Ég gerði það sem er óhugsandi. Þegar sumir Íslendingar fréttu að ég ætlaði að gera þetta voru þeir hissa, ringlaðir og áhyggjufullir. Þeir hleyptu brúnum og lækkuðu vantrúaðir röddina.
Ég fór til Úkraínu.
Jamm. Í miðju stríði á meðan skotið er á borgir í austur- og suðurhluta landsins og fólk er drepið og sært á hverjum degi.
Hugsanir mínar núna eru sundurlausar. Ekki að ég hugsi alltaf rökrétt en ég tók mér hlé frá skriftum og finnst ég hafa ryðgað.
Þessi pistill er um þegar besta vinkona mín kallaði mig „föðurlandssvikara“, að ég sá aðra vinkonu næstum deyja, ég hataði íbúðina mína í Kænugarði, og þegar ég ældi næstum í strætó, fór fótgangandi yfir landamærin, sá foreldra mína, komst að því að ég er ekki með brjóstakrabbamein, og það sem var þýðingarmest af öllu, hvernig sektartilfinningin er að éta mig að innan.
Hafið vasaklúta við höndina.
Eða tómata.
Eða hvort tveggja.
Þegar ég kom til Íslands í lok maí hélt ég að ég yrði um kyrrt í kannski tvo mánuði. Bara sko Tania, vera þar, reyna að finna strax vinnu til að vera ekki byrði á samfélaginu, sjá til hvað gerist í Úkraínu, stríðinu gæti lokið fyrr en varir og þá geturðu farið heim.
Ég vissi ekki þá að Ísland væri svona indælt og að ég gæti keypt bragðbestu steinlausu vínber í heimi í Bónus. Ég vissi ekki um tilvist vínarbrauðs og vissi ekki að útsýnið til sjávar frá miðbænum hefði svona mikið aðdráttarafl. Ég bjóst heldur ekki við að hitta svona margt gott fólk. Og ég vissi ekki að skattkerfið væri svo áhugavert að ég myndi líta á það sem áskorun að skilja hvernig það virkar. (Ég vona að þú hafir tekið eftir kaldhæðninni í þessu síðasta.)
Ég var búin að búa á Íslandi í þrjá mánuði sem er lengsti tími sem ég hef búið í útlöndum. Ég get ekki sagt að ég hafi saknað Úkraínu (tómatar) en ég saknaði fólksins (vasaklútur) — foreldra minna, vina, nemenda og starfsfélaga. Þau biðu eftir mér. Meira að segja pabbi sem er ætíð sparsamur á orðin og nískur á tilfinningar spurði mig sífellt hvenær ég kæmi. Í hvert sinn sem ég hringdi var hann fyrstur að grípa símann og svara með Halló, og minnti mig á gleyma ekki að hafa meðferðis eintakið af Stundinni með myndinni af mér. Svo stoltur af dóttur sinni þó hann láti yfirleitt gagnrýnina rigna yfir það sem ég skrifa.
Ég sagði við foreldra mína að ég kæmi eftir tvo mánuði. Ég er afskaplega stundvís þannig að þegar ég var búin að vera nærri þrjá mánuði á Íslandi fyllti ég ferðatöskuna mína með íslenskum vöfflum, súkkulaði og sælgæti, læsti íbúðinni minni og fór til Keflavíkur.
Brottför mín bar upp á Menningarnótt í Reykjavík og það mildaði óþægilegu tilfinninguna sem ég hafði af að yfirgefa borgina. Ég verð pirruð í fólksmergð og ég reyni að forðast slíkar aðstæður. Íslensk vinkona mín hafði boðist til að keyra mig á flugvöllinn og beið eftir mér í bílnum sínum. Meðan á ökuferðinni stóð töluðum við um úkraínsku dagskrána í Ráðhúsinu og augu mín hvörfluðu um landslagið og ég íhugaði tilfinningar mínar. Ég vildi ekki fara. Mér leið vel hérna og ég fylltist kvíða yfir að fara héðan. En ég reyndi að hafa stjórn á röddinni og látbragði mínu — ég vil ekki vera kveif og láta hughreysta mig. Ég lít á það sem mitt hlutverk að hughreysta aðra og er ekki vön því gagnstæða.
Við fórum út úr bílnum og föðmuðumst. Það var hífandi rok þennan dag og ég flýtti mér inn í flugstöðina með stærðar súkkulaði á hjólum (ferðatöskuna). Ég lenti í Wrocław klukkan þrjú að morgni að staðartíma. Ég var í fjórum lögum af fatnaði og hlýtt regn pólsku sumarnæturinnar var hálfgert áfall eftir þrjá mánuði á Íslandi. Ég fór úr þeim fatnaði sem ég gat og fór út að ná næturstrætó.
Ég náði honum ekki.
Strætóinn rann af stað nokkrum sekúndum áður en ég náði á stoppistöðina. Þegar ég sá að hann var að leggja af stað hljóp ég til að reyna að ná honum, með ferðatöskuna í eftirdragi. Ég náði beinlínis að snerta á honum afturendann … en sennilega hefur hann móðgast og spændi burt. Bölvandi og gegndrepa í rigningunni sneri ég aftur á flugvöllinn til að bíða eftir næsta strætó sem væntanlegur var eftir klukkutíma.
Eftir að hafa skipt tvisvar um strætó kom ég tveimur tímum síðar til lestarstöðvarinnar í Wrocław og náði rétt mátulega til að ná lestinni til Kraków.
Ég keypti miða og fór á brautarpallinn. Lestarvagninn var þegar hálffullur af fólki þótt þetta væri mjög snemma morguns. Ég fékk mér sæti og sofnaði nærri samstundis. Um fjörutíu mínútum seinna vaknaði ég við að kona var að setjast í sætið við hlið mér. Hún var úkraínsk, ég heyrði hana muldra eitthvað á tungumáli okkar. Þegar lestin lagði af stað og jók hraðann fórum við framhjá kirkju sem stóð við eina götuna og konan krossaði sig. (Já, trúað fólk í Úkraínu signir sig í hvert sinn sem það sér kirkju.)
