Ég var svo vitlaus að kaupa númeri minna af skóm heldur en ég nota alla jafna. En þeir voru ekta Timberland skór og næstum nýir þannig að ég stóðst ekki freistinguna. Ég hafði bara alltaf séð fyrir mér að þegar ég væri á Íslandi yrði ég í gulri regnkápu og Timberland skóm. Þannig hugsaði ég löngu fyrir stríðið — gul regnkápa, appelsínugulir skór og græn norðurljós fyrir ofan mig.
Svo að ég greip skóna á nytjamarkaði í Kænugarði fimm dögum áður en ég kom til Íslands. Gula regnkápu fann ég hvergi svo ég keypti græna í staðinn.
Fimm dögum síðar sit ég í flugvélinni á leið frá Varsjá til Keflavíkurflugvallar og bölva öllu í sand og ösku. Það er ofboðslega vont að ganga í skónum því þeir eru svo þröngir. Það er ferlegt því að ég þarf nauðsynlega að komast á klósettið í vélinni en að ganga frá sætinu að klósettdyrunum er örugglega ómögulegt í þessum skóm svo að ég vel að þjást og líða ömurlega í sæti mínu.
Ég reyni að sofna en það tekst ekki. Það var næstum aldimmt þegar við fórum frá Póllandi en eftir því sem við nálgumst Ísland verður sólin sterkari og bjartari og sendir hvassa sólargeisla á vélina. Ég fæ einn þeirra beint í augað. Það eykur enn á þjáningar mínar.
En veistu hvað?
Ég er fullkomlega hamingjusöm og geri mér vel grein fyrir aðstæðum mínum því allan tímann í flugvélinni endurtekur rödd í höfðinu á mér í sífellu:
Ég er frá Úkraínu. Og ég er alein hérna. Ég veit ekki hvað bíður mín. En ég er til í þetta.
Meðan ég man, ég heiti Tania.
Þegar við lentum ætlaði ég ekki að trúa því að ég væri loksins komin til Íslands. Þetta var draumurinn minn. Allt mitt líf hefur mig dreymt um nokkra hluti. Ég held að það verði auðvelt að láta þá rætast.
Mig langaði og langar enn að skrifa metsölubók.
Mig langar að heyra hval syngja.
Mig langar að dansa undir dansandi norðurljósum.
Mig langar að drekka mojito á uppáhalds bar Hemingway á Kúbu.
Mig langar að hrækja í andlitið á rússneskum hermanni. (Nýtt á listanum.)
Mig langar að sjá hraun gusast úr eldfjalli.
Ísland er augljóslega óumflýjanlegt.
En ég þarf ennþá að pissa og ég hata alla þá sem tengjast Timberland vörumerkinu. Ég sæki ferðatöskuna mína á færibandið. Hitt fólkið er í fjölskyldum og pörum. Ég er mín eigin fjölskylda og get sjálf verið par. Ég er að taka töskuna mína og fara í setustofuna þar sem ég rekst vonandi á starfsfólk. Það er hálftími í miðnætti en það er enn bjart úti.
Ég nálgast upplýsingaborðið og þó munnurinn verði þurr næ ég að segja:
Halló. Ég er flóttamaður frá Úkraínu. Við hvern tala ég til að fá hjálp?
Ungur strákur horfði á mig og sagði mér að bíða. Svo hringdi hann eitthvert og talaði á furðulegu tungumáli (íslensku auðvitað).
Nú, ég hafði haldið að hann myndi … ég veit ekki … hafna mér? Ekki gefa mér gaum? Hunsa mig? Svo lagði hann frá sér símann og sagði mér að bíða á bekk á móti afgreiðsluborðinu.
Hrikalega kvíðin, þreytt, með verki og ekki enn búin að komast á klósett sat ég og hóf biðina. Ég leit í kringum mig eftir öðrum ‘týndum’ eins og mér. Það voru tvær konur sem litu út fyrir að vera mæðgur, ungt par og kona sem var á sextugsaldri en einstaklega falleg.
Ég hóf samtal við konuna.
Bráðlega opnuðust dyrnar og tveir lögreglumenn komu inn. Ég óskaði þess um leið að þeir myndu handtaka mig. Bara í alvöru sko. Þetta voru bestu löggur sem ég hafði séð á ævinni. Þeir voru betri eða svipaðir og þeir sem ég sá í Þýskalandi en þar sem mér líkar ekki við hvernig þýskan hljómar þá eru íslenskar löggur núna í uppáhaldi hjá mér.
