Þannig hefur sálmurinn „Vor guð er borg á bjargi traust“, sem er frábært lag og að öllum líkindum eftir Lúther sjálfan, orðið að táknmynd fyrir þau miklu þáttaskil í sögu Evrópu sem siðaskipti Lúthers voru óneitanlega. Þegar Bach átti að semja kantötu fyrir tvö hundruð ára afmæli siðaskiptanna notaði hann þetta sálmalag, og vígalegir lúterstrúarmenn í óperum eru látnir syngja það. Stundum nægir að nefna titilinn til að gefa lúterstrú í skyn.
Á nítjándu öld eru dæmin fjölmörg. Franski þjóðsöngurinn er meira en venjulegur þjóðsöngur, hann er einnig tákn um frönsku byltinguna 1789 og stöðu hennar í sögu Evrópu, og birtist það meðal annars í kvikmyndum. Í Frakklandi er lagið „Le temps des cerises“ – „Tími kirsuberjanna“ – orðið að tákni fyrir Parísarkommúnuna 1871, þær vonir sem við hana voru bundnar og blóðug örlög hennar. Og naumast þarf að nefna Alþjóðasöng verkamanna, „Nallann“, sem orðið er að tákni fyrir verkalýðsbaráttu …
Athugasemdir