„Viltu kannski setjast annars staðar? Það er nóg af sætum,“ spurði ég konuna. Mig langaði mjög til að sofa og það væri líka þægilegra fyrir hana að sofa án þess að hafa einhvern í sætinu við hliðina.
„Nei, það vil ég ekki,“ svaraði hún og sneri sér undan.
Ég andvarpaði. Af hverju er ég alltaf að stinga upp á einhverju sem kemur öðrum líka vel? Svo stóð ég upp og færði mig í sæti með auðum sætum í kring. Meðan ég var að sofna aftur velti ég fyrir mér hinni eilífu og eiginlega heimspekilegu spurningu: Af hverju vilja miðasölur alltaf troða fólki saman ef það er nóg pláss í lestarvagninum?
Ég var komin til landamærabæjarins Przemyśl um hádegi. Það var steikjandi hiti og ég horfði öfundaraugum á fólk í stuttbuxum. Ég hefði verið til í að skipta á súkkulaði eða vöfflum fyrir betur viðeigandi klæðnað. En foreldrar mínir eru sólgnir í súkkulaði og eins og áður kom fram þá er mér ekki fisjað saman.
Ég spurði sjálfboðaliða hver væri fljótlegasta leiðin til að komast inn í Úkraínu. Svarið var að næsta lest þangað færi eftir fjóra tíma en ég gæti farið með rútu til landamæranna þar sem ég gæti hreinlega farið fótgangandi yfir þau.
Ég hugsaði með mér, „Hm, ég hef aldrei gengið yfir landamærin“. Og þar sem mér finnst gaman að upplifa eitthvað nýtt var ég fljótlega komin um borð í sjóðheita og rykuga smárútu sem flutti mig og fáeina aðra Úkraínumenn til landamæranna (kaldhæðni örlaganna sá til þess að sessunautur minn úr lestinni var líka með). Eftir á að hyggja var það ekki svo mikið að mér finnist gaman að upplifa eitthvað nýtt heldur hefur hitinn haft þessi áhrif á höfuðið á mér.
Ég var komin þangað eftir tuttugu mínútur. „Eltu okkur bara,“ sögðu þau og ég gerði það. Eftir löngum gangi, sem lá að landamærastöð, þar sem voru lífræn klósett og tjöld með sjálfboðaliðum sem buðu bæði fullar og tómar vatnsflöskur. Ferðataskan virtist vera þyngri en áður enda hafði ysta lag hennar blotnað í rigningunni. Hitinn var ofboðslegur og líkami minn rifjaði upp hvernig á að svitna.
En það var við landamærastöðina sem ég fylltist ofsahræðslu.
Hvað ef þeir hleypa mér ekki aftur yfir? Hvað ef ég fer yfir landamærin núna og get ekki komist til baka?
Mér var funheitt en fann ískaldan ótta læsast um mig.
Kemst ég aftur til Íslands?
Þú spyrð ef til vill hvers vegna ég hélt að það yrði vandamál.
Jú, því fyrir stríðið vorum við, Úkraínumenn, eingöngu með leyfi til að dvelja níutíu daga í Evrópu. Ef við vorum lengur varð verulega erfitt fyrir okkur að fá að fara aftur til Evrópu. Á þessu ári hef ég verið þrjár vikur í Evrópusambandslöndum og næstum þrjá mánuði á Íslandi. Þegar ég fór frá Póllandi til Íslands fékk ég ekki enga stimpla sem sýna að ég hafi farið frá Evrópusambandslandi sem þýðir að ég fór langt yfir tímatakmörkin. Og trúið mér, landamæraverðir athuga stimpla í vegabréfum. Þegar ég áttaði mig á þessu, standandi í röð fólks sem beið eftir að komast inn í Úkraínu, fór ég alvarlega að hugsa um að hætta við.
En ég hafði ýmislegt á prjónunum.
Pabbi beið eftir blaðinu sem ég hafði reyndar gleymt.
Mamma var held ég örugglega byrjuð að elda eitthvað gott handa mér.
Súkkulaðið var að bráðna í ferðatöskunni.
Og ég endurtek — mér er ekki fisjað saman. (Ég lofa að hætta að tönnlast á þessu.)
Svo ég brosti og rétti vegabréfið fram.
Þá voru enn tvöhundruð metrar eftir þar sem ég þurfti að draga á eftir mér ferðatöskuna, ein landamærastöð enn, þar sem landamæravörðurinn var ekkert alltof vinsamlegur, og ég var komin.
Heim.
Úkraína.
Fólk. bílar. Strætóar. Flugur. Hljóð. Hróp og köll. Höfuðverkur.
Karlmaður bauð mér far til Lviv. Hann tók töskuna mína og setti hana á skítugt gólfið á smárútunni sinni. Ég skrapp í nærliggjandi verslun og keypti mér vatn. Það suðaði í höfðinu á mér og líkaminn gekk í bylgjum eins og ég væri enn í lestinni.
Ég settist milli tveggja kvenna. Það var ekki pláss fyrir bakpokann minn svo ég hafði hann í fanginu. Engin loftræsting, eina loftið sem kom inn var gegnum opinn bílstjóragluggann. Bílinn var gamall og lyktin úr honum var blönduð ryki og bensínstybbu. Mér varð flökurt við tilhugsunina um tveggja tíma akstur til Lviv.
Ég man ekki hvort ég sagði ykkur frá því en síðan ég hætti að drekka áfengi fyrir sex árum síðan verður mér eingöngu óglatt þegar ég er í bíl sem lyktar nákvæmlega eins og sá sem ég sat í þarna.
Þar sem ég sat föst milli tveggja kvenna sá ég ekki fram á að geta beðið bílstjórann með engum fyrirvara að stoppa bílinn til þess að ég komist út svo hinir farþegarnir sjái mig ekki verða mér til skammar.
En ég er ekki …, ég er sterk kona og eftir tveggja tíma baráttu við sjálfa mig steig ég út úr farartækinu í Lviv.
