Nýverið ollu orð, sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lét falla um Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtakanna í veislu, sem haldin var að loknu Búnaðarþingi, miklum usla.
Þegar verið var að undirbúa hópmynd af þáttakendum þingsins, þar sem mynda átti Vigdísi í svo kölluðum planka, spurði Sigurður að því hvort hann ætti að vera með á mynd „með þeirri svörtu“. Vigdís, sem hefur alið allan sinn aldur á Íslandi, á ættir að rekja til Indónesíu.
Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta einstaka mál, en vil þó nefna að orð Sigurðar Inga eru sprottin upp úr alda gömlum brunni þeirrar trúar að hvítir Vesturlandabúar, einkum og sér í lagi hvítir kristnir karlmenn, skipi efsta þrep í þróunarstiga mannsins. Og í ljósi þess, sé það ekki boðlegt fyrir þá að blanda geði sínu við eða sýna fólki af öðrum litarhætti, vinsemd og virðingu.
Þessi þráláta hugmynd um yfirburði hvíta mannsins byggir á þeirri vissu að beint samband sé á milli húðlitar og hins einstaka andlega og líkamlega atgervis hins hvíta manns.
Það er löngu vísindalega sannað að það er ekki, og hefur aldrei verið, neitt samband á milli heilastarfsemi manneskju, gáfum hennar og getu, og húðlitar hennar. Þessi staðreynd virðist ekki vera öllum ljós, svo til að bæta úr því, ætla ég að endurtaka það, sem ég hef frætt nemendur mína í mannfræði í gegnum árin, um uppruna og eðli hinna mörgu blæbrigða á húðliti mannkynsins.
Uppruni Homo Sapiens, hins vitræna manns, er af flestum talinn vera í Afríku. Oft er sagt að afrísk blökkukona sé formóðir okkar allra. Á undanförnum árum hafa rannsóknir bent til þess, að Homo Sapiens hafi mögulega orðið til á mismunandi stöðum á jarðarkringlunni. Þessir staðir eiga það sameiginlegt að hafa verið hlýir og sólríkir. Í ljósi þess er talið að formæður og forfeður alls mannkynsins hafi verið dökk á brún og brá, eins og meiri hluti manna á jörðinni er reyndar enn þann dag í dag.
Spurning er hvernig stendur á því?
Sólarljósið lék og leikur enn mikilvægu hlutverki í þróun og viðhaldi mannkynsins.
Í árdaga þróaði maðurinn með sér þann eiginleika að vinna D vítamín úr sólinni, en D vítamín gegnir lykilhlutverki í beinamyndum mannsins. D vítamíni má líkja við leiðara, sem gerir mannslíkamanum kleift að vinna kalk, magnesíum og fosfat úr næringunni, en þessi þrjú efni eru undirstöðu efni í beinum okkar og ef skortur er á þeim, fáum við beinkröm.
En eins og oft er, þá fylgdi böggull skammrifi. Húðin, hið stærsta og eitt mikilvægasta líffæri mannslíkamans, reyndist vera afar viðkvæm gagnvart útfjólubláum geislum sólarinnar.
Hin líffræðilegu öfl, þau sem réðu þróun mannsins, brugðust við þessu með því að fá kirtla mannslíkamans til að framleiða efnið melanín, sem ver húð mannsins gegn skaðlegum áhrifum útfjólublárra geisla. Melanín er, eins og oft sagt, innbyggð sólarvörn, en varnarmekanismi melanín felst í því að dekkja húðina og þar með vernda húðina gegn skaðlegum áhrifum útfjólublárra geisla. Það kom þó ekki að sök, íbúar hitabeltisins liðu ekki af D vítamín skorti, því þeir voru léttklæddir og meiri hluti yfirborðs líkama þeirra var ber og fyrir vikið gátu þeir unnið nægjanlegt magn af D vítamíni úr sólinni, þrátt fyrir mikið magn af melanín í húðinni.
Í sögulegu samhengi þróunar mannsins þýddi þetta að því heitara sem loftslagið var og því sterkari sem geislar sólarinnar voru, því meira melanín þurfti mannslíkaminn að framleiða til að lifa af. Þetta skýrir það, af hverju sá hluti mannkyns, sem bjó, og býr enn, við miðbaug, hefur dekkri húðlit, en þeir sem búa í norðar á jarðarkringlunni.
Þegar á leið fóru afkomendur hinna fyrstu manna og kvenna við miðbaug að flytja sig um set, og héldu einkum í norður-og austurátt. Því norðar sem þeir fóru, þurftu þeir að hylja stærri hluta líkamans klæðum til að verjast kaldara loftslagi. Fyrir vikið fengu þeir minni D vítamín skammt frá sólinni í gegnum húðina en ella og í byrjun er talið að margir þeirra hafi þjáðst af D vítamínskorti og fengið beinkröm.
En náttúran sér um sína. Melanín magnið í blóði þessara útflytjenda var mismikið, og þeir sem höfðu minna melanín magn lifðu frekar af og áttu því fleiri afkomendur fyrir vikið. Þetta skýrist af því, að þar sem meiri hluti mannslíkamans var nú þakinn klæðum, var mikilvægt að það litla yfirborð líkamans, sem var bert, (fyrst og fremst var það andlitið) hefði sem minnst af melanín svo hægt væri að vinna nægjanlega mikið D vítamín úr sólinni á þessum litla bletti og tryggja þannig eðlilegan beinvöxt manna.
Í ljósi alls þessa, er það engin tilviljun að frumbyggjar á norðurhveli jarðar, einkum og sér í lagi í mið-og norður hluta hennar, urðu með tímanum ljósir á hörund. Þar ríkti dimma og drungi yfir vetramánuðina og oft var þungskýjað og rigning á sumrin og því bráðnauðsynlegt að hafa sem minnst af melaníni í húðinni til að geta nýtt sér þá fáu sólargeisla, sem í boði voru yfir sumartímann, til að ná sér í nægjanlegt magn af D vítamíni til að lifa af.
Af ofansögðu ætti að vera ljóst, að hið ljósa hörund íbúa norðursins tengist á engan hátt heilastarfsemi hvítra manna og vitsmunum þeirra. Hinn ljósi litarháttur tengist einungis efnaskiptum líkamans, sem þróuðust til að gera fólki kleift að lifa af sólarleysið á norðurhveli jarðar.
Trúin á andlega yfirburði hvíta mannsins hefur valdið miklum skaða í gegnum tíðina jafnt innan Evrópu sem utan. Um þessar mundir sækja þessar hugmyndir í sig veðrið á ný víða á Vesturlöndum. Því hvet ég alla sem vettlingi geta valdið að berjast með alefli gegn tilhneiginu margra hvítra Vesturlandabúa að smána og útskúfa þá, sem búa yfir betri sólarvörn frá náttúrunnar hendi en þeir sjálfir.
Allt frá því að formæður- og forfeður okkar allra fluttust úr hlýjunni við miðbaug í kuldann og myrkrið í norðri, hefur mannkynið verið á ferð og flugi yfir höf og lönd. Meirihluti Íslendinga er kominn af norrænum innflytjendum og á undanförnum áratugum hefur fólk frá nær öllum heimsálfum sest að á Íslandi. Á sama tíma hafa þúsundir Íslendinga flust úr landi og fundið sér samastað í hinum ýmsu löndum.
- En eins og hið ástkæra skáld Tómas Guðmundsson kvað, þá erum við öll gestir á Hótel Jörð … jörð sem er sameign og samastaður okkar allra.
Athugasemdir