Bandaríska fjárfestingarfélagið Kohlberg Kravis Roberts (KKR & Co) er orðinn eigandi eina glasafrjóvgunarfyrirtækis hér á landi, Livio Reykjavík ehf., áður Art Medica. Þetta gerðist í sumar þegar fyrirtæki í eigu KKR, GeneralLife, keypti sænskt móðurfélag íslenska glasafrjóvgunarfyrirtækisins, Livio AB. KKR er með 471 milljarðs dollara fjárfestingar í stýringu hjá sér, meðal annars fjölmörg fyrirtæki á sviði innviða. KKR keypti til dæmis stærsta símafyrirtæki Danmerkur, TDC A/S, árið 2006.
GeneralLife er eitt stærsta fyrirtækið í Evrópu á sviði glasafrjóvgana og rekur 37 klíníkur sem bjóða upp á þessa þjónustu. Fyrirtækið er með starfsemi á Ítalíu, Spáni, Tékklandi, Portúgal og Svíþjóð og nú bætast Noregur og Ísland við. Livio AB átti níu glasafrjóvgunarstöðvar í Svíþjóð, Noregi og Íslandi og bætast þær við þessar 37 sem GeneralLife átti fyrir. Sænski fjárfestingabankinn Carnegie var ráðgjafi við söluna og greindi frá henni á heimasíðu sinni. Kaupverðið var ekki gefið upp.
Athugasemdir