Ég ætlaði að dvelja sjö daga uppi í fjöllum. Ég vildi hreinlega ekki fara til stórborgar eins og Kænugarðs. Í fyrsta lagi gæti það verið mjög hættulegt. Í öðru lagi vildi ég fyrst aðlagast rólegri takti í Úkraínu.
Ég hafði mælt mér mót við kennarana mína (stelpur sem unnu með mér) og nemendur okkar. Þetta eru hefðbundnar sumarbúðir sem við starfrækjum ár hvert uppi í fjöllum. Teymið mitt, nemendur okkar og þeir sem eru í búðunum, stundum einhverjir foreldrar eða aðrir fjölskyldumeðlimir. Þetta gerum við sama hvað. Hm, listinn yfir ‘sama hvað’ er mjög stuttur — Covid og núna stríðið.
Næsta ár verður það líklega innrás úr geimnum.
Frá Lviv tók ég lest til litla fjallaþorpsins þar sem ég myndi gista næstu átta nætur. Eftir tveggja stunda lestarferð kom ég til Slavsk. Þú getur gúglað það til að fræðast meira um úkraínsku Karpatafjöllin. Ekki sérlega merkilegt en fjöllin eru falleg. Ég tók leigubíl, stærðar Outlander (einu bílarnir þar), og fór á hótel. Þótt ég væri dauðþreytt skildi ég dótið mitt eftir og fór í miðbæinn.
Þú getur ekki giskað á af hverju.
Nú, mig langaði í salat.
Já, eitt af því sem ég sakna mjög þegar ég er á Íslandi er grænmeti. Það er auðvitað alveg hægt að fara í matvörubúð og kaupa allt þar, en ég er þvílík grænmetisæta að ég yrði að hafa milljón á mánuði til að hafa efni á að kaupa allt það grænmeti sem mig langar í.
Ég fór á þekktasta kaffihús staðarins og pantaði salat. Og svo annað. Síðan glas af tómatsafa. Svo annað. Svo breytti ég út af vananum og pantaði crepes með eplum.
Síðan sofnaði ég þar sem ég sat.
Meðan ég svaf reis líkami minn á fætur og fór með mig í búðina þar sem ég keypti kíló af ferskjum og fór síðan með mig á hótelið þar sem ég svaf værum svefni. Eftir að ég hafði étið allar ferskjurnar.
Næsta morgun vaknaði ég fersk eins og ferskjurnar sem ég hafði étið deginum áður. Syngjandi og dansandi, brosandi til allra sem ég mætti á leiðinni á lestarstöðina til að taka á móti nemendum mínum og kennurunum.
Ég varð æ spenntari eftir því sem ég nálgaðist lestarstöðina. Ég hafði ekki séð kennarana í ár. Og ég myndi sjá systurdóttur mína og systurson sem ég hafði ekki séð í þrjá mánuði.
Hálsinn herptist og kinnar mínar skulfu og komu upp um geðshræringu mína. Ég vildi alls ekki að þau sæju mig gráta og vonaði að þau færu heldur ekki að skæla.
Lestin var sein. Ég stikaði óþolinmóð fram og til baka á brautarpallinum. Ég sendi systurdóttur minni sms og bað hana um að senda mér staðsetningu þeirra. Hún gerði það. Ég opnaði skilaboðin og sá að samkvæmt landfræðilegu staðsetningunni sem hún sendi voru þau einhverstaðar í Afríku.
Ég fór að tala við fólk á brautarpallinum. Ég tala stundum of mikið.
Lest.
Ég hljóp að farþegavagninum þar sem ég vissi að minn hópur væri. Ég var með gleraugun á mér svo að enginn sæi að ég væri kveif eftir allt saman og væri grátandi (já já, ég stend ekki alltaf við loforð).
Dyr að gömlum svefnvagni opnuðust og krakkar stukku út með bakpokana sína og ferðatöskurnar.
Ég faðmaði nokkur þeirra og tók eftir hvað þau höfðu stækkað mikið á einu ári, strauk öðrum og greip ferðatöskur til að flýta fyrir þeim sem enn áttu eftir að komast út úr vagninum.
Síðust var kennari, Marina. Hún varð að fylgjast með því að enginn yrði eftir í lestinni.
Ég sneri mér að frænku minni. Við erum mjög nánar og ég faðmaði hana fast og innilega. Ég sagði ekki orð. Ég var of hrædd um að bresta í grát ef ég opnaði munninn.
Ég faðmaði frænda minn og svo Marinu, svo Alinu sem er annar kennari. Svo hvern einasta krakka í hópnum.
Til útskýringar: Ég rek sumarbúðir fyrir börn í Úkraínu. Fyrir stríð var stór hluti af lífi mínu að vera með búðirnar, skipuleggja og fara í ferðir með börnin. Sum þeirra hef ég þekkt árum saman og mér finnst eins og þau séu fjölskylda mín. Mér finnst reyndar eins og við séum öll ein fjölskylda — krakkarnir og kennararnir.
Þannig að hitta þau í sumar, fara með þau burt frá Kænugarði á öruggari slóðir, ekki breyta út frá vananum og ekki láta rússa eyðileggja fyrir okkur, var mjög mikilvægt en líka töluverð áskorun í ljósi aðstæðna.
Þrír leigubílar fluttu okkur á hótelið þeirra. Ég gisti á öðru íburðarminna hóteli, því ég hafði bókað öll laus herbergi fyrir krakkana og kennarana. (Jamm, ég vaknaði fyrr á hverjum morgni og gekk til hótelsins, sem tók tuttugu mínútur, og á kvöldin var ég ekki komin til baka fyrr en allir voru sofnaðir. En ég hafði ekkert á móti þessari auka líkamsrækt.) Við borðuðum hádegisverð og meðan krakkarnir voru í sundlauginni vorum við kennararnir að skipuleggja viðburði fyrir þau.
Sjö dagar liðu sem einn. Ég heyrði bara einu sinni í loftvarnarflautum. Það eru nokkrar loftvarnarflautur á þessu svæði en við vissum eingöngu um tilvist þeirra út af appi. (Það er búið að þróa sérstakt forrit til að vara fólk við mögulegri loftárás.)
