Síðasta vika í Menntaskólanum við Hamrahlíð hefur verið mjög, og þá meina ég mjög, viðburðarík. Hin endurvakta umræða varðandi kynferðisofbeldi innan menntaskóla hefur líklegast ekki farið framhjá mörgum en ég, nemandi í MH, ætla að útskýra þetta aðeins betur fyrir ykkur.
Mánudagur 3. október
Á mánudaginn í síðustu viku tóku nokkrir nemendur í MH sig saman og hengdu upp blöð á veggi skólans, eins konar kvörtunarbréf, sem lýstu mikilli óánægju varðandi hvernig er tekið á kynferðisbrotamálum innan skólans, en ekki bara það, það voru líka skrifuð, eða ég ætti kannski að segja varalituð, alls kyns skilaboð með svipuðum boðskap á speglana á stærsta baðherbergi skólans.
Þetta vakti fljótt mikla athygli og það leið ekki langur tími þangað til allir nemendur skólans vissu af þessu. Að vera inni á þessu baði var eiginlega ótrúlegt, andrúmsloftið var áþreifanlegt, blanda af virðingu, óvissu og jafnvel ótta. Það var augljóst að þessi umræða hafði verið að krauma á mörgum stöðum innan skólans og þetta var í fyrsta skipti sem það var almennilega viðurkennt. Afleiðingar þessarar upplýsingasprengju voru alls kyns, viðbrögð voru misgóð bæði hjá nemendum og skólastjórnendum en við tóku margir langir fundir. Nemendur skólans söfnuðust saman og ákváðu að nýta tækifærið til þess að fá einhverju breytt, kerfið er svo greinilega gallað og það gengur ekki lengur að sitja bara og bíða eftir því að fullorðna fólkið geri eitthvað, af því að þau hafa greinilega engan áhuga á því. Aldrei hefði ég getað ímyndað mér hversu mikil áhrif hópur af menntaskólanemum gæti haft á samfélagið, hvað þá við, litlu hipparnir í MH. Einn daginn er ég á leiðinni á kóræfingu og þann næsta er ég að skapa byltingu.
Ef það er einn hlutur sem MH-ingar eru góðir í, þá er það að mótmæla. Loftslagsmótmæli? Já. Mótmæla Bjarna Ben? Jibbí! Druslugangan? Væntanlega. Svo það mætti segja að það hafi ekki verið neitt annað í stöðunni en að halda mótmæli. Við bjuggum til Facebook-event fyrir mótmælin en svo fóru að dúkka upp margar spurningar; þarf að segja eitthvað á svona mótmælum? Hvað á að segja? Þurfum við svið? Hvað með kröfur? Hvaða niðurstöður viljum við eiginlega fá eftir þessi mótmæli? Svona spurningar kalla á fund.
Fljótlega eftir að skipulagið var orðið aðeins betra sáum við að Verzlunarskóli Íslands hafði deilt Facebook-eventinum okkar og var að hvetja nemendur þaðan til þess að mæta á mótmælin. Þetta fannst okkur bæði óvænt og skemmtilegt. Við höfðum bara ímyndað okkur þetta sem MH-mótmæli, en af hverju ekki að fá nemendur úr öllum skólum landsins til að mæta? Þetta er nú líka vandamál sem snertir alla framhaldsskóla. Ójá, þetta var snilldarhugmynd hjá þeim, svo að við keyrðum í alla menntaskóla sem við komumst í og auglýstum mótmælin, höfðum samband við nemendafélög og Samband íslenskra framhaldsskóla, SÍF.
Fimmtudagurinn 6. október
Eftir þrjá langa daga stútfulla af misvel heppnaðri skipulagningu var komið að því. Öll sem höfðu komið að skipulagningu mótmælanna voru mjög þreytt og hefðu átt að fara í sturtu, en það var enginn tími fyrir það. Ég sat í enskutíma og það voru aðeins fimm mínútur í að öll í stofunni hættu að læra um prefixes and roots, stæðu upp og gengju út úr stofunni. Ég var svo stressuð, en samt að mestu leyti spennt af því að ég vissi hvað þetta var vel planað, við vorum komin með ræðumenn, svið, hljóðkerfi og mikilvægast af öllu þá vorum við komin með fyrsta uppkast af kröfunum okkar. Í þeim stóð (í stuttu máli):
● Meintum geranda skal gert að víkja úr staðnámi og að endurtekin afbrot skulu leiða til endanlegrar brottvísunar úr skóla.
● Kynjafræði skal gerð að skylduáfanga í öllum skólum.
● Kyn- og kynjafræðsla skal gerð skylda fyrir stjórn, kennara og starfsfólk allra skóla.
● Fjölbreytt úrræði skulu standa nemendum til boða við að tilkynna kynferðisbrot.
Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað vinir mínir væru með góðan orðaforða fyrr en eftir að hafa lesið kröfurnar í fullri lengd, en þetta gátu þau. En aftur að mótmælunum, mannfjöldinn sem tók á móti mér var stórkostlegur, heilt haf af varalituðum vörum, fólki úr öllum skólum, af öllum kynjum og af öllum aldri, ég geri mér enn þá enga grein fyrir því hvernig í ósköpunum við fórum að þessu og hversu langt þetta náði. Menntaskólar um allt land tóku þátt og mótmæltu fyrir framan sína eigin skóla, þetta var orðið svo miklu stærra en bara hópur af reiðum MH-ingum, enda bitnar vanhæfa kerfið ekki bara á okkur, heldur á skólum og vinnustöðum um allt land og allan heim. En þó svo að þetta hafi vakið mikla athygli þá megum við ekki stoppa hér, því þetta var bara byrjunin.
Athugasemdir