Erna Kristín fór með börnin tvö sem eru tveggja og þriggja ára gömul í leikskólann klukkan níu í morgun. Hún kom aftur heim um tíu mínútum síðar. „Þá var slökkviliðið komin og löggan. Það hafði kviknað í íbúðinni. Ég sá mikinn reyk koma út úr svefnherbergisglugganum mínum,“ sagði Erna Kristín þegar Stundin náði tali af henni en hún var þá inni í íbúðinni að skoða vegsummerki og sendi þetta myndband:
Erna Kristín segir að allar eigur fjölskyldunnar séu ónýtar af völdum reyks, sóts og vatns. „Við vorum að leigja þessa íbúð en erum með heimilistryggingu sem dekkar einhvern hluta en við erum alslaus núna. Það er hræðilega óþægileg tilfinning,“ segir Erna Kristín.
Erna Kristín, Benedikt Hjalti Sveinsson, sambýlismaður hennar og börnin tvö fengu skjól hjá mömmu Ernu, ömmu barnanna, en hún býr í nágrenninu. „Mér skilst að það hafi kviknað í út frá eldavélinni. Það er allt ónýtt. Öll föt barnanna, öll leikföngin þeirra og rúmin okkar allra eru farin. Og allt hitt,“ segir Erna Kristín.
Erna Kristín segir að slökkvistarfið hafi gengið vel. Hún segist vera í áfalli en um leið afar þakklát öllu því fólki sem hefur haft samband við fjölskylduna í dag. „Þetta er fólk úr öllum áttum, ókunnugt fólk líka sem er búið að hafa samband við okkur og bjóðast til að gefa börnunum föt, leikföng og jafnvel húsgögn. Ég gæti ekki verið þakklátari,“ segir Erna Kristín.
Athugasemdir