Eftir viku af ævintýrum þar sem viðhorf krakkanna til mín sveifluðust milli þess að dá mig og dýrka yfir í hatur (sem fór eftir því hvað fjöllin sem við klifum vorum há) fórum við til Kænugarðs.
Heimaborgar minnar.
Ég vildi eiginlega ekki fara þangað. Svo skoðaði ég hug minn vandlega og talaði hreinskilningslega við sjálfa mig. Mig langaði að sjá foreldra mína sem ég hafði ítrekað beðið um að koma upp í fjöll til mín en þau neituðu vegna þess að þau eiga erfitt með að ferðast. Mig langaði að sjá vini mína. Svo þurfti ég líka að losna við súkkulaðið. En mig langaði ekki í skarkalann í milljónaborg.
Mig vildi ‘ekkert stress’ eins og á Íslandi. En ég bjó mig undir ‘mikið stress’ í Kænugarði.
Ég elska borgina samt. Miðborgin er dásamlega falleg. Garðarnir eru magnaðir. Huldir sjónum eru bakgarðar sem eru stemning ríkir og dularfullir. Það sem þar ber fyrir augu er mikilfenglegt … Ég er orðin uppiskroppa með lýsingarorð svo ég læt staðar numið.
Það er bara það að Kænugarður er hluti af því sem ég var ekki enn tilbúin að horfast í augu við — eða ekki strax.
Systir mín og mágur tóku á móti okkur á lestarstöðinni.
„Halló,“ sagði hún. „Ekki …“ hún lyfti hendinni til að stoppa mig þegar ég ætlaði faðma hana.
Ég stoppaði, ringluð. Er systir mín ekki ánægð að sjá mig? Eða hvað?
Maðurinn hennar var hins vegar kátur að sjá mig og knúsaði mig.
Við fórum að bílnum þeirra sem var lagt fyrir utan. Ég velti ekkert fyrir mér hvernig mér þætti að vera loksins komin aftur til Kænugarðs því ég var algjörlega ráðvillt vegna þess hvernig systir mín brást við þegar ég hitti hana.
Hvað í ósköpunum var að gerast?
Hún er eldri en ég og ég ákvað að beita sama bragði og ég notaði þegar við vorum börn — vera þögul og stillt eins og mús.
Hún ók bílnum. Krakkarnir, systrabörn mín, skynjuðu skap mömmu sinnar eða bragðvísi mína og sátu líka þögul. Maðurinn hennar var einn um að tala og var hávær og kátur eins og til að draga úr spennunni.
„Af hverju varstu svona lengi þarna?“ spurði hún fyrir rest.
Ég bjóst ekki við að það yrði tekið gilt ef ég segði „vegna stríðsins“ svo ég svaraði: „Mér líkaði vel að vera þar.“ Við töluðum smávegis eftir það en mér fannst samt eitthvað skrýtið. Hvað það var útskýri ég síðar.
Þegar við komum að húsinu þar sem ég bý hjálpaði mágur minn mér upp með farangurinn og þegar hann fór varð ég ein eftir.
Ég stóð í ganginum í smástund, heyrði hljóðin, fann lyktina og hlustaði á sjálfa mig.
„Mig langar að fara heim“, hugsaði ég.
En þú ert heima, Tania, hvað áttu við?
Mig langar að fara heim, til Reykjavíkur.
Ég horfði á veggi heimilis míns í Kænugarði og fann nánast til fjandskapar gagnvart þeim. Mig langaði að loka augunum og þegar ég opnaði þau væri ég komin aftur til Íslands.
Ég er svo fegin að enginn heyrði hugsanir mínar þarna. Ef mamma til dæmis hefði heyrt þær kæmist hún í mikið uppnám og héldi að hún væri að missa mig.
Þegar ég var í Karpatafjöllum var eitt það fyrsta sem systursonur minn spurði mig að: „Ætlarðu alltaf að vera á Íslandi?“ Seinna sagði hann mér að hann óttaðist það.
Klukkan var um tíu að kvöldi en ég byrjaði að þrífa til að dreifa huganum.
Síðan ég keypti íbúðina hef ég verið að gera hana upp því hún var í mjög lélegu ástandi og þess vegna brutum við niður alla veggina nema einn. Þannig að eftir að hafa verið í gríðarlegum þægindum í Reykjavík var ég nú í íbúð þar sem aðeins var að finna rúm, ísskáp og sturtu. Allt annað sem tilheyrði mínu fyrra lífi var í kössum sem var staflað upp í pýramída á gólfinu.
Dauf rödd í höfðinu á mér hélt áfram að tauta að hún vildi fara heim þegar ég loksins gekk til náða á heimili mínu í Kænugarði þetta kvöld.
Næsta morgun vaknaði ég snemma. Ég veit ekki nákvæmlega hvað vakti mig. Kannski var það páfugl.
Páfugl?
Jamm.
Það eru fjórir páfuglar sem ganga lausir í garðinum mínum frá vori og fram á haust. Ókunnugt fólk sem á leið hjá sem kemur auga á þá rekur yfirleitt í rogastans og tekur af þeim myndir. Það er ekki eins og það séu páfuglar í hverjum garði í borginni. Reyndar halda þeir bara til í mínum garði. Við deilum garðinum með einbýlishúsaeiganda sem á fuglana. Auk framandi páfugla heldur hann perluhænsn og venjulegar hænur og hana.
Fuglarnir gefa frá sér sérkennileg hljóð sem geta skotið fólki skelk í bringu ef það veit ekki af þeim. Þau sem eru vön hljóðunum kippa sér ekki upp við þau. En maður vaknar oft á nóttunni þegar fuglarnir syngja ástarsöngva sína.
