Ég á það reglulega til að halda því fram við nemendur mína að nú sé komið að síðustu kennslustundinni á ferli mínum. Ein slík stund fyrir nokkrum árum var síðasti tíminn í málstofu um hugtakið „traust“ við Háskóla Íslands. Allir nemendur fluttu stutt erindi í þessari samverustund okkar og voru öll erindin eftirminnileg og ekki þá einungis vegna þess að ég ætlaði ekki að kenna málstofu aftur. Mest sitja þó í mér sérstaklega spennandi hugleiðingar eins nemandans um Elizabeth Holmes og misferlið á bakvið fyrirtæki hennar, Theranos. Saga hennar og fyrirtækisins er náttúrlega ótrúleg og augljóst hvernig sagan af því hvernig hæfileikar hennar til að fá jafnvel reyndasta og gáfaðasta fólk til að leggja traust sitt á hana passaði inn í málstofuna. Er virkilega hægt að fá fólk til að treysta manni með því að dýpka röddina og klæða sig í svarta rúllukragapeysu?
Síðan ég heyrði fyrst af Elizabeth Holmes í þessum lokatíma málstofunnar hef ég mikið notað hana sem dæmi í fyrirlestrum fyrir fyrirtæki og félagasamtök. Svik Theranos eru ekki einstök og raunar svipar þeim til margra annarra úr viðskiptalífi undanfarinna áratuga þar sem gagnrýnendum er svarað með því að þeir skilji ekki snilldina. En það er samt eitthvað einstaklega heillandi við þessa sögu um blekkingu sem lengi vel var vörðuð góðum ætlunum. Elizabeth Holmes hóf ekki rekstur fyrirtækis síns til að blekkja hluthafa og að lokum skjólstæðinga fyrirtækisins. Upphaf fyrirtækisins átti sér rætur í hugmynd sem hefði getað haft stórkostleg áhrif fyrir fjölda fólks ef hugmyndin hefði gengið upp. Sem hún gerði ekki. Sjónvarpsþættirnir The Dropout, vinsælir hlaðvarpsþættir og nýleg réttarhöld hafa svo gert það að verkum að fólk þekkir til Theranos. Nú þarf maður ekki að kynna málið frá grunni þegar það er nefnt í fyrirlestrum heldur er auðvelt að skella sér beint í umræður. Fólk hefur gríðarlega sterkar skoðanir á því hvað þarna átti sér stað.
En það var einungis nýlega sem ég las um eina leiðinlega afleiðingu Theranos hneykslisins. Ég hafði ekki orðið var við þetta þegar ég var að kynna mér málið upphaflega og sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti. Þetta er einungis staðhæfing í blaðagrein sem ég las nýlega en hún kemur mér svo sem ekki á óvart. Afleiðingin var sú að ungar metnaðarfullar konur hafa átt í erfiðleikum í frumkvöðlastarfi í Bandaríkjunum undanfarinn áratug þar sem trúverðugleiki kvenna í nýsköpun skaðaðist af framferði Elizabeth Holmes. Ungar konur hafa allar verið settar undir sama hatt og fyrst ein reyndist ekki traustsins verð þá var þessum skorti á trúverðugleika varpað yfir á aðrar konur. Elizabeth Holmes var með öðrum orðum orðin að staðalímynd ungs kvenkyns frumkvöðuls og aðrar dæmdar eftir því.
Mér varð hugsað til þessarar sögu í sumar þegar ég tók þátt í því ásamt félögum mínum að hrinda af stað alþjóðlegu þróunar- og rannsóknarverkefni sem fjallar um hvernig við getum fengið nemendur á unglingsaldri til að bera kennsl á staðalímyndir og forðast að nota þær. Verkefnið sem styrkt er af Erasmus+ og nefnist Diogenes snýst um að fá nemendur til að nota frásagnarlist til að lýsa hlutverkum fólks en fara um leið gagnrýnið yfir þessar frásagnir og leiðrétta ef óréttlætanleg notkun á staðalímyndum hefur ratað inn í frásögnina. Hér gefst svo sem ekkert rými til að lýsa verkefninu nánar, en ég get þó sagt að þetta er með áhugaverðustu áskorunum sem ég hef tekist á við.
