Það var eingöngu af forvitni en ekki vegna þess að ég ætlaði að elda sjálf sem ég tók þátt í leiðangri um hótelið sem gaur í móttökunni bauð upp á daginn sem ég kom til Reykjavíkur. Hann útskýrði hvað væri hvar. Af hverju það væri þar. Hvernig það væri þar. Hvenær það væri þar. Þess háttar spurningar framleiðir heili minn stöðugt. Um alla hluti.
Þess vegna var ég nú stödd í eldhúsinu sem ég hef til afnota um stundarsakir.
Um tíu eldavélar í röð standa upp við vegg. Sumar konurnar sem voru að elda gláptu forvitnar á okkur þessi nýkomnu, og að mér sýndist fjandskap, sem reyndist réttmæt ályktun. Gaurinn sýndi okkur hvar matsalurinn var, diskarnir, brauðið sem sjálfboðaliðarnir komu með nærri daglega, hnífapör, örbylgjuofnar, glös, brauðristar, skurðarbretti, krukkur.
Og pottar.
Það voru u.þ.b. tíu pottar. Þeim var vandlega staflað og horfðu á mig eins og þeir vildu að ég tæki einn þeirra og færi að elda eitthvað. En ég hafði tekið ákvörðun og leit undan.
Elda? Þú ert að grínast! Ég er á Íslandi! Ég hafði skilið allt sem ekki tilheyrði draumum mínum eftir hinumegin við hafið. Að elda er algjörlega ekki eitt af því sem mig dreymir um (þú getur lesið um það í fyrri bloggfærslunni minni).
Næsta dag er samt sælutilfinningin farin eða kannski voru það eftirköstin af blóðtökunni (vissir þú að allt flóttafólk sem kemur hingað þarf að fara í blóðprufu til að athuga hvort þau eru með AIDS, lifrarbólgu eða sárasótt?) og var svöng.
Ég vildi fá að borða.
Það þýddi að ég varð að elda.
Og þó ég sé hrokafull, tók ég stoltið og hrísgrjónin sem fylgdu í byrjunarpakkanum og fór niður í eldhúsið.
Í lyftunni gúglaði ég hvernig ætti að elda hrísgrjón. Þegar ég kom í eldhúsið sá ég að fólk var að elda. Það vera verið að sjóða súpu, pasta og sósur, steikja kjöt, grilla kjúklinga. Eitt borðið var meira að segja þakið hveiti — einhver ætlaði að fara að baka! Það virðist sem sumum konum þyki í raun og veru gaman að elda. Það er eitt af því sem ég skil ekki.
Ég náði í pott. Skellti í hann handfylli af hrísgrjónum og bætti vatni við.
Tíu mínútum síðar tuggði ég hálfsoðin hrísgrjón. Þau voru ósöltuð í ofanálag og voru bragðlaus en mér var sama því ég var upptekin af að tala við tvær úkraínskar konur (þær sem ég sá eftir að ég kom úr flugvélinni, manstu). Annars hefði ég örugglega hent því í ruslið í pirringi og eldamennsku tilraunum mínum hefði þar með verið lokið.
En ég vildi ekki láta þær sjá hvernig ég raunverulega er. Ekki strax. Ég þurfti á vinum og samherjum að halda því ég fann á mér að stríð var í uppsiglingu. Og ég hafði rétt fyrir mér.
Næsta dag forðaðist ég eldhúsið. Ég drakk mikið kaffi og hafði keypt mat í Bónus. Ég var talsvert virk fyrstu dagana hérna. Ég bjó til spjall á Telegram þar sem Úkraínufólk getur selt dóp sín á milli, og líka bara spjallað og rætt upplifanir sínar hér á landi. Ég stakk líka upp á því að breyta Viber spjallinu sem var fyrir Úkraínufólk sem býr á Hótel Sögu svo að öll þau nýkomnu geti lesið upplýsingarnar sem þar er að finna áður en þau skrá sig inn. Fyrri útgáfan hafði engan spjallborðsstjóra og engar reglur — fólk bara bætti öðrum við og allir þeir nýju spurðu sömu spurninganna aftur og aftur …
Svo ég bjó til nýtt spjall, dreifði hlekknum og skrifaði skilaboð með svörum við algengustu spurningum. Viku seinna hélt ég fund fyrir þá sem voru þá nýkomnir til að miðla af reynslu minni og segja þeim hvað er hvar, af hverju það er þar og svo framvegis.
Um þetta leyti fóru pottarnir að hverfa úr eldhúsinu. Það hefðu átt að vera þar nokkrir pottar því þeir höfðu verið svo margir. En þegar til átti að taka voru engir pottar.
Ég áttaði mig fljótt á að í staðinn fyrir að pottarnir væru í eldhúsinu voru þeir komnir inn á herbergin. Í mínum huga er tilhugsunin um að fara með sjóðheitan, lyktandi pott inn í herbergi þar sem þú sefur algjört rugl. Fyrir öðru fólki var þetta greinilega þveröfugt — það væri algjört rugl að hafa hagsmuni annarra í huga.