Þar sem ég hafði ekkert sérstakt að gera fór ég út að skoða borgina. Hefur hún breyst á þessum þremur mánuðum? Ég hafði séð hana í byrjun stríðsins — í febrúarlok og marsbyrjun þegar hún var yfirgefin og leit út eins og eftir ragnarök. Ég sá hana aftur þegar ástandið var ögn rólegra og þó var enn færra fólk um miðjan apríl. Og síðan um miðjan maí áður en ég fór til Íslands. Þá fóru loftvarnarflautur í gang nokkrum sinnum á dag, mikið var af hermönnum á götunum en fátt fólk og bílar.
Ég fór sem sagt út og stefndi á miðborgina. Það var orðið heitt þótt enn væri morgunn. Og ef ég hefði af einhverjum ástæðum ekki vitað að það geisaði stríð í Úkraínu þá hefði ég aldrei giskað á það þarna. Allt var í fullum gangi. Fólk að drekka cappuccinoið sitt á leiðinni hvert sem það var nú að fara. Bílflautur þeyttar, mikil umferð. Útikaffihús, búðir — allt er opið.
Það lítur út fyrir að Kænugarður sé orðin samur og áður.
Ég fór í uppáhalds ísbúðina mína. Afgreiðslumaðurinn kannaðist við mig og spurði hvar ég hefði haldið mig allan þennan tíma.
Á Íslandi.
Hann varð hissa á svip.
Tuttugu mínútum síðar var ég komin á uppáhalds kaffihúsið mitt. Ég mæli með að fara þangað. Þar fæst besta kaffið í Úkraínu og ég held að kaffibarþjónninn sé skotinn í bestu vinkonu minni (sem seinna kallaði mig föðurlandssvikara).
Ég pantaði espresso með flóaðri mjólk án froðu. Síðan cappuccino.
Systir mín hringdi og sagðist vera til í að hitta mig seinna um kvöldið. Ég var glöð að heyra það. Mér leið eins og mér hefði verið fyrirgefið og tekin í sátt. Svo að ég sendi skilaboð til þriggja nánustu vina minna og bauð þeim með.
Á leiðinni á hittinginn ákvað ég að mig vantaði kjól. Sumarið, samkvæmt almanakinu, var næstum búið og ég hafði ekki farið í kjól eitt einasta skipti. Svo ég fer inn í næstu búð og skoða kjóla. Vel einn úr efni sem er þægilegt viðkomu og fer í mátunarklefann.
Ég fer ekki úr honum aftur, bið bara afgreiðslukonuna um að taka merkið af. Ég set stuttbuxurnar og stuttermabolinn sem ég var í ofan í töskuna mína, borga og fer.
Það er svo notalegt að vera í kjól. Svo einfalt. Kjóllinn er stuttur og skyndilega fer ég að velta fyrir mér hvort ég hvenær ég hafi síðast fjarlægt hárin af fótleggjunum. Ég lít niður og þeir líta ágætlega út …
Fimm mínútum síðar sé ég systur mína og fjölskyldu hennar. Ég held að þegar foreldrar mínir deyja (sem vonandi gerist ekki fyrr en í fjarlægri framtíð) verði systir mín höfuð fjölskyldunnar. Við lítum öll upp til hennar, hlustum á hana og gerum eins og hún segir.
Kemur í ljós að henni líst ekki á kaffihúsið sem ég valdi og við förum annað. Ég er alveg sátt við það. Ég er ánægð að vera með fjölskyldu minni, að spjalla við þau, og svo er ég í nýjum kjól og það stuðlar á einhvern hátt að jafnaðargeði mínu.
Við pöntum sushi. Við borðum og njótum stundarinnar. Einn vina minna kemur. Hann er karlmaður svo ég spyr hann hvernig honum lítist á kjólinn minn. Honum virðist standa á sama.
Svo loksins eftir að við höfðum gefið upp vonina kemur Yulia besta vinkona mín ásamt Iru systur sinni.
Stemningin er góð. Þau þekkjast öll vel. Engin spenna í loftinu. Við erum öll afslöppuð. Maturinn er góður. Sólin er að setjast og síðustu sólargeislarnir varpa gylltum bjarma á allt.
Þá sný ég mér að Iru sem situr við hliðina á mér og ég sé að hún er eitthvað skrýtin. Hún veifar hendinni eins og hún ætli að segja eitthvað en tekst það ekki. Hin höndin er við brjóstið. Við horfum öll skilningsvana á hana.
Svo átta ég mig á að það stendur í henni. Ég sit næst henni en mér dettur ekki í hug að þetta sé alvarlegt. Ég slæ smávegis á bakið á henni og vona að þá hætti hún að hósta. Skyndilega sprettur hún á fætur og hvæsandi soghljóð heyrist þegar hún reynir að anda. Nú er ég orðin áhyggjufull og stend líka upp og byrja að berja á bakið á henni.
Hún getur ekki andað. Ég sé að hún verður fjólublá í framan og augun eru uppglennt af ótta. Hljóðið þegar hún reynir að anda er hærra en áður og hún baðar út handleggjunum eins og til að segja okkur eitthvað. Vinur minn stekkur til hennar. Mágur minn er líka kominn og grípur um Iru aftan frá og ýtir á hana með líkamanum til að reyna að fá hana til að hósta upp því sem er fast í barkanum á henni.
Það kemur ekki að gagni. Hún er að kafna. Fólkið við hin borðin starir allt á okkur. Þjónarnir líka. Ég horfi á eins og þetta sé bíómynd. Systir Iru og systir mín og krakkarnir eru öll við borðið. Þau líta út fyrir að vera hrædd. Mér fannst ég meira að segja sjá forviða bros.
Eins og úr fjarska heyrði ég sjálfa mig æpa: Hringið á sjúkrabíl! Hringið strax á sjúkrabíl!
Þjónninn horfir á mig og gerir ekkert.
NÚNA! Æpi ég og sé að hann grípur síma.
Á vissan hátt er ég hissa á að heyra rödd mína áður en ég náði að skipa heilanum að tala.
Ira er komin á fjóra fætur. Hún berst við að anda en getur það ekki! Ég get ekki hjálpað henni! Ég hugsa með hryllingi að hún sé að deyja. Þetta er ekki það sem ég vildi! Ég vildi eiga notalegan kvöldverð, ég bauð öllum, ég vildi að allir væru saddir og sælir, en ekki sorgmæddir við jarðarför.
