Stríð er ekki bara sprengjurnar sem falla, heldur allt hitt sem býr áfram í líkama og sál þeirra sem lifa það af. Óttinn sem tekur sér bólstað í huga fólks, skelfingin og slæmar minningarnar.
Stríðið lifir áfram
Amma mín var barn að aldri í Vetrarstríðinu, þegar Sovétríkin réðust inn í Finnland þar sem hún er fædd og uppalin. Stalín reiknaði með að það yrði auðsótt að taka Finnland yfir, en mætti mikilli mótspyrnu heimamanna. Þrátt fyrir meiri herstyrk og tækjabúnað tókst Sovétríkjum ekki að ná markmiðum sínum, Finnar börðust fyrir frelsinu þar til friðarsamkomulag var undirritað, sem krafðist þess þó að Finnar eftirlétu Sovétríkjum lítinn hluta af landi sínu.
Stríðið var hluti af veruleika ömmu minnar, sem stóð við eldhúsgluggann og horfði á sprengjurnar falla yfir borgina því móðir hennar var með of mikla innilokunarkennd til að festast inni í sprengjuvirki. Einn daginn var amma nýstigin frá glugganum þegar sprengjubrot rakst í rúðuna með þeim afleiðingum að glerið splundraðist yfir eldhúsið. Annan daginn varð hún að hlaupa sem hraðast með fötur fullar af vatni til að slökkva elda í stigaganginum. Níu ára gömul var hún handtekin, hún fann hvernig byssusting var stjakað í bakið á hennar og henni ýtt áfram af ungum hermanni. Svona var lífið, þar til systurnar voru sendar burt úr borginni. Einar í sveit, hjá ókunnugu fólki, á flótta undan stríði. Strax í æsku kynntust þær því hvernig er að glíma við skort á öryggi og nauðsynjum.
Stríðinu lauk en bjó áfram í fjölskyldunni og mótaði ömmu miklu meira heldur en hún hefði nokkurn tímann viðurkennt. Enda var ekki boðið upp á aðstoð í þá daga til að takast á við áfallastreituna, óttann og afleiðingarnar sem birtust okkur sem stöndum henni næst með margvíslegum hætti. Það er það sem stríð gerir. Það býr áfram í þeim sem þurfa að lifa það og gengur síðan á milli kynslóða. Þannig býr stríðið í blóðinu.
Þjóð þvingað inn í sturlunarástand
Amma er nú orðin níræð og dvelur á hjúkrunarheimili þar sem hún heilsaði fyrr í dag upp á páfagauk sem kom í heimsókn. Stundum er gott að halda í hið einfalda, það sem veitir ánægju og gleði. Heilsu sinnar vegna er hún ekki meðvituð um hvað Rússar gera núna, hvernig þeir eru enn að þvinga heila þjóð í stríð sem hún kærir sig ekkert um. Inn í sturlunarástand, þar sem líf tapast, fjölskyldur splundrast og djúp sár myndast.
Í viðtali við Time lýsti forseti Úkraínu því að næturnar væru erfiðastar, þegar hann er lagstur fyrir og myndir af látnum borgurum ásækja hann, vitandi að enn er verið að varpa sprengjum og óbreyttir borgarar sitja fastir í ómögulegum aðstæðum, sírenur væla vegna loftárása og síminn suðar við hlið hans. Skilaboð berast frá konu hans og börnum, sem rússneskar árásarsveitir komu á eftir strax í upphafi innrásarinnar, ráðgjöfum og hermönnum sem eru umkringdir óvinum sem svífast einskis og fremja stríðsglæpi, nauðganir og pyntingar.
Þeim hefur tekist að „særa fram helvíti á jörð“, sagði Volodymyr Zelensky þegar hann ávarpaði Alþingi Íslendinga til að ræða baráttu fyrir frelsinu, landinu sem Rússar vilja sölsa undir sig og menningunni sem þeir vilja afmá. Baráttu fyrir lýðræði og sjálfstæði sem hann sagði Rússa vilja svipta Úkraínumenn, svo þeir verði „ekkert nema hlýðið og auðsveipt vinnuafl“. Alls hefðu 500 þúsund landsmenn verið numdir á brott með valdi og sendir í útnára í Rússlandi, án skilríkja eða farsíma. Allir sem gætu barist fyrir frelsi eru eltir uppi, sagði Zelensky, þeir sem hafa starfað fyrir herinn, blaðamenn, aðgerðarsinna, sveitarstjórnarmenn. „Ógnin er yfirþyrmandi,“ sagði hann.
