Ríflega tveir milljarðar króna hafa verið greiddir úr ríkissjóði í bætur til þolenda ofbeldis á síðustu tuttugu árum. Á sama tíma bárust um 7.400 umsóknir um greiðslu slíkra bóta. Ekki er haldið utan um tölfræði umsóknanna með þeim hætti að hægt sé að tilgreina um hvaða tegund umsóknar sé að ræða en hins vegar má ætla að um helmingur umsókna sem berast bótanefnd í dag sé vegna kynferðisbrota og heimilisofbeldis.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Gísla Rafns Ólafssonar, þingmanns Pírata. Greiðslur bóta til þolenda afbrota úr ríkissjóði byggja á lögum þar um frá árinu 1995. Í lögunum er tilgreint að greiddar séu bætur vegna tjóns er leiði af broti gegn almennum hegningarlögum og eru þar nefnd líkamstjón, tjón á persónulegum munum og bætur vegna miska. Frá bótafjárhæð dragast þó greiðslur sem fólk fær frá þeim sem brotið hefur gegn þeim auk greiðslna frá almannatryggingum, vátryggingum, launagreiðslum í veikindum og lífeyrisgreiðslum.
Ríkissjóður krefur síðan þá sem ollu tjóninu og endurgreiðslu þess sem greitt var þolendum þeirra. Ekki er til tölfræði um heimtur ríkissjóðs af því. Hins vegar eru nú útistandandi um 800 milljónir króna í kröfur á brotamenn. Mun innheimta alla jafna gagna treglega og ætlað er að lágt hlutfall greiddra bóta endurheimtist, samkvæmt svari ráðherrans.
Á umræddu árabili, frá 2003 hafa upphæðir farið hækkandi, þó ekki með línulegum hætti. Árið 2003 voru útgreiddar bætur rúmar 46 milljónir króna á verðlagi þess árs en á síðasta ári var sú upphæð rúmar 197 milljónir króna og hefur aldrei verið hærri. Það sem af er ári hafa verið greiddar rúmar 101 milljón króna í bætur til þolenda ofbeldis úr ríkissjóði.
Athugasemdir