Í langan tíma hafa borgaryfirvöld bara leyft uppbyggingu á þéttingasvæðum, sem eru mun dýrari því lóðaverð er hærra, flækjustig er meira og oft þarf að rífa það gamla til að koma nýju húsunum fyrir. Raunverð íbúða (m.t.t. verðlags) er nú orðið tvöfalt hærra en það var um aldamótin. Óskiljanlegt er að fólk láti enn bjóða sér þessa dýrtíð. Afleiðingarnar eru fátæktargildra fyrir sívaxandi hóp fólks sem festist í of dýru láni, of hárri leigu eða í félagslegu úrræði sem erfitt er að vinna sig úr. Þetta þarf ekki að vera svona. Það er vel hægt að byggja ódýrt aftur, en til þess þurfum við líka að byggja á ódýru svæðunum. Ábyrg framtíð (xY) leggur mikla áherslu á að byggja líka úthverfi Reykjavíkur og leyfa eins hraða uppbyggingu og þörf er á og nú er þörfin meiri en nokkru sinni.
Þéttingu byggðar er best náð með betri samgöngum, því góðar samgöngur færa fólk nær í tíma. Síversnandi samgöngur borgarinnar hafa þveröfug áhrif og sundra fólki. Stutt ferð tekur óratíma og lífið verður fábreyttara þegar fólk fjarlægist hvort annað og neitar sér um sjálfsögð lífsgæði. Ábyrg framtíð(xY) ætlar að þétta byggð strax (í tíma) með mörgum smáum hagkvæmum framkvæmdum um alla borg þar sem litlir umferðartafapunktar verða lagfærðir strax. Bæta þarf umferðarstýringu, laga beygjuakreinar, skipta út ljósum með hringtorgum þar sem við á og skipta út öllum stökum gönguljósum á stofnæðum með göngubrúm. Allt miðar þetta að því að verja umferðarflæðið sem jafnframt minnkar mengun því hættulegasta agnamengunin er stærðargráðu meiri (~5x) þegar umferð er alltaf að stoppa og taka af stað. Síðar væri farið í stórverkefni eins og fjölgun mislægra gatnamóta. Okkar stærsta umbótaverkefni er Viðeyjarleiðin: Ný stofnæð sem tengir Kjalarnes og Gufunes við miðbæinn gegnum hraðbraut sem fer um Viðey og tengist Laugarnesinu um botngöng. Þessi framkvæmd gefur tvöfalt meiri styttingu úr bænum en Sundabraut (16km í stað 9km), skemmir ekki Sundahöfn og leysir umferðarvanda Sæbrautarinnar. Með Viðeyjarleið verða úthverfin sem við viljum byggja nær miðbænum í tíma en sum dýru þéttingasvæði borgaryfirvalda.
„Til að fá ódýrt húsnæði aftur þarf að byggja aftur ódýrt“
Risaverkefni borgarinnar eins og Borgarlínan og Miklubrautarstokkur og Sæbrautarstokkur á samkvæmt samgöngusáttmála að fjármagna með vegsköttum og hærra lóðaverði. Þessir skattar munu þegar fram í sækir verða mjög háir (500-1000kr á dag miðað við erlenda reynslu) og líklega verður byrjað að rukka strax á næsta ári sem verður mikil lífskjaraskerðing fyrir Reykvíkinga sem eru það óheppnir að búa nálægt gjaldhliði. Þessum gæluverkefnum verður að hafna strax á þessum forsendum einum. Skýtuga leyndamál borgarlínunna er að ef borgarlínan kæmi á morgun yrðu allir vagnarnir tómir, því veglínan er um strálbýl eða óbyggð svæði Reykjavíkur. Eftir á að byggja hús fyrir meginþorra viðskiptavina borgarlínunnar! Hvað getur klikkað?
Fjármagna á líka flutning Reykjavíkurflugvallar með lóðaverði og vegsköttum. Gríðarlega mikilvægt er að þau áform séu stöðvuð því samfélagslegur skaði af lokun flugvallarins yrði óbætanlegur fyrir íslenska þjóð. Innanlandsflug mundi nánast leggjast af, annar rekstur hætta og aðgengi landsbyggðar að heilbrigðisþjónustu versna. Slíkur gjörningur er ekki sæmandi af höfuðborg Íslands.
Áætlanir flokkanna sem vilja bara byggja dýrt á þéttingareitum virkaði ekki síðustu þrjú kjörtímabil og mun ekki heldur virka núna. Til að fá ódýrt húsnæði aftur þarf að byggja aftur ódýrt. Ábyrg framtíð (xY) er með öflugustu áætlun allra flokka í að endurheimta aftur viðráðanlegt húsnæðisverð með stórátaki í að byggja ódýrt sem víðast og bæta samgöngur. Við óskum öllum góðs kosningadags og minnum fólk á að kjósa rétt.
Athugasemdir