Rússneski fáninn blaktir við hún
Ekki var liðin vika frá ávarpinu áður en fréttir bárust af sprengjuárás Rússa á skóla í austurhluta Úkraínu. Fjöldi fólks hafði leitað skjóls í skólanum og óttast var að sextíu hefðu látist í árásinni. Áður höfðu Rússar varpað sprengju á barnaspítala og hertekið spítala í Maríupol þar sem læknum og sjúklingum var haldið í gíslingu.
Á meðan blaktir rússneski fáninn í Reykjavík og íslenska lögreglan vaktar rússneska sendiráðið við Túngötu. Rússneski sendiherrann sagði erlendum fjölmiðlum frá „árás á sendiráðið“ á Íslandi. Þar var hann að vísa til þess að geðsjúkur maður hafði reynt að komast inn um læst hliðið eftir friðsamleg mótmæli. Sendiherrann sem réttlætir stríðsrekstur og hótar Íslendingum vegna stuðnings við Úkraínu. „Þetta er alls ekki innrás,“ sagði hann á fyrsta degi innrásarinnar, en forseti Rússlands talaði um aðgerðirnar sem friðargæslu.
Úkraínsk kona lýsti tilfinningunni þegar hún vaknaði við loftárásirnar, þar sem hún var ein í dimmri nóttunni, sem svo að hún hefði skyndilega hætt að vera kona og orðið aftur barn. Upplifað sig varnarlausa, vanmáttuga og viljað láta bjarga sér. Innrás Rússa var hafin og með því hafði hún verið rænd örygginu. Tilfinning sem hún vildi aldrei upplifa aftur.
Stríð er miklu meira en mannfall og sprengjuregn, það er árás á allt sem er heilagt og veldur varanlegum skaða.
Aldrei aftur
Aldrei aftur, var sagt eftir seinni heimsstyrjöldina.
Hér erum við nú samt, að horfa upp á grimmilega árás á nágrannaríki í Evrópu. Tilgangslaust stríð, tilkomið vegna valdasýki. Rússar óttast ekki refsiaðgerðir, voru skilaboðin sem rússneski sendiherrann vildi koma áleiðis við íslenska fjölmiðla þegar stríðið hófst. Þeir hefðu hvort eð er vanist slíku allt frá tímum Sovétríkjanna.
Skeytingarleysið gagnvart afleiðingunum er algjört.
Á hátíðardegi þar sem því var fagnað að 77 ár eru liðin frá sigri yfir nasistum hélt Vladímír Pútín forseti Rússlands ræðu þar sem hann réttlætti árásina á Úkraínu.
Illskan hefur snúið aftur, sögðu Úkraínumenn.
Þennan sama dag stóðu úkraínskir flóttamenn og rússneskir ríkisborgarar hlið við hlið fyrir framan sendiráðið hér á landi, klæddir í hvít klæði og útataðir rauðri málningu sem táknaði blóðbaðið. Þeirra á meðal var Olena, sem er fædd og uppalin í Bucha, þar sem Rússar voru sakaðir um þjóðarmorð. Eftir hersetu þeirra lágu lík almennra borgara á víð og dreif um göturnar og hundruð lágu í fjöldagröfum. Því var lýst af íbúum hvernig menn voru skotnir á leið í kjörbúðina eða út með ruslið. „Ég sé allan þennan hrylling sem Rússar hafa beitt fólkið mitt og ég veit að helsta vopn rússneskra hermanna, rússneskra hryðjuverkamanna, eru nauðganir, pyntingar og að drepa almenna borgara. Við erum hér í dag til þess að láta alla vita að við erum hér og við erum á móti þessum stríðsglæpum sem framdir hafa verið í Bucha og fleiri borgum í Úkraínu, sérstaklega Mariupol.“
Ógnin felst ekki síst í því hvernig komið er fram við óbreytta borgara.
