„Ef maður fer niðrí fjöru og borðar rosalega mikið af kröbbum, fær maður þá krabbamein?“ spurði hann mig þegar hann var nýkominn úr fjöruferð með leikskólanum – hann var að hugsa um hvernig þetta krabbamein hefði tekið ömmu sína, löngu áður en hann fæddist.
Ég var einu sinni ung móðir sem greindist með krabbamein. Litli strákurinn minn var átta ára gamall og ég horfði á sandkornin renna hraðar í gegnum stundaglasið. Tíminn varð nær áþreifanlega afstæður og ég fann hvernig hann nálgaðist mig óðfluga hinum megin, þeim megin sem endalokin eru, tíminn eru tveir sem standa andspænis hvor öðrum, annar er fæðing og hinn er dauðinn, annar er upphaf og hinn er endir. Nema nú var hinn farinn að hlaupa hraðar í áttina til mín og annar var orðinn fjarlægari en áður.
Ég hafði verið einstæð móðir árin fyrir greininguna, og sambandið var nýtt en þó ekki glænýtt þegar ég veiktist. Við svona fregnir sem kollvarpa lífinu eins og þú þekkir það til frambúðar koma upp úr krafsinu ýmsar breytingar á því hvernig þú forgangsraðar lífinu. Eitt af því var að mér fannst ég þurfa að nýta hverja stund fullkomlega fyrir litla strákinn minn, það varð að hálfgerðri þráhyggju, ég þyrfti að bæta honum upp þessi ár sem ég var ein með hann og þurfti að vinna myrkranna á milli til þess að hafa í okkur og á – tímanum sem var svo oft varið fjarri honum. Og ég fann eftirsjána læðast aftan að mér. Allur þessi tími sem fór í að hafa ofan af fyrir honum svo ég gæti náð andanum var eins og svarthol sem gleypti allar gæðastundirnar. Smá barnaefni svo ég næði að leggja mig á milli 12 tíma vaktavinnu, smá tölvutími svo ég gæti unnið upp svefnskuld. Öll augnablikin þar sem ég var annars hugar þegar hann var að segja mér frá deginum sínum breyttust í eftirsjá.
Löngum stundum eyddi ég í þá tímasóun sem það er að velta mér upp úr hvert tíminn fór. Ef ég myndi falla frá fyrir aldur fram, hvernig myndi hann minnast mín? Myndi hann eiga einhverja fjarlægja minningu um móður sem var alltaf annars hugar, dottandi eða nagandi neglurnar yfir áhyggjum?
„Ef maður fer niðrí fjöru og borðar rosalega mikið af kröbbum, fær maður þá krabbamein?“ Börn eru með svo falleg hugrenningatengsl. Þegar ég heyrði söguna af morgunverðarpartíinu áttaði ég mig á því að ég hafði verið á villigötum, áhyggjur mínar voru óþarfar og ég skildi loksins allt, svona var þetta, auðvitað!
Við lágum uppi í rúmi eitt kvöldið, ég var nýbúin að lesa bók fyrir háttinn og var annars hugar, ég var auðvitað að hugsa um tímann, og hvað tíminn er stuttur og hvað tíminn líður hratt og að við höfum enga hugmynd um hversu mikinn tíma við fáum saman. Ég hugsaði um skurðaðgerðir og lyfjameðferðir, lífslíkur og hvernig framtíð myndi blasa við honum án mín þegar hann segir: „Mamma getum við haldið morgunverðarpartí á morgun?“
„Já, auðvitað,“ sagði ég. Ég var búin að að gleyma þeim, eða kannski frekar, ég var búin að ákveða að gleyma þeim. Maður skammast sín stundum fyrir skort, hvort sem maður hefur liðið skort sjálfur eða upplifað það að hafa valdið börnum sínum skorti. Ég skammaðist mín alveg ægilega fyrir að hafa verið svona fátæk og þreytt þegar við vorum bara tvö. Skammaðist mín fyrir að hafa ekki getað fært honum heiminn á silfurfati, ég hafði brugðist honum og ég hafði brugðist mér. „Það var svo kósí, og það var svo mikið til, það var ALLT TIL!“ sagði hann með stjörnur í augum.
Við spjölluðum áfram um þetta sem var að hans mati hlaðborð allsnægta. Þegar við vöknuðum saman um helgar og ég tók allt sem við áttum í skápunum fram, gula og litríka cheerios-kassa, haframjölskassa, stóran poka með rúsínum, eldrauðar dósir með niðursoðnum tómötum og skærbláa niðursoðna kókósmjólk. Borðið fylltist af litríkum kössum með þurrvöru og hann upplifði svo marga valkosti, þarna var allt til alls að hans mati. En mest langaði hann bara í vanilluskyrdósina, eða cheerios, jafnvel bara ristað brauð með osti. Það var svo erfitt að velja eitthvað eitt, sagði hann mér.
Hann lýsti þessu fyrir mér, las af taugabrautum minninga sinna og ég fann hvernig tíminn hægði á sér og hinn tíminn, tími endalokanna sem hafði verið á harðaspretti til mín, kinkaði til mín kolli eins og til að segja mér að nú skildi hann hinkra aðeins og gaf mér leyfi til þess að vera til. Og annar tíminn, fortíðin, varð sætari og mýkri, og skömmin ákvað að breyta sér í stolt. Stolt yfir að hafa fært honum hlaðborð allsnægta úr naglasúpu.
Athugasemdir (1)