Ég hugsaði mikið um þetta. Sérstaklega þegar ég var að sjóða hrísgrjón í steikingarpotti (þrisvar), sjóða pasta í steikingarpotti (einu sinni) og sjóða kartöflu í í steikingarpotti (eitt skipti). Ég styð þá hugmynd og er sammála því að það séu til næg lífsins gæði fyrir alla í heiminum, ef ekki til að lifa í allsnægtum þá allavega að hafa það gott. En þar sem aðeins fáir hafa aðgang að lífsins gæðum er minna til skiptanna fyrir aðra. Það sama á við um potta. Það voru til um fimmtíu pottar í byrjun. Góðhjartaðir og umhyggjusamir sjálfboðaliðar keyptu þá og komu með á hótelið svo við hefðum nógu marga og gætum skipst á. En á einhverjum tímapunkti hættu ásælnir eða ég ætti kannski að segja hagsýnir Úkraínumenn að deila með sér og settu heldur eigin hag ofar öðrum. Eða: Mér er slétt sama þótt þú hafir ekki pott til að elda í, ég þarf að sjá um fjölskyldu mína og ég nenni ekki að leita um allt að potti eins og fífl þegar ég þarf á honum að halda svo ég hef hann bara út af fyrir mig.
Þegar ég segi að þeim sé slétt sama þá meina ég það. Á spjallinu var sífellt verið að biðja kurteislega — sem síðan varð að stóryrtum kröfum — um að skila pottum í eldhúsið. Annað fólk ætti líka börn sem þurfi að borða!
En þú veist. Ég elda aldrei (já ókei, ég játa að ég byrjaði að elda, ef þú endilega vilt vita það) meira en svo að það dugar í eina máltíð. Ég elda aldrei súpur eða kássur eins og fjölskyldur láta endast vikum saman. Af því að ég er sífellt með í huga að þetta er ekki heimili mitt. Þetta er húsaskjól og ég verð að eignast mitt eigið heimili eins fljótt og hægt er. Og þá get ég loksins eldað eitthvað verulega flókið eins og … til að mynda hrærð egg. En í bili verð ég að gleyma öllu slíku því ég verð líka að hugsa um hvernig öðrum líður. Að elda stóra máltíð er í mínum huga eins og að slaka á og gleyma því í smástund að dvölin hér standi aðeins yfir í nokkrar vikur. En að slaka á getur leitt til þess að að vera ekki lengur vakandi fyrir tækifærum til að koma lífi sínu í lag. Að vera brotin og niðurlægð leiðir til þess að vilja bara halda áfram með lífið eins og það er núna. Og helst að aðrir sjái um mann. Allt og sumt sem maður vill þá gera er að borða, sofa og velja sér notuð gefins föt. (Það er ekki eins og ég hafi eitthvað á móti því síðastnefnda. Ég fékk mér sjálf tvo jakka sem koma sér vel þegar það er rok. Og það er alltaf rok.)
Það var fleira sem hvarf en pottarnir. Núna eru stundum bara tvær eða kannski bara ein steikarpanna. Stundum eru þær fitugar. Það voru u.þ.b. hundrað diskar í sameiginlega eldhúsinu. Engir núna. Sjálf á ég bara tvo. Af því að þú veist — því fleiri diskar því fleiri diska þarf að vaska upp. Það er enn eitthvað af hnífapörum. En það eru engin glös.
En það er ofsögum sagt að við týnum öllu. Við höfum líka fundið nokkuð nýtt — músina sem við sáum í síðustu viku.
Þegar fyrsta Úkraínufólkið kom skilst mér að hótelið hafi verið fullbúið búnaði og húsgögnum. Í hverju herbergi var ísskápur, hraðsuðuketill, hárþurrka, sjónvarp, rúmföt, náttsloppur, inniskór, gardínur, tannburstaglös …
Nú er þetta svolítið breytt. Svolítið. Sitt lítið af hverju var fjarlægt af löndum mínum sem gistu hér. Einn tók ketil, annar rúmföt, einhver jók eignastöðu sína um hárþurrku. Sögur segja að sumir hafi tekið ísskápa með sér. Ég vona að það sé slúður. En ég þekki mitt heimafólk.
Ég get ekki álasað þeim. Á FB skrifaði ég einu sinni færslu um af hverju við erum svona. Af hverju það er hluti af hugsanagangi okkar.
Það er að búa í haginn fyrir framtíðina og geyma og birgja sig upp fyrirfram ef ske kynni að eitthvað fleira hörmulegt gerist. Og það er alltaf eitthvað hörmulegt að gerast hjá okkur. Alltaf. Við óttumst alltaf að hafa ekki nóg vegna þess að við höfðum aldrei nóg áður og við erum hrædd um að við munum ekki hafa tækifæri á að hafa nóg.
Þetta er flókið, krakkar mínir. Tölum um eitthvað einfaldara. Í mínu herbergi er til dæmis ekki klósettbursti. Sem þýðir að einhver tók hann. Eða klósettburstinn leystist upp í íslenska hitaveituvatninu.
Kannski ætti ég loksins að verða fullorðin og kaupa mér minn eigin pott?
Ps. Bara svo þið vitið það: við notum Telegram hérna aldrei til að selja og kaupa dóp. Ég vil ekki vera send úr landi. Ekki strax.
Athugasemdir