Hér eru þeir þá komnir. Bestu löggur sem ég hef hitt á ævinni. Og — allir norrænu guðir! — þeir ávarpa mig og fylgja mér inn á skrifstofu til að taka við mig stutt viðtal. Ég er ennþá kvíðin. Þegar ég er kvíðin tala ég. Það hjálpar. Ég tala við þá. Spyr þá að nafni áður en þeir ná að spyrja að mínu. Nöfnin eru hrikalega erfið og ég verð eitt spurningamerki.
Sam, segir sá fyrri, og er greinilega af miskunnsemi sinni að láta mig að fá einfaldari útgáfu af nafninu sínu.
Tom, segir sá seinni og fylgir fordæmi starfsfélaga síns.
Ég veit ekki hvort þeir náðu einhverjum upplýsingum upp úr mér en ég komst að því hvar vinnustaðurinn þeirra er, hvenær þeir eru á vakt, hverjir eru uppáhalds áfangastaðirnir þeirra, um veðrið á Íslandi og um fullt af öðrum hlutum.
En mestu vonbrigði kvöldsins voru að komast að því að þeir voru báðir giftir og áttu meira að segja börn. Svo svekkjandi!
Jæja, ég fékk vegabréfið mitt og þeir fylgdu mér út og til rútubílstjóra sem fór með mig og náunga frá Úkraínu á hótel nálægt flugvellinum. Það tók okkur fimm mínútur að komast þangað en alla leiðina starði ég örvæntingarfull út um gluggann og vonaðist til að sjá norðurljósin.
Barnalegt, ég veit.
Hótelið var fínt. Ég held að það hafi verið fimm stjörnu. En þetta kvöld hefði ég gefið hvaða klósetti sem er fimm stjörnur. Algjörlega hvaða klósetti sem er.
Einstaklega falleg asísk kona í móttökunni rétti mér pappírspoka. Forvitni mín vaknaði en beið með að gá í pokann þar til ég var komin upp á herbergi. Í honum var banani, jógúrt, samloka og lítil ferna með appelsínusafa.
Nóttina áður hafði ég ekkert sofið og ekki borðað mikið heldur og var þess vegna glöð eins og barn sem fær jólagjöf. Ég drakk safann, opnaði samlokuna og hirti úr henni skinkuna og ostinn en sleppti því að borða brauðið. En jógúrtin var þykk og hafði ekki neina skeið. Mér tókst samt einhvern veginn að drekka hana. Í fyrsta sinn á ævinni fannst mér það galli að tunga mín er eingöngu löng og liðug þegar ég tala en ekki þegar ég þarf að borða.
Ég fór í sturtu. Það var unaðslegt að vera berfætt á heitum gólfflísum. Ég sór þess heit að fara aldrei aftur í helvítis skóna. Ég var með nuddsár á hægri ökkla eftir þá. En satt að segja held ég að það sé gjaldið sem ég þurfti að greiða fyrir hégómleikann og vörumerkjasnobbið.
Ég fór í rúmið þar sem ég lá andvaka í fjóra tíma í viðbót. Ég var of spennt til að geta sofið. Ég var líka hrædd um að ég myndi vakna og Ísland hefði bara verið draumur.
Næsta morgun fór ég niður til að borða morgunverð. Á leiðinni tók ég eftir að hótelið var á miðju risastóru sléttlendi sem teygðist fleiri kílómetra í allar áttir. Mér til undrunar sá ég að á jörðinni voru hvítir plastpokar eða álíka rusl út um allt. Ég komst uppnám. Í alvöru? Rusl var það síðasta sem mér datt í hug að ætti við um þessa eyju. Skyndilega tók einn þessara poka sig á loft og sveif um loftið.
Fuglar!
Þetta voru fuglar!
Ég hélt áfram í matsalinn glöð og ánægð en skammaðist mín líka dálítið fyrir að hafa misst álit á Íslandi í örfáar sekúndur.
Ég borðaði og fannst ég sem í vímu. Fyrsti morgunverðurinn minn á Íslandi!
Á fokkings Íslandi!
Hérna sko, þegar ég segi ‘fokkings’ þá á ég við gott, gríðarlega gott.
Fjörutíu og fimm mínútum síðar kom rúta og flutti mig og hina fimm Úkraínumennina til borgarinnar sem kennd er við reyk – Reykjavíkur.
Athugasemdir