Kona af einu borðinu er nú komin og gerir eitthvað við Iru. Hrísgrjón hóstast upp úr henni og á gólfið.
Er þetta allt og sumt?
Ira, er í lagi með þig? Er í lagi með þig?
Hún snýr höfðinu að mér. Augun eru full af tárum, maskararendur á kinnunum. Hún getur ekki talað en nær að kinka kolli.
Guð. Ég var svo fegin. Jarðaförinni er aflýst. Ég faðmaði hana. Ég held að ég hafi þurft meira á faðmlaginu að halda en hún.
Við afpöntuðum sjúkrabílinn.
Ira fór á klósettið.
Ég skalf. Við skulfum öll.
Við sátum öll kringum borðið og töluðum saman. Við vorum frekar fljót að jafna okkur og fórum að hlæja. En ég tók eftir að við vorum öll hrædd og hláturinn var til að forðast að hugsa um hvað hefði getað gerst.
Ira kom aftur að borðinu og sat hljóð og dreypti á vatni.
Ég hélt áfram þar sem frá var horfið í frásögn minni — um Ísland. Hvað ég var dolfallinn yfir fegurðinni, kerfinu, fólkinu og náttúrunni. Ég sá að hinum leiddist mikið að hlusta á sögurnar mínar en þótt ég sæi það gat ég ekki hætt. Mér fannst það betra en tala um að Ira var næstum dáin.
Þegar hittingnum lauk átti ég eftir klukkutíma gang heim. Það er útgöngubann í Kænugarði og allir eiga að vera komnir heim fyrir ellefu á kvöldin.
Næsta morgun vaknaði ég klukkan sex við loftvarnarflautur. Hljóðinu er ætlað að skera gegnum merg og bein og þarna var ég liggjandi í rúminu mínu undir sænginni minni og reyndi að útiloka hljóðið.
Þennan dag ætlaði ég loksins að heimsækja foreldra mína. Samgöngukerfið í Úkraínu er þannig að þú þarft að fara fyrst til einhvers stórs bæjar eða borgar og þar fyrst geturðu tekið strætó til smærri bæjar eða þorps. Ég man í rauninni ekki hvað ég gerði þennan dag. Ég veit hreinlega ekki hvað manneskja getur gert í íbúð þar sem er ekkert nema klósett, sturta og rúm (eins og í mínu tilfelli) en einhvern veginn tókst mér að verja deginum inni.
Ég var eins og asni að skoða í alla kassana sem lífi mínu hafði verið pakkað í. Kassar þekja meirihluta stofugólfsins. Hvað var þarna? Allskonar. Ég kom eingöngu til Íslands með einn bakpoka og eina litla 10 kílóa Wizz air-væna ferðatösku. Og mér hafði liðið alveg prýðilega í tvo mánuði með þann fatnað sem komst fyrir í farangrinum. En auðvitað byrjaði ég að bæta við mig fötum á Íslandi — mér tókst einhvern veginn að eignast fjóra jakka, þrenn skópör, sæng og kodda, tvö handklæði og meira að segja fínan jakka (vinsamlega einhver bjóði mér út svo ég geti loksins notað hann).
Gera þessir kassar mig hamingjusama? Þarf ég í rauninni á þessum hlutum að halda? Ég velti fyrir mér skynseminni í því að vera með allt þetta dót í lífi mínu og af hverju ég er ekki komin í hamingjusamt hjónaband (ég er farin að halda að þarna sé samband á milli) og áttaði mig á að það var komið kvöld.
Ég greip bakpokann með öllu súkkulaðinu og því sem ég keypti handa foreldrum mínum og hljóp út. Á leiðinni á lestarstöðina sá ég þrjá páfugla og konu taka af þeim mynd. Það tók mig fimm mínútur að ná á stöðina og fjörutíu mínútur með lestinni að komast á strætóstoppistöðina. Það var þá sem kom í ljós að síðasti strætó var farinn.
Ég komst í uppnám og varð reið út í sjálfa mig. Reið vegna þess að 36 ára gömul kona ætti að vera búin að eignast bíl og hafa lært almennilega að keyra. En það er eins og það er. Þegar þú býrð í borg eins og Kænugarði þar sem auðvelt er að taka lest eða ganga og strætó gengur til allra bæja og þorpa sama hve smárra, finnst þér ekki nauðsynlegt að læra að keyra.
Sumir myndu segja að einkabíllinn spilli fólki en ég held því fram að lestarkerfið spilli manni!
Spillt, í uppnámi og reið, fór ég heim aftur.
Ég komst loksins til heimabæjar foreldra minna síðdegis næsta dag. Mamma tók á móti mér á stoppistöðinni. Ég hafði ekki séð hana í þrjá mánuði. Þegar ég faðmaði hana fann ég lykt af frönskum kartöflum og vissi nákvæmlega hvað ég fengi að borða. Pabbi beið eftir mér í litlum garði við húsið okkar. Ég faðmaði hann líka. Ég reyndi að segja brandara til þess að brotna ekki í þúsund vanlíðunarmola. Heima. Mamma og pabbi. Hljóðin og lyktin. Hundurinn sem skoppaði og gelti glaðlega í afgirtum reit.
Eftir að við borðuðum franskar og salat með grænmeti úr garði foreldra minna drukkum við kaffi og borðum að lokum vöfflur sem höfðu ferðast alla leið frá Íslandi til Úkraínu.
Svo virðist sem mömmu minni og pabba finnist lakkrís góður. Eða þau elska mig of mikið til að segja annað. Þetta var notaleg og róleg stund sem við áttum saman og ég naut þess meira að segja að hlusta á þau rífast linnulaust …
Kvöldið eftir var ég komin til Kænugarðs. Ég varð að gera mig tilbúna fyrir næstu ferð. Ég mér tókst samt að finna tíma til að hitta Yuliu bestu vinkonu mína í kaffi.
