
Það er kannski mesta furða að það sé ekki algengara að barnabókahöfundar leiki sér með þetta eitt helsta tabú bernskunnar, hvort jólasveinarnir séu til eða ekki, en vandinn er bara sá að fyrirfram reiknar maður með að annað svarið eyðileggi trúverðugleika bókarinnar og hitt svarið eyðileggi ævintýrið.
En í Frankensleiki fer Eiríkur Örn Norðdahl þriðju leiðina. Jólasveinarnir voru til, en þeir eru allir steindauðir. Og þó, kannski ekki alveg dauðir …
Athugasemdir