Flokkur fólksins býður fram breiðan lista góðs fólks í borgarstjórnarkosningum sem fram fara 14. maí.
Við viljum forgangsraða borgarmálum í þágu fólksins í borginni, hugsa hverja ákvörðun út frá hagsmunum borgarbúans. Að sérhver borgarbúi eigi heimili, lifi mannsæmandi lífi og geti veitt börnum sínum það sem þau þurfa til að geta þroskast og liðið vel í eigin skinni. Flestir hafa það sem betur fer gott en allt of stór hópur glímir við erfiðleika sem rekja má til bágra aðstæðna og skorts á nauðsynlegri þjónustu.
Förum betur með peninga borgarbúa
Meiri aga þarf í rekstri borgarinnar. Margar fjárfestingar eru óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri utan verkahrings borgarinnar. Mörg kostnaðarsöm mistök hafa verið gerð í fjárfrekum framkvæmdum og útboðum á kjörtímabilinu.
Fyrir þremur árum var ákveðið að ráðast í stafræna umbreytingu hjá Reykjavíkurborg. Ekki veitti af þar sem upplýsinga- og þjónustukerfi borgarinnar voru mörg hver í lamasessi. En hver er árangurinn? Nú hafa 13 milljarðar farið í verkefnið, að stórum hluta í að finna upp hjólið. Það nær engri átt að bruðlað sé með stóran hluta af þessu fjármagni í alls kyns leikaraskap. Það er grundvallarkrafa að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar – að nota skattfé Reykvíkinga samviskusamlega til að bæta þjónustu í stað þess að bruðla með peninga fólks.
Burt með biðlista
Flokkur fólksins hefur beitt sér af krafti í þágu þeirra sem minnst mega sín: öryrkja, aldraðra og barnafjölskyldna. Mánaðar- og áralangir biðlistar skólabarna eftir allri þjónustu í Reykjavík eru ótækir en nú bíða um 1900 börn m.a. eftir skólasálfræðingum og talmeinafræðingum. Við viljum eyða þessum löngu biðlistum og tryggja öllum börnum aðgengi að tómstundastarfi og íþróttum án tillits til efnahags foreldra. Eðlileg bið eftir þjónustu eru 3-6 vikur en ekki mánuðir og ár.
„Mörg kostnaðarsöm mistök hafa verið gerð í fjárfrekum framkvæmdum og útboðum á kjörtímabilinu“
Á hverju ári er rennt blint í sjóinn með fjölda leikskólaplássa. Samhliða þeirri óvissu er starfsöryggi dagforeldra sett í mikið uppnám. Erfitt hefur einnig reynst að fullmanna leikskóla í Reykjavík sem má án efa rekja til launamála, álags og slæmra aðstæðna í sumum tilvikum. Lausn þessa alvarlega vanda verður að vera í forgangi.
Sýnum skynsemi í húsnæðismálum
Flokkur fólksins vill taka á hinum alvarlega skorti á húsnæði af öllum gerðum í Reykjavík fyrir alla aldurshópa. Húsnæðisskorturinn bitnar sífellt harkalegar á almenningi, sérstaklega efnaminna fólki, og veldur aukinni verðbólgu.
Flokkur fólksins hefur stutt skynsamlega þéttingu byggðar en ekki í hverfum þar sem innviðir eru löngu sprungnir. Byggja má mun meira og hraðar í Grafarvogi, í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi. Á öllum þessum stöðum eru innviðir sem eru tilbúnir fyrir fjölgun eða viðbætur. Flöskuhálsinn í húsnæðismálum felst í stefnu meirihlutans sem ýtir undir hækkandi verð og aukinn ójöfnuð.
U.þ.b. 600 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði og á annað hundrað eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Húsnæðisskortur aldraðra er viðvarandi vandi.
Aukum fjölbreytni í samgöngum!
Eins og staðan er í dag er ein tegund af almenningssamgöngum í Reykjavík sem er Strætó. Taka þarf til hjá Strætó og gera þessar samgöngur þannig að þær verði nothæfar fyrir fleiri. Ferðir þurfa að verða tíðari og vagnarnir þurfa að fara meira inn í hverfin. Flokkur fólksins vill að það verði frítt í stræti fyrir 67 ára og eldri og öryrkja. Flokkur fólksins styður uppbyggingu á hjólreiðarbrautum þannig að um verði að ræða fullgildan samgöngukost.
Flokkur fólksins berst fyrir bættri þjónustu við borgarbúa. Verkin tala sínu máli og við vonumst til að vera metin að verðleikum í komandi kosningum.
Fólkið fyrst – svo allt hitt!
Athugasemdir