Hún er besta vinkona mín en ég get ekki sagt að vinskapurinn sé upp á það besta núna. Það er eins yfir okkur hangi ósögð orð. Það er sama tilfinning og ég fékk þegar ég hitti systur mína fyrsta kvöldið í Kænugarði og hún lét eins og ég væri bláókunnug manneskja en ekki eina systirin sem hún á. Sama beiska tilfinningin sem ég fæ eftir að hafa talað við sumt af því fólki sem var um kyrrt í stað þess að yfirgefa landið …
Ég vil ekki hafa eitthvað hangandi yfir mér nema það sé aðlaðandi karlmaður svo ég reyni að finna út hvað er að. Við tölum um stríðið í Úkraínu. Um Ísland og líf mitt þar. Um Kænugarð og líf Yuliu þar. Um fólk sem fór burt eins og ég. Um þau sem hafa þegar snúið heim og þau sem hafa ekki komið aftur.
Og þarna skynja ég spennu. En mér tekst ekki að létta á henni núna. Ég hef ekki tíma fyrir misskilning og óútskýrð mál — við gætum hvenær sem er dáið, ef ekki af völdum rússneskrar eldflaugar þá kafnað á sushi hrísgrjónum.
Þetta var erfitt samtal. Það versnaði enn þegar vinkona mín sagði að öll þau sem fóru frá Úkraínu væru föðurlandssvikarar. Ég spurði hana hvort henni finnist ég líka vera föðurlandssvikari. Hún forðaðist að svara beint og leit undan. Ég get ekki álasað henni. Hún sagði bara það sem mér finnst um sjálfa mig.
Ég er föðurlandssvikari.
Allar þessar hugsanir sem veltust um í höfðinu á mér og ég vildi ekki hugsa og ýtti burt með því að einbeita mér að vinnu og öllu því sem ég var að gera á Íslandi. Öll samtölin við vini mína þar sem þau sögðu það ekki beint en gáfu það í skyn. Furðuleg hegðun systur minnar. Ekki beinlínis vinsamleg viðbrögð þeirra sem komust að því að ég var ekki í Úkraínu heldur annarstaðar. Hrokafullt augnaráð sem við sem fórum fengum frá þeim sem aldrei yfirgáfu landið.
Loksins skildi ég þetta. Þetta leit ekki vel út — ég yfirgaf föðurland mitt á neyðarstund og fór annað í leit að betra lífi.
Ég er föðurlandssvikari. Tækifærissinni. Manneskja sem hefur hvorki prinsipp né siðferðiskennd.
Það sem Júlía sagði hafði reyndar verið að naga mig. Í fyrsta lagi, þarf ég nokkuð að vera utanlands nú þegar víglínan er langt í austur og suður frá Kænugarði? Verður borgin aftur skotmark? Eða er ég með veru minni á Íslandi bara að taka pláss frá einhverjum öðrum, einhverjum frá Úkraínu sem á það sannarlega skilið og þarf á því að halda eftir að hafa í alvöru misst heimili sitt. Það er nefnilega meira fyrirbyggjandi aðgerð fyrir mig að vera á erlendri grundu en ekki vegna þess að ég hafi ekki lengur þak yfir höfuðið.
En eins og ég varð vitni að eru líkurnar núna meiri á því að deyja vegna þess að maturinn standi í manni en vegna hernaðarárásar.
Ég er semsagt bara ein þeirra sem fór eitthvert og einfaldlega líkaði betur að vera þar en heima. Hræðilegt. Samviskan var iðin við að naga mig að innan. Ég er auðveld bráð hennar. Ég efast alltaf um sjálfa mig og ákvarðanir mínar, og velti ég mér upp úr þeim lengi á eftir.
Þarf ég í rauninni að vera á Íslandi? Er heimaborg mín ekki örugg? Er ég gunga að fela mig þegar bókstaflega öll fjölskylda mín og vinir eru um kyrrt í Úkraínu? Og ef eitthvað kemur fyrir þau, missi ég þau öll. Gæti ég fyrirgefið mér?
Úkraínumenn sem fóru hvergi fyrirlíta satt að segja þá sem fóru úr landi. Eins og: Sjáðu til ég er enginn vesalingur, ég er ekki gunga, ég var kyrr og lifði af. Þú ert taugaveiklað viðrini. Þú átt ekki skilið að búa í sigursælu Úkraínu en komdu samt aftur til að hjálpa til að endurbyggja efnahaginn. Eða eitthvað slíkt.
Algengustu athugasemdirnar og röksemdirnar sem fólk notar þegar það gagnrýnir þau sem fóru (Yulia og systir mín nota þessi rök líka) eru á þessa leið:
Ef allir fara, hverjir verða þá eftir? Ef allir fara, til hvers erum við þá að berjast? Til hvers þurfum við þá þessi landsvæði? Hver mun borga skatta? Er skynsemi í þessu? Allt þetta unga og fallega fólk sem hefur dáið og trúði á betri framtíð fyrir Úkraínu? Börðust fyrir landið sem fólk þarf ekki vegna þess að það hefur þegar sest að annars staðar.
Satt að segja notaði ég þetta sem rök áður en ég fór sjálf.
En margir hafa snúið aftur. Fólk sem vill fara heim. Úkraína er heimili þeirra og þau efast ekkert um það. Marga Úkraínumenn á sem eru hér á Íslandi dreymir um að fara heim. Þau vilja ekki vera „flóttamenn“, þau vilja ekki þiggja félagslega aðstoð, þau vilja ekki „betla“, eins og þau orða það, um hjálp og ganga í notuðum fötum af öðrum. Þau eru ekki vön að búa í leiguíbúðum — í Úkraínu eiga þau sitt húsnæði. Þau eru bara hér meðan þau bíða því þau trúa því í einlægni að það sé of snemmt að snúa aftur enda sé ástandið ekki enn orðið stöðugt heldur sé það ennþá hættulegt.
Önnur segja það bara — ég meina að það sé of snemmt að fara þangað því það sé ennþá hættulegt — og dylja að í raun og veru vilja þau og ætla sér að vera um kyrrt hérna því eftir að hafa prófað að vera hér og líkað það vel.