Illskan gagnvart óbreyttum borgurum
„Víglínan liggur í gegnum líkama kvenna,“ sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, nýlega í umræðum um kynbundið ofbeldi.
Í 70 kílómetra fjarlægð frá Kænugarði hitti blaðamaður BBC Önnu, konu á fimmtugsaldri, sem var heima hjá sér með eiginmanninum í byrjun mars þegar rússneskur hermaður ruddist inn, beindi að henni byssu og dró inn í nærliggjandi hús þar sem hann fyrirskipaði henni að afklæðast, ella myndi hann skjóta hana. „Hann hótaði að drepa mig ef ég gerði ekki það sem hann segði. Síðan nauðgaði hann mér.“
Eiginmaður hennar reyndi að koma henni til bjargar en var skotinn og lést af völdum sára sinna. Á meðan hún sagði sögu sína grét hún viðstöðulaust og sýndi svo hvar eiginmaðurinn lá grafinn í bakgarðinum.
Hún var ekki eina fórnarlamb rússneska hermannsins. Áður en hann kom að húsi hennar hafði hann nauðgað og drepið aðra konu neðar í götunni. Nágrannar lýstu því hvernig hún hefði verið dregin út af heimilinu og haldið í svefnherbergi í nærliggjandi húsi. Rúmið var útatað blóði og á speglinum voru áritaðar upplýsingar um gröf hennar.
Þetta mun koma fyrir allar nasistahórurnar, sagði ung kona að rússneskir hermenn hefðu hrópað á meðan þeir nauðguðu sextán ára gamalli systur hennar fyrir framan hana á götum úti.
Í viðtali við íslenska fjölmiðla réttlætti rússneski sendiherrann innrásina með vísun í nasísk öfl í Úkraínu, þar sem forsetinn er gyðingur.
Móttökur Íslendinga
Aldrei aftur.
Óttinn við heimsstyrjöld heldur öðrum þjóðum frá átakasvæðinu, en stuðningur er sýndur með vopnasendingum, fjárframlögum og neyðaraðstoð. Fyrir utan móttöku flóttamanna.
Í síðustu viku höfðu 911 einstaklingar frá Úkraínu sótt um vernd á Íslandi, þar af 246 börn. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að taka á móti 140 einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu, flóttamönnum sem hafa leitað til Moldóvu, fötluð börn og fjölskyldur þeirra, sjúkir, særðir og nánir fjölskyldumeðlimir þeirra.
Ekki allir eru jafn velkomnir til Íslands. Pólitískir flóttamenn frá Hvít-Rússlandi fengu ekki efnislega meðferð fyrr en fjallað var um mál þeirra í fjölmiðlum. Ung kona með fötlun lýsti því í viðtali við Stundina hvernig hún hafði verið handtekin, fangelsuð og pyntuð fyrir að andmæla kosningasvikum, en héðan átti að senda hana aftur til Póllands, þar sem neyðarástand ríkir vegna flóttamannastraumsins frá Úkraínu.
Dómsmálaráðherra hefur lýst áhyggjum af því að fólk sem „hefði ekki heilindin“ með sér væri að nýta tækifærið til að komast inn í Evrópu. Þegar skjóta þurfti skjólshúsi yfir úkraínskri konu á flótta stóð hins vegar ekki á viðbrögðunum: „Kemur hún ekki bara til okkar?“
Þannig endaði varnar- og valdalaus kona heima hjá manninum sem fer með æðsta vald yfir málaflokknum.
Fleiri lýstu sig tilbúna til að hýsa úkraínska flóttamenn: „Get tekið að mér yngri en 35 ára einhleypa konu, væri gott ef hún kynni að dansa salsa.“
Annar bauð þremur einstæðum mæðrum, með tvö börn í mesta lagi, húsnæði gegn sex til átta tíma vinnu á dag.
Miljónir hafa flúið frá Úkraínu, meirihluti þeirra eru konur og börn. Á meðan flestir vilja rétta fólki í neyð hjálparhönd varar sérfræðingur hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu við því að mikill fjöldi karlmanna reyni að nýta sér neyð úkraínskra kvenna á flótta. Strax í upphafi stríðs jókst leit að úkraínskum konum í kynferðislegum tilgangi jókst um 200 til 600 prósent.