„Mætti jafnvel færa fyrir því rök að hér sé um eitt öflugasta mælskubragð að ræða sem til er“
Síðastliðinn áratug og rúmlega það hef ég fjallað um staðalímyndir – sem ég freistast reyndar enn þá til að kalla „stereótýpur“ – í fyrirlestrum mínum. Mér hefur alltaf fundist vísun til þeirra ákaflega áhugaverð og hef ekki tölu á þeim glærum sem ég hef útbúið þar sem notkun þeirra er útskýrð og dæmi nefnd. En ég hef einungis skoðað staðalímyndir sem mælskubragð. Það hefur svo sem ekki verið vanþörf á því og dæmin úr samtímanum hafa hrúgast upp. Og gera alla daga. Mætti jafnvel halda því fram að notkun á staðalímyndum sé eitt algengasta mælskubragð stjórnmála um þessar mundir, og ekki einungis þar sem lýðhyggja hefur náð að festa rætur í stjórnmálalífinu. Notkun á þessu mælskubragði með öðrum, hvort sem það er uppgerðar hneykslun eða húmor, er gríðarlega líkleg til árangurs. Mætti jafnvel færa fyrir því rök að hér sé um eitt öflugasta mælskubragð að ræða sem til er.
Þátttaka í Diogenes verkefninu hefur hins vegar fengið mig til að skoða þetta fyrirbæri í miklu víðara ljósi. Í raun hef ég horft framhjá því sem hefði átt að blasa við mér. Notkun á staðalímyndum og vísun til þeirra snýst ekki einungis um ræðulist og mælskubrögð, eins slæm og slík notkun er. Staðalímyndir rata einnig beint og óbeint inn í fjölmargar rökvillur og hleypidóma sem plaga okkar eigin hugsun. Í raun má segja að þær séu nauðsynlegar þegar við viljum fella dóma og mynda okkur skoðanir án þess að hafa þekkingu á því sem til umræðu er. Þær gera okkur með öðrum orðum kleift að stytta okkur leið við að mynda staðhæfingar og sem slíkar hafa þær líklega þróast í hugsun mannsins frá örófi alda. Við erum þegar öllu er á botninn hvolft fordómafullar skepnur og staðalímyndir leika þar stórt hlutverk.
En þá kann einhver að spyrja sig hvers vegna vísun í staðalímyndir sé þá svona slæm? Hvert er eiginlega vandamálið, eins og stundum er spurt, fyrst notkun þeirra hefur mögulega fylgt mannkyni lengi og þá væntanlega nýst vel í lífsbaráttunni? Diogenes verkefnið stefnir að því að fá unga nemendur til að minnka notkun á staðalímyndum. Er mögulegt að fá nemendur til að staldra við og ígrunda notkun sína á slíkum ímyndum? Eru þær nokkuð nauðsynlegar fyrir allar frásagnir okkar og skoðanamyndun? Hvaða spurningar notar maður til að brjóta niður staðalímyndir, er það sérstök hæfni sem ungt fólk þarf að þroska með sér eða dugir almenn hæfni í gagnrýninni hugsun?
Verkefnið mun svo öðrum þræði leitast við að skoða viðbrögð nemenda frá ólíkum þjóðum við því verkefni að velja ekki staðalímyndir í frásögnum, eða þá að endurskoða notkun þeirra áður en frásögn er sett fram með hjálp ólíkra miðla. Ein rannsóknarspurningin er hvort erfiðara sé fyrir krakka í löndum með íhaldssamari skoðanakerfi, eins og Möltu og Tyrklandi, heldur en til dæmis Svíþjóð, að taka það sem ég vil kalla stereótýpur um hlutverk kynja út úr frásögnum sínum?
Líklega er erfiðast að sætta sig við að það er óraunhæft að láta allar vísanir í staðalímyndir lönd og leið. Eins mikið og maður vildi óska þess að hugsun okkar og samskipti geri ekki ráð fyrir notkun þeirra, þá er ómögulegt að vera án þeirra að einhverju leyti. Það krefst of mikils átaks að nota ekki tiltekin hugtök og meðfylgjandi staðalímyndir öðru hvoru. Spurningin er hvort ekki sé mögulegt að minnka það hversu mikið við reiðum okkur á staðalímyndir og hvort ekki sé einmitt mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir nauðsyn þess á unga aldri að láta þær ekki alfarið stjórna hugsun okkar. Það sem er alvarlegast við vísanir í staðalímyndir er að þær láta okkur horfa framhjá einstaklingum og mynda okkur skoðanir út frá ófullnægjandi forsendum. Við förum á mis við að kynnast því hvað fólk í kringum okkur getur í raun gert og hefur fram að færa en alhæfum þess í stað um fólk út frá frásögnum annarra eða jafnvel fyrri reynslu okkar sem oft og tíðum er ákaflega takmörkuð. Alveg eins og fjárfestar í Kaliforníu voru á tímabili efins um að ung kona geti byggt upp fyrirtæki, má finna víða um heim nemendur sem telja sig vita fyrir fram hvað einstaklingar af tilteknu kyni geta og geta ekki gert. Og það sem er kannski alvarlegra er að við erum enn býsna upptekin af því að þykjast vita hvað manneskjur af ólíkum uppruna sem koma til Íslands séu hæfar til að gera.
Athugasemdir