Svo allrar sanngirni sé gætt er ég viss um að þau átta sig ekki öll á því sjálf að þetta sé hin raunverulega ástæða. Þau halda að ekki sé óhætt að vera í Úkraínu og þau vilja trúa því vegna þess að það gefur þeim „formlega“ ástæðu til að hanga hérna lengur. Og það gæti verið ógnvænlegt að horfast í augu við hina raunverulegu ástæðu.
Ég er mjög heiðarleg við sjálfa mig og áttaði mig á þessu mjög fljótlega og það sem er mikilvægast, ég „sagði“ það við sjálfa mig. Að segja eitthvað við sjálfa sig er mikið betra en bara sökkva ofan í hugsanir sínar þegar kemur að því að greiða úr málum að minnsta kosti þegar kemur að manni sjálfum.
Ég er ekki hrædd við stríð. En ég óttast samt að slasast og deyja ung. Þegar ég var krakki dreymdi mig um að vera stríðsfréttamaður og ljósmyndari og vinna einhverstaðar í Afganistan. Aldrei varð ég þó blaðamaður í hinni friðsælu Úkraínu hvað þá að ég færi til Afganistan. Ég varð kennari. Þannig að þegar að stríð hófst í Úkraínu var ég viljandi kyrr í Kænugarði því mig langaði að upplifa stríðið á eigin skinni til að geta skrifað um það.
Húsið mitt í Kænugarði er mjög stutt frá kjarnorkuverinu sem varð oftast fyrir sprengjuárásum. Fólk dó heima hjá sér, sumt í rúmum sínum. Þá varð það rökrétt ákvörðun að fara eins fljótt og mögulega. En fyrir mig — sem er sífellt að leita að tilfinningalegri upplifun — var óttinn þó ekki helsta ástæðan. Kannski meðal þeirra helstu. Aðalástæðan var samt sú að ég þyrfti að taka næsta skref til þess að finnast ég vera lifandi.
Svo þurfti ég líka að róa mömmu mína. Það er hlutverk barna að tryggja hugarró foreldra sinna.
Auðvitað á allt sem ég hef verið að segja ekki við um alla í Úkraínu. Það er fólk sem hefur misst allt — eignir, ástvini sem og möguleikann á að eiga framtíð í Úkraínu. Ég deili því sem ég hef orðið áskynja og persónulegri skoðun minni, og sumir Úkraínumenn munu senda mér reiðileg einkaskilaboð og segja að ég skemmi orðspor þeirra hér og að ég lýsi ekki hryllingi stríðsins sem mér beri skylda til að gera sem dyggur Úkraínumaður.
Þótt undarlegt megi virðast finnst mér ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að endurreisa orðspor okkar og ímynd yfirleitt. Og ég vil líka sýna aðrar hliðar á stríðinu og afleiðingum þess — líf flóttamanna, sem ég upplifi sjálf.
En aftur að því þegar við Yulia hittumst.
Við kláruðum kaffið og pöntuðum te. Mér fannst það versta afstaðið og hún hefði sagt allt við mig sem hún vildi segja. Ég held að hún hafi líka verið hrædd um að ég yrði um kyrrt á Íslandi og hún væri að missa vin.
Öfugt við mig var hún ekki til í að gera róttækar breytingar og prófa eitthvað nýtt og öðruvísi og frústrasjón hennar og annarra var að hluta til reiði og vanmáttarkennd þeirra sem langaði að prófa en þorðu ekki …
En mér létti eftir þetta. Ég sá að við vorum komnar yfir þessa erfiðleika og samræðurnar urðu afslappaðari.
Hún sagði mér sögu af stelpu sem við þekkjum báðar. Hún hitti einhvern í sprengjubyrgi sem tilheyrir húsinu hennar í byrjun stríðsins og núna er hún komin sex mánuði á leið.
Sólarhring eftir samræður okkar var ég á leiðinni í lest til landamærabæjar í Póllandi. Þaðan þurfti ég að taka aðra lest til Kraków þar sem ég átti flug kvöldið eftir.
Tvær vikur liðu eins og hendi væri veifað. Hugsanir mínar voru á ringulreið. Ég hafði sektarkennd út af svo mörgu — að fara frá Úkraínu og að skilja fjölskyldu, vini og samstarfsfólk eftir. Ég fann til samviskubits vegna þess að ég fór frá Íslandi sem veitti mér skjól enda þótt ég hefði lagalegan rétt til að fara úr landi í níutíu daga. Ég hafði sektarkennd vegna þess að svo margt fólk á Íslandi sendi mér sms meðan ég var í Úkraínu og spurði hvort það væri í lagi með mig og hvort mér væri óhætt meðan ég var að njóta mín í nýja kjólnum. Ég hafði sektarkennd yfir að hafa aðeins varið tveimur dögum með foreldrum mínum.
Og ég hafði sektarkennd yfir að því nær sem dró landamærunum því meir langaði mig til Reykjavíkur.
PS. Ég gleymdi því ekki en sagan er frekar stutt. Ég hafði haft verk í öðru brjóstinu um hríð. Afsakið en sum okkar hafa brjóst og stundum verkjar mann í þau. Mér var sagt að á Íslandi þurfi að tala við heimilislækni til að fá tilvísun til sérfræðings og það sé mánaðar bið. Ég ákvað að láta ekki reyna á það en sendi skilaboð til læknisins míns í Úkraínu. Það var „plís ég þarf að fá tíma á morgun“ skilaboð sem ég sendi klukkan 11 að kvöldi á Telegram. Hann svaraði strax og sagði mér hvenær ég gæti komið. Þannig að næsta dag eftir skoðunina róaði hann mig og sagði að ég hefði ekki brjóstakrabbamein. Það skrýtna er að eftir hann sagði mér þetta hvarf sársaukinn alveg.
PPS. Þeir hleyptu mér inn í Pólland þegar ég fór yfir landamærin. En ekki fyrr en ég sýndi þeim íslensku kennitöluna mína. Hún er greinilega áhrifameiri en úkraínska vegabréfið mitt.
Athugasemdir