Þá hefur landamærasvið ríkislögreglustjóra varað við mansali og smygli á börnum.
Talsmenn friðar
Hvað er hægt að tala um annað en frelsið? spurði forseti Úkraínu í ávarpi sínu.
Fólk sem er að flýja stríð hefur þurft að ganga í gegnum eitthvað sem enginn ætti að þurfa að þola og getur borið þess merki alla tíð. Eins og amma. Lífið verður kannski aldrei aftur samt en ef fólk fær tækifæri til að ná fótfestu á ný, upplifa frið og öryggi, þá getur lífið orðið gott. Fyrir þá sem flýja land skiptir sköpum að vel sé tekið á móti þeim.
Frammi fyrir hörmungum hafa Íslendingar tækifæri til að láta gott af sér leiða. Eitt er að hlúa vel að þeim sem hingað leita, tryggja öryggi þeirra og velferð. Annað er að sýna virkan stuðning, bæði á meðan innrás stendur og eins þegar að uppbyggingu kemur. Þriðja er að taka afstöðu gegn ófriði, ofbeldi og valdbeitingu.
Á alþjóðavettvangi ættu Íslendingar að bregðast við valdasamþjöppun, einræðistilburðum og hvers kyns ógnum við frið og lýðræði. Nýta hvert tækifæri til þess að tala fyrir friði. „Ég hvet ríkisstjórn ykkar, sendifulltrúa og þjóðina alla til að tala fyrir því að beita Rússa enn meiri þrýstingi, að vera málsvarar frelsis alltaf og alls staðar,“ sagði forseti Úkraínu, um leið og hann hvatti Íslendinga til að ástunda ekki viðskipti við einræðisríki. „Kastið ekki peningum í hít einræðisríkisins, veitið því engan opinberan stuðning.“
Áður hefur hann beðið fólk um að líta ekki undan, dofna ekki upp og hætta ekki að hlusta á fréttir af ástandinu.
Með mynd af Pútín í eldhússkápnum
Evrópa sýndi samstöðu með Úkraínu í Júróvisjón, en er ófær um að sýna samstöðu þegar kemur að varnarmálum. Innrásin í Úkraínu varð þess valdandi að Finnar og Svíar óskuðu eftir inngöngu í NATO, en Rússar hafa bæði varað við alvarlegum afleiðingum af inngöngu þeirra og sömuleiðis hernaðaruppbyggingu í þessum heimshluta. Tyrkir taka afstöðu með Rússum og leggjast gegn umsókn Finna og Svía.
Pútín var ekki við völd þegar Sovíetríkin réðust á Finnland, en í huga ömmu var hann táknmynd Rússa og þess sem þeir standa fyrir. Amma var kona sem lifði eftir móttóinu að það væri betra að þegja þegar þú hefur ekkert að segja, en lá ekki á skoðunum sínum þótt hún hafi stundum komið þeim á framfæri með sínum einstaka hætti.
Þess vegna vissum við sem gengum um heimilið hennar vel hvað henni fannst um Rússa. Það var nóg að opna glasaskápinn inni í eldhúsi til að sjá að þar hékk Pútín hengdur upp á þráð. Amma þurfti aldrei að útskýra afstöðu sína, alin upp við innrás Rússa á heimalandið. Ekki frekar en hún útskýrði nokkru sinni hvers vegna hún hafði hengt upp mynd af Pútín inni í eldhússkápnum. Kannski var hún bara að hæðast að honum: Pútín í skápnum.
Amma er vel menntuð og víðförul kona. Í æsku las hún ferðahandbækur í stað barnabóka og lét sig dreyma um ferðalög um heiminn. Að loknu háskólanámi kom hún til Íslands, gekk í hjónaband og eignaðist íslenska fjölskyldu. Ævinni varði hún meðal annars í að láta ferðadraumana rætast og flakkaði um heimsálfurnar. Eitt gat hún þó aldrei hugsað sér, þrátt fyrir einlægan áhuga á Síberíuhraðlestinni gat hún aldrei stigið fæti á rússneska jörð.
Lái henni hver sem vill.
Óttinn hjá henni sem hefur tekið sér bólstað í henni, skelfingin og slæmar minningarnar hja þessari